Verkun byggs
Inngangur
Við verkun og geymslu byggs þarf að gæta að nokkrum sjónarmiðum:
- * vinnu við uppskeruna og frágang hennar
- * kostnaði við kaup og rekstur búnaðar, svo og kaup aðfanga
- * afdrifa byggsins í geymslu, þ.m.t. geymslutaps
- * fóðurfræðilegra atriða
Hér verður stiklað á nokkrum þáttum sem snerta verkun og geymslu byggs.
Þurrkun
Til þess að byggið þoli langa geymslu þarf þurrefni þess að vera a.m.k. 86%; ella getur það myglað og skemmst – jafnvel orðið hættulegt fóður.
Það kostar orku að þurrka vatnið úr bygginu. Vatnsmagnið, sem þurrka þarf, ræðst af þurrefni byggsins við þreskingu. Glögga hugmynd um þetta vatnsmagn má fá þannig:
(100 – þurrefni)/þurrefni – 0,16 = ….. kg af vatni á kg þurrefni.
Tökum bygg sem hefur 65% þurrefni: (100-65)/65 – 0,16 = 0,38 kg vatns/kg þe.
Vegna kostnaðar er tæpast gerlegt að þurrka bygg sem hefur minna en 55% þurrefni (þá er þurrkunarþörfin 0,66 kg vatn/kg þe.). Það ræðst þó m.a. af verði orkugjafa til þurrkunarinnar.
Við þurrkun byggs er einkum beitt tvenns konar aðferðum
a. stíuþurrkun
b. færiþurrkun (þurrksíló)
Stíuþurrkuninni má líkja við súgþurrkun á heyi og er þurrkun í stæðu. Færiþurrkunin er vélvædd; byggið er þurrkað í sérbyggðum turnum sem það færist um meðan á þurrkun stendur. Með einfölduðum hætti má bera aðferðirnar saman þannig:
Stíuþurrkun | Færiþurrkun |
Minni fjárfesting | Meiri fjárfesting |
Meiri vinna | Minni vinna |
Lakari orkunýting | Betri orkunýting |
Hentar litlu magni | Hentar meira magni |
Þurrkun misjafnari | Þurrkun jafnari |
Bygguppskeran fellur til á fremur skömmum tíma og oft þarf að koma miklu magni undan á góðum kornskurðardögum. Hvort tveggja gerir miklar kröfur til þurrkunarafkasta og skipulags þurrkunarinnar. Við þurrkarakaup og/eða hönnun þurrkunaraðstöðu verður því að taka tillit til magnsins sem þurrka á svo og meðalvatnsmagnsins sem þurrka þarf úr bygginu.
Súrsun byggs – votverkun
Bygg má votverka með ýmsum hætti. Þessar leiðir koma einkum til álita:
- súrsun í loftþéttum geymslum (náttúruleg)
- súrsun í loftþéttum geymslum með própíonsýru
- súrsun í opinni geymslu með própíonsýru
Bygg sem súrsað er t.d. í stórsekkjum getur verkast ágætlega ef súrefnið er útilokað fullkomlega og ef byggið er ekki of blautt; þurrefni þess ætti ekki að vera minna en 60%. Innlend reynsla sýnir að töluvert getur gengið úr bygginu við geymslu, m.a. vegna gata á umbúðum. Gerjun byggsins getur líka farið úr böndum (etanólmyndun) svo efnatap verður úr hófi. Aðferðin er fremur vinnufrek bæði við hirðingu og gjafir. Hún getur hins vegar verið mjög ódýr. Hæfir best takmörkuðu byggmagni.
Með því að nota própíonsýru við verkun byggs í loftþéttum geymslum má auka öryggi verkunarinnar og jafna hana. Rétt er að nota 5 lítra af sýru í hvert tonn af byggi. Mikilvægt er að úða sýrunni vel í byggið, t.d. með því að velta því í gegnum 6-8 m langan snigil, sem sýrunni er úðað neðst í.
Reynsla er fyrir því að geyma megi própíonsýruvarið bygg í opinni en yfirbreiddri stæðu (í bing, stíum, gryfjum) en þá þarf að nota mun meira af sýru í hvert tonn byggs. Þrennu þarf að tryggja
· rétt magn af sýru
· jafna dreifingu sýrunnar í byggið
· fullkomið hreinlæti við alla meðferð byggsins og geymslu þess
Best er að þurrefni byggsins sé ekki undir 60%. Erlendis er ráðlagt að nota þetta sýrumagn:
76% þe. 10l/tonn
68% þe. 15 l/tonn
60% þe. 21 l/tonn
Innlendar athuganir og tilraunir benda til þess að komast megi af með minna magn. Sé þurrefni byggsins 55% ætti til dæmi ekki að fara niður fyrir 15 l/tonn eigi að geyma byggið fram á útmánuði.
Mikilvægt er að gæta hreinlætis við slátt og þreskingu byggsins, og að geymslur og umbúðir séu hreinar. Ella er hætta á skemmdum (mygluðum) kögglum út frá óhreinindunum í bygginu.
Bjarni Guðmundsson, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri samdi textann um þurrkun og votverkun.
Lútun / möltun
Lútun er öfugt ferli við sýringu eða súrsun, þ.e. með íblöndun lúts er sýrustigið (pH) hækkað. Með þessu vinnst einkum tvennt: Lignin, í kornskurninni, brotnar niður og meltanleikinn eykst. Sterkjan verður aðgengilegri og völsun eða grófmölun kornsins verður ekki nauðsynleg. Korn er þó oft valsað fyrir lútun. Auk þessa stöðvast lífshræringar kornsins. Lútun vill hafa neikvæð áhrif á lysininnhald.
Í meginatriðum er um þrjár aðferðir að ræða við lútun, þ.e. votlútun, þurrlútun og ammóníakmeðhöndlun. Algengast er að notaður sé lútur, natríumhydroxíð (NaOH), sem er mjög vandmeðfarið og hættulegt efni. Mikilvægt er að lúturinn blandist vel saman við kornið og er oftast hrært saman við það í fóðurblöndurum. Í korn þarf um 5% lút, m.v. þunga kornsins og mismikið af vatni eftir rakastigi þess. Sé rakastig kornsins yfir 25% þarf um 100 l. í tonnið en við 20% raka þarf 200 l. Blöndunin tekur ekki nema 5-10 mín. og síðan er kornið látið kólna í einn dag með því að breiða úr því. Eftir kólnun er það sett í geymslu en fóðrun má hefja 4 dögum eftir lútun.
Til lútunar má einnig telja meðhöndlun korns með úrefni (urea) en hún hækkar sýrustig kornsins í u.þ.b. pH 8,5. Úrefni hentar betur við verkun heils korns en valsaðs og hefur reynst auka próteininnihald þess. Verkun með úrefni myndar ammóníak sem drepur örverurnar, eins og myglusveppi. Við íblöndun passar að blanda 20-25 kg úrefnis í hvert tonn af korni og sé rakastig þess yfir 40% auka íblöndunina upp í 3% af þunga.
Möltun er að búa til malt úr byggi með því að láta fræið spíra við tilteknar aðstæður. Við það myndast í því ensím eða hvatar sem brjóta niður sterkjuna í fræforðanum. Þannig myndast maltósi og dextrín. Eftir möltun er kornið tekið til ölgerðar.
Maltbygg er aðeins frábrugðið því byggi sem notað er til fóðurs eða manneldis. Kornastærð þarf að vera sem mest og sem jöfnust. Venjulega er m.v. að 90% korna, í tveggjaraða byggi, séu stærri en 2,4 mm. Auk þess verður próteininnihald að vera sem lægst og ræður það miklu um verðið. Fleiri kröfur eru gerðar eins og að rúmþyngd maltbyggs skal lægst vera 670 g/l og spírunarhæfni a.m.k. 95%. Vel er hugsanlegt að framleiða mætti maltbygg við íslenskar aðstæður.
Við möltun er kornið fyrst stærðarflokkað og hreinsað en að því loknu sett í hólklaga tank. Inn í tankinn streymir kalt vatn, við botninn, og á 2-3 dögum fljóta þau óhreinindi sem eftir voru upp á yfirborð vatnsins. Kornið drekkur í sig vatn en engin spírun hefst vegna kulda og súrefnisskorts. Spírun getur farið fram á marga vegu og mörg framleiðsluleyndarmál varðveitt þar að lútandi. Í stórum dráttum er ein aðferð á þá vegu að byggið er lagt í kassa, u.þ.b. 1 mm þykkt lag. Þetta er vökvað og hrært í af og til við lágt hitastig. Kornið maltast á 5-6 dögum og er þá orðið mjúkt og sætt á bragðið. Það er þá flutt í botngataða kassa og heitt loft, frá eldi, sogað í gegn. Af og til er brennisteini hent á eldinn til þess að bleikja maltið. Fullþurrt er maltið síðan vélhreinsað og allir sprotar teknir af því. Úrganginn má nýta sem fóður.
Annað
Greinar, erindi og frekari upplýsingar:
Bjarni Guðmundsson, Björn Þorsteinsson og Daði Már Kristófersson 1999: Að bjarga byggi. Ráðunautafundur 1999.
Þórarinn Leifsson og Bjarni Guðmundsson, 2002: Verkun og geymsla byggs með própíonsýru – nokkrar niðurstöður tilrauna og reynsla bænda. Ráðunautafundur 2002.