1. fundur 2003

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands haldinn þann 31. janúar 2003 að Höfðabrekku í Mýrdalshreppi. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson og Guðni Einarsson. Þá var Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri einnig mættur.


  1. Kjarasamningaviðræður. Rætt var um kjarasamningsgerð við ráðunauta.
  2. Búnaðarþingskosningar. Stjórnin leggur til að kosningin verði póstkosning. Skipað í kjörstjórn fyrir búnaðarþingskosningar, sem fram fara á árinu: Þorfinnur Þórarinsson, formaður, Þórir Jónsson og Ólafur Einarsson. Til vara: Guðmundur Stefánsson, Ragnar Lárusson og Margrét Guðmundsdóttir
  3. Lífeyrisskuldbindingar. Bréf frá Bændasamtökum Íslands þar sem óskað er eftir afstöðu Búnaðarsambands Suðurlands til tillögu um að greiða hlut allra búnaðarsambandanna í lífeyrisskuldbindingum starfsmanna sinna af óskiptum opinberum framlögum til samtakanna eða óskiptu búnaðargjaldi. Stjórnin hafnar þessari tillögu.
  4. Heyefnagreiningar. Fyrir lá tillaga frá Nautgriparæktarfélagi Hrunamanna um að BSSL geri þjónustusamning við RALA og LBH þar sem kveðið sé á um að niðurstöður heyefnagreininga berist innan 20 daga frá því að sýnin fara. Stjórnin telur rétt að leita eftir samningum um heyefnagreiningar.
  5. Starfsmannahald og starfsemin. Talið er nauðsynlegt að ráða starfsmann til að hægt sé að fylgja Sunnu-verkefninu og jarðræktarverkefnum betur eftir. Fram kom að uppi eru hugmyndir um frekara starf fyrir hrossabændur. Samningur hefur verið gerður við Lánasjóð landbúnaðarins um áætlanagerð í tengslum lánsumsóknir.
    Fyrir lá bréf þar sem samstarfssamningi um endurmenntun við Landbúnaðarháskólann er sagt upp.
    Kynnt var þáttaka í sauðfjársæðingum og árangurinn, sem var í lakara lagi.
  6. Landbúnaður og atvinnumál í V-Skaftafellssýslu. Á fundinn komu sveitarstjórnarmenn úr sýslunni. Sveinn Sigurmundsson fór yfir samantekt um þróun búskapar á svæðinu. Kúabúin eru minni í V-Skaft, en vestar á Suðurlandi, en mörg eru blönduð bú. Sauðfjárrækt er mikil, en horfur ískyggilegar. Ferðaþjónusta er talsverð. Rætt var um stöðuna og framtíðarmöguleika, bæði hvað varðar landbúnaðinn og önnur tækifæri.
  7. Önnur mál. Sveinn Sigurmundsson kynnti drög að samantekt um meðferð og vörslu trúnaðarupplýsinga fyrir Búnaðarsambandið. Samþykkt að fela Sveini að vinna áfram í málinu.
    Guðmundur skýrði frá störfum laganefndar.
    Egill las upp minnisblað frá vinnuhópi um málefni nautakjötsframleiðslu.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og fundi slitið.
Guðmundur Stefánsson, fundarritari.


back to top