2. fundur 2002

Fundargerð
Stjórnarfundur Búnaðarsambands Suðurlands.
27. febrúar 2002

Þann 27.febrúar 2002 var haldinn stjórnarfundur Bs.Sl. í Skálholti. Allir stjórnarmenn mættir ásamt framkvæmdastjóra.

  1. Tillögur til Búnaðarþings.
    Sveinn kynnti tillögur og mál til Búnaðarþings svo sem nefndarálit um skipulag og aðsetur Bændasamtakanna, skipulag ráðgjafarþjónustu þeirra og nýtingu búnaðargjalds. Til umræðu er hvort hagkvæmt sé að selja núverandi húsnæði í Bændahöll og finna landsráðunautaþjónustunni nýjan stað annað hvort í Reykjavík eða í tengslum við landshlutaleiðbeiningamiðstöðvar. Einnig er til umræðu lækkun búnaðargjalds. Stjórnin er sammála um almennar aðgerðir í byggðamálum, s.s. bættar samgöngur og símkerfi og að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði nýttur til að styrkja grunnskólastarf áfram í fámennari byggðarlögum.
    Stjórnin telur ekki hægt að breyta búnaðarþingsfulltrúatölu einstakra búnaðarsambanda í samþykktum Bændasamtakanna nema til bráðabirgða, ef þær eru í ósamræmi við fulltrúafjölda annara búnaðarsambanda miðað við bændafjölda og sjóðagjaldatillög.
    Stjórnin telur brýnt að efla grunnrannsóknir á eiginleikum íslensku kýrinnar og telur að til þess eigi að nýta það fjármagn sem sérmerkt hefur verið til ræktunar íslensku kýrinnar.
  2. Starfsmannahald og starfsemin.
    Sveinn fór yfir starfsmannahald og starfsemina undanfarið og hvernig skipuleggja ætti hana næstu missiri. Nokkrar umræður urðu um mikla vinnu við sauðfjársýningar á haustin og sýningagjöld í hrossarækt.
  3. Afmælisrit.
    Samþykkt að semja við Pál Lýðsson um að afla gagna í afmælisrit fyrir 100 ára afmæli Búnaðarsambandsins árið 2008.
  4. Önnur mál.
    Bernharð Guðmundsson rektor Skálholtsskóla fór yfir starfsemi skólans. Þá var farinn kynnisferð um sveitina. Skoðað var endurbætt fjós með legubásum á Spóastöðum og nýtt fjós með mjaltaþjark að Miklaholti. Garðyrkjubýlin að Gufuhlíð þar sem framleiddar eru gúrkur undir raflýsingu og Espiflöt þar sem blóm eru framleidd í miklu magni. Að endingu var komið á nýjan og skemmtilegan veitingastað í Reykholti sem heitir Klettur. Þar mætti Sveinn Sæland oddviti Biskupstungnahrepps og fræddi stjórnina um starfsemi sveitarfélagsins.

Fleira var ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.

Guðmundur Stefánsson,
fundarritari.


back to top