Íblöndun própíonsýru í korn
/Bændablaðið, 14.tbl., 9. árg.
2. september 2003
Íblöndun própionsýru í korn
Eftir Þórarinn Leifsson
Það hefur færst í vöxt að bændur verki korn sitt með því að blanda í það própionsýru. Sé rétt að verki staðið er þetta örugg aðferð við verkun á korni. Própionsýran rotver kornið og kemur í veg fyrir orkutap vegna óæskilegrar gerjunar í korninu. Própionsýran gerir kornið mjög lystugt og eykur fóðurinnihald þess lítillega þar sem sýran sjálf nýtist jórturdýrum sem fóðurefni.
Til að vel takist til með verkun kornsins þurfa bændur að hafa eftirfarandi atriði í huga:
Geymslur:
Geymslur þurfa að vera hreinar, helst klæddar með plasti að innan (bæði gólf og veggir). Sýrt korn má ekki komast í snertingu við steypu, járn eða óhreina fleti. Innan í stórsekki þarf að setja þunna plastpoka til að verja kornið óhreinindum úr umhverfi. Ef kornið er sett í stæður er betra að setja í tvær til þrjár minni stæður en eina stóra til að minnka áhættu á skemmdum ef einhver mistök verða. Breiða þarf yfir kornið til að verja það hrímleka úr þaki geymsluhúsnæðis
Búnaður og vinnuferli:
Sá búnaður sem þarf til íblöndunar er sýrudæla, rennslismælir og snigill. Hafa þarf í huga að húða þarf hvert einasta korn og sú húðun þarf að eiga sér stað í sniglinum. Því þarf 4 tommu snigill að vera að lágmarki 8 m langur til að nægjanleg blöndun fáist. Sverari snigill þarf að vera hlutfallslegri lengri ef nýta á afköst hans. 4 tommu snigill er að afksata 7-8 tonnum á klst. miðað við 45° halla. Áður en sýring hefst þarf að láta dæluna dæla sýrunni í hring (í tunnuna aftur) þannig að ekkert loft eða vatn (úr síðasta þvotti) sé í slöngunum að sniglinum. Gæta þarf þess sérstaklega að klára ekki úr sýrutunnunum þannig dælan fari að draga loft.
Þegar íblöndun hefst er rétt að fylgja eftirfarandi vinnuferli:
1. Setja sýrudælu í gang og stilla á fullt rennsli
2. Setja snigil í gang
3. Láta kornið fara að renna
4. Rennslismæla snigilinn
5. Stilla sýrurennslið m.t.t. kornmagns
Þegar íblöndun er hætt er fyrst slökkt á sniglinum og eftir það á sýrudælunni.
Íblöndunarmagn:
Þær tilraunir sem gerðar hafa verið hér á landi benda til þess að lágmarksmagn própionsýru sé 12kg/tonn af korni, miðað við geymslu fram yfir áramót. Rétt er að auka magnið í að a.m.k.18-20 kg/tonn ef:
1. – geyma á kornið fram á vor
2. – verið er að þreskja í bleytutíð
3. – verið er að þreskja eftir að náttfall er komið
4. – kornið er misþroska og mikið er um grænt korn
5. – kornið liggur á akrinum og hætta er á að óhreinindi berist í kornið við þreskingu
6. – verið er að setja efsta lag í stæðu
7. – snigillinn er stuttur
Eftirlit:
Sé ferli verkunarinnar eðlilegt þornar yfirborð stæðunnar þegar líður á haustið og helst þannig meðan ekki er hreyft við því. Þegar farið er að gefa úr stæðunni þarf að gefa jafnt og þétt úr henni. Ef gera þarf langt hlé á gjöfum þarf að loka sárinu með plastdúk.
Ef rétt er að verki staðið á verkun kornsins að vera örugg. Í stórum stæðum er þó æskilegt að koma fyrir hitamæli til að fylgjast með verkuninni. Fari hitinn í stæðunni yfir 25°C þarf að athuga hvað orsakar hitann. Própionsýra er rokgjörn, þ.e. hefur lágt suðumark. Tilraunir hafa sýnt að fari hitinn yfir 25°C í stæðunni gufar própionsýran hratt upp. Við það hverfur rotvörnin og myglumyndun hefst. Eftir að myglumyndun er farin í gang hækkar hitinn mjög hratt og kornið eyðileggst.