Dalbær í Hrunamannahreppi afurðahæsta kúabú Suðurlands 2012

Eins og við sögðum frá í gær er ársuppgjöri skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2012 nú lokið. Að venju höfum við tekið saman lista yfir afurðahæstu búin og kýrnar á Suðurlandi. Eins og undanfarin ár er sá háttur hafður á að búunum er raðað eftir kg verðefna þar sem afurðir eftir árskú og efnainnihald innleggsmjólkur er lagt til grundvallar.
Afurðahæsta búið að þessu sinni er Dalbær í Hrunamannahreppi þar sem meðalafurðir ársins reyndust vera 565 kg MFP eftir árskú og 7.525 kg mjólkur. Í öðru sæti Kirkjulækur í Fljótshlíð með nánast sömu afurðir í verðefnum eða 564 kg MFP eftir árskú og 7.454 kg mjólkur. Þriðja sætinu hampar Reykjahlíð á Skeiðum með 560 kg MFP eftir árskú og 7.492 kg mjólkur. Fjórða sætið skipar svo afurðahæsta bú síðasta árs og handhafi Íslandsmetsins, Hraunkot í Landbroti með 558 kg MFP eftir árskú og mestar afurðir í kg mjólkur eða 7.577 kg. Eins og sjá má er í raun aðeins sjónarmunur milli þessara búa.

Ef ltið er til einstakra kúa þá mjólkaði Snotra 354 á Eystra-Seljalandi mest sunnlenskra kúa á síðasta ári eða 11.782 kg. Snotra er dóttir Hræsings 98046 en afurðahæsta kýr ársins 2011, Týra 120 í Hraunkoti, er einnig dóttir hans. Önnur í röðinni varð Sokka 198 Hegradóttir 03014 í Stóru-Hildisey 2 með 11.094 kg og þriðja Dyrgja 385 Stássadóttir 04024 í Skeiðháholti 3 með 11.036 kg. Á vefinn hjá okkur eru komnir listar yfir afurðahæstu búin og kýrnar.

Sjá nánar:
Afurðahæstu búin á Suðurlandi 2012
Afurðahæstu kýrnar á Suðurlandi 2012


back to top