Geymsla byggs

Korngeymsla
Þurrkað korn: Þegar korn hefur verið þurrkað og kælt niður, eins fljótt og mögulegt er, er nauðsynlegt að geyma það í köldu umhverfi. Þetta er vegna þess að eftir þurrkun og kælingu heldur öndun áfram auk þess sem hætta er á myglumyndun. Hætta á hitamyndun er ekki veruleg hérlendis vegna kalts loftslags nema kornið sé geymt í stórum stæðum, bingjum eða sílóum. Við þær aðstæður getur þurft að blása köldu lofti í kornstæðuna. Ekki er þörf á miklu loftmagni, aðeins 8-17 m3 á klst. á tonn af korni sé rakastig þess lægra en 18%. Við hærra rakastig þarf meira loftmagn. Algengast er að þurrkað korn sé geymt í stórsekkjum hér á landi og virðist það ganga vandkvæðalaust án blásturs.

Votverkað korn:
Algengasta geymsluaðferð votverkaðs korns hérlendis er í pokum (stórsekkjum) sem fóðraðir eru innan með plasti (brettahettum). Eitthvað mun gert af því að plasta stórsekkina með rúlluplasti til þess að tryggja betur loftþéttni. Einnig hafa menn notast við loftþéttar plasttunnur auk þess sem einhverjir bændur hafa látið steypa tanka úr plasti áþekka rotþróm, um 2,2 m3 að rúmmáli. Hvaða aðferð sem notast er við er mikilvægast við geymslu votverkaðs korns að umbúðirnar séu loftþéttar. Kornið skal geyma við eins lágan hita og mögulegt er.

Sáðkorn skal að sjálfsögðu geyma á þurrum og köldum stað. Þó hafa rannsóknir sýnt að auka má spírunarhæfni íslensks heimaræktaðs sáðkorns með geymslu við stofuhita. Það virðist hindra að kornið falli í dvala. Rakamagn sáðkorns má alls ekki fara yfir 15% en æskilegt er að það sé undir 13% eigi að geyma kornið í eitt ár. Sé sáðkorn þurrkað niður fyrir 11% raka ætti fimm ára geymsla að vera nokkuð trygg. Einfölduð regla er sú að fyrir hvert 1% sem rakastig kornsins hækkar um eða hverjar 5°C sem geymsluhiti hækkar um er líftími þess minnkaður um helming. Þá má nefna að í genabönkum er korn geymt við 5% raka og -18 °C.

Hvernig má mæla rakastig kornsins?
Nauðsynlegt er að geta mælt rakastig kornsins sem nákvæmast. Það er ekki alltaf auðvelt. Til eru dýr og vönduð rakamælitæki en líka má koma kornsýnum til nálægra rannsóknastofa t.d. á Hvanneyri, RALA og víðar. Það getur tekið dýrmætan tíma. Einfaldari leiðir koma vel til álita og þá einkum tvær.

1. aðferð:
Vega má tiltekið magn korns inn í þurrkofn (örbylgjuofn eða bakaraofn), og þurrka það þar til þungabreytingum lýkur, t.d. í 2 klst. við 130°C. Kornið er síðan vigtað vigtað að nýju. Rakaprósentuna má þá finna með því að nota eftirfarandi formúlu:


Þungi fyrir þurrkun – þungi eftir þurrkun) x 100
Þungi fyrir þurrkun



Dæmi:
Inn eru vegin 55 g af byggi. Eftir þurrkun vóg sýnið 47,5 g. Reiknuð rakaprósenta er því:
(55-47,5) x100/55 = 13,6% og kornið hefur þar með (1 – 0,136) = 86,4% þurrefni = geymsluþurrt.

Öruggast er að mylja eða merja kornið fyrir þurrkun, þannig þurrkum við vatnið hraðast og best úr sýninu og fáum hvað réttasta mælingu á rakastiginu. Minna verður á mikilvægi þess að vanda sýnatökuna. Í misþroska korni getur verið töluverður munur á rakastigi kornsins frá einum skammti til annars. Minnumst þessa þegar sýnið er tekið og niðurstða mælingarinnar túlkuð.

2. aðferð:
Þessa aðferð má nota við korn á rakastigsbilinu 6-30%. Hún byggist á því að hagnýta sér það jafnvægi sem á hæfilegum tíma myndast á milli raka í korni og rakastigs loftsins yfir korninu í lokuðu íláti.

Kornsýnið er sett í ílát eða traustan plastpoka. Loftrakamælir er lagður ofan á kornið og ílátinu/pokanum lokað loftþétt. Að liðnum 2-4 klst er lesið af mælinum (gott er að banka létt í hann áður). Með því að bera aflesturinn saman við meðfylgjandi mynd má fara mjög nærri um rakastig byggsins.









Mynd 1. Samhengi rakastigs í byggi og vatnsvirkni þess. Vatnsvirknina má mæla með einföldum hárrakamæli. Til þess að teljast vel geymsluhæft þarf vatnsvirkni kornsins að komast niður fyrir 0,70 (70%); þá er rakastig kornsins komið niður fyir 13%.




Við þessa mælingu þarf að huga að tvennu:

– að loftrakamælirinn sé réttur
– að gera mælinguna við stofuhita (18-21°C)

Sé mikið í húfi varðandi rakastig kornsins er rétt að treysta þessa mælingu með vandaðri þurrkunarmælingu í ofni.

Vandaða hárrakamæla hefur mátt fá í byggingarvöruverslunum, apótekum og víðar. Best er að þeir séu stillanlegir. Þannig má stilla mælana:

Mælir er lagður í bleytt en þurrundið handklæði. Að 20-30 mínútum liðnum á rakamæliriinn að sýna 98-9% loftraka.
Búin er til mettuð upplausn af matarsalti; rakamæli komið fyrir í henni í loftþéttu rými. Að 20-30 mínútum liðnum á rakamælirinn að sýna 76% loftraka. Mettuð er upplausnin ef botnfall verður af matarsaltinu. Nota þarf a.m.k. 1 hluta af salti í 4 hluta af vatni miðað við rúmmál.

Hárrakamæla þarf að stilla reglulega svo þeim megi treysta.

Byggt að verulegu leyti á kennslubókinni „Verkun og geymsla korns“ eftir Bjarna Guðmundsson prófessor við LBH, með góðfúslegu leyfi höfundar.

Annað
Greinar, erindi og frekari upplýsingar:

Bjarni Guðmundsson, Björn Þorsteinsson og Daði Már Kristófersson 1999: Að bjarga byggi. Ráðunautafundur 1999.
Þórarinn Leifsson og Bjarni Guðmundsson, 2002: Verkun og geymsla byggs með própíonsýru – nokkrar niðurstöður tilrauna og reynsla bænda. Ráðunautafundur 2002.

back to top