1. fundur – haldinn 19. janúar 2018

 

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Borghildur Kristinsdóttir en Erlendur Ingvarsson boðaði forföll, Ragnar Lárusson Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Sigurjón Eyjólfsson og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð.

1. Síðustu fundargerðir bornar undir atkvæði.

2. Fréttir af vettvangi BÍ og bændafundum. Nýlokið er fundarherferð Bændasamtakanna en Gunnar Kr Eiríksson mætti þar með framsögu um búvörusamninga ofl. Mikið rætt um félagskerfi bænda, væntanlegan innflutning á hráu kjöti, tollasamninga sem taka eiga gildi 1. maí nk og um aukna kolefnisbindingu með endurheimt votlendis.

3. Stutt yfirlit yfir starfsemi liðins árs og stöðu fyrirtækjanna. Sveinn fór yfir starfsemi liðins árs en starfsemin gekk um margt vel. Mikil vinna var við úttektir í nýju kerfi vegna landgreiðslna og jarðræktarstyrkja og alls liðlega þúsund vinnustundir sem fóru í það. Nýr endurskoðandi hefur verið ráðin til að aðstoða okkur við uppgjör bókhalds Búnaðarsambandsins og fyrirtækja þess.

4. Fréttir af einangrunarstöð fyrir holdagripi á Stóra Ármóti. Framkvæmdum að mestu lokið og 146 milljónir komnar í verkefnið frá því að það byrjaði fyrri hluta árs 2016. Keyptar voru 42 kýr og fósturvísum komið fyrir í 33 af þeim í desember. Þorsteinn Ólafsson annaðist það verk. Svo virðist sem a.m.k 10 kýr hafi fest fang en endanleg tala mun liggja fyrir að aflokinni fangskoðun. Kýrnar bera svo í september. Fleiri fósturvísar verða keyptir frá Noregi en fyrir hugað er að setja fósturvísa að nýju upp í ágúst.

5. Að afloknum sauðfjársæðingum. Þátttaka í sauðfjársæðingum dróst saman um 3665 ær og kom ekki á óvart miðað við tekjuskerðingu á sauðfjárbúum í haust. Vertíðin gekk þó að flestu leyti vel og veðrið hagstætt til sæðisflutninga.

6. Félagsgjöld og innheimta þeirra. Aðildarfélögin sjá um innheimtu félagsgjalda fyrir utan 2 félög sem óskuðu eftir því að Búnaðarsambandið sæi um innheimtu félagsgjaldsins sem renna á til þess. Stjórnin lítur svo á að þrátt fyrir að í 5.gr samþykkta þess sé gert ráð fyrir því að aðildarfélögin annist og standi skil á innheimtu félagsgjalda sé ekkert sem banni að bjóða aðildafélögunum upp á þjónustu. Stjórnin fól Sveini og Ragnari að skoða þessi mál og koma með tillögu um samþykktarbreytingar fyrir aðalfundinn ef þurfa þykir.

7. Undirbúningur fyrir Búnaðarþing. Ákveðið var boða búnaðarþingsfulltrúana á fund föstudaginn 26. janúar til að undirbúa tillögugerð fyrir Búnaðarþing.

8. Formannafundur BSSL. Ákveðið var að halda formannafund föstudaginn 2. febrúar á Stóra Ármóti. Byrjað á að heimsækja einangrunarstöðina og svo skoða breytingarnar í fjósinu á Stóra Ármóti en í haust var fjósinu breytt úr básafjósi í lausagöngu með legubásum. Á fundinum verður tekin fyrir umræða um kolefnislosun einkum í sambandi við endurheimt votlendis. Starfsemi staða og hlutverk Búnaðarsambandsins verður til umfjöllunar ásamt tillögum sem búnaðarþingsfulltrúar ætla að leggja fyrir Búnaðarþing.

9. Aðalfundur BSSL. Að þessu sinni verður hann í Rangárvallasýslu. Fram kom hugmynd um föstudaginn 13. apríl og að hann verði í Smáratúni í Fljótshlíð.

10. Erindi frá Selfossveitum um að fá alla jörðina á Stóra Ármóti til jarðhitarannsókna. Stjórnin er jákvæð fyrir málinu og eftir nokkra umræðu var Gunnari, Helga og Sveini falið að ganga til viðræðna við stjórn Selfossveitna um nýjan leigusamning en ekki yrði hreyft við þeim leigusamningi sem í gildi er.

Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson


back to top