2. fundur 2005

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 4. mars 2005 á skrifstofu Búnaðarsambandsins á Selfossi og hófst kl. 11.00. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson, Ragnar Lárusson varamaður sat fundinn í forföllum Egils Sigurðssonar. Þá sat fundinn Bjarni Hákonarson formaður BASK og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.

1. A-Skaftafellssýsla. Sveinn skýrði frá ferð í A-Skaftafellssýslu, þar sem BSSL hefur tekið að sér leiðbeiningaþjónustu. Tilgangur ferðarinnar var að hitta bændur og kynnast stöðunni þar. Bjarni sagði að veruleg ánægja væri þar eystra með hinn nýgerða samstarfssamning milli BSSL og BASK og hugur í fólki að nýta sér þá möguleika sem hann býður upp á. Samkvæmt Búnaðarlagasamningi á Búnaðarsambandið rétt á fjarlægðarframlagi vegna samstarfssamningsins.
2. Aðalfundur og fjármál. Ákveðið að halda aðalfund BSSL að Goðalandi í Fljótshlíð síðasta vetrardag, 20.apríl nk. Unnið er að ársuppgjöri. Nokkrar tölur voru kynntar á fundinum. Ákveðið að leita eftir heimild landbúnaðarráðuneytisins til hækkunar á gjaldskrá BSSL. Ákveðið að sækja um framlag út á þróunarstarf í gæðastýringar í sauðfjárrækt.
3. Samstarf við LBHÍ. Undir þessum lið sátu fundinn Ágúst Sigurðsson rektor LBHÍ á Hvanneyri, Grétar Hrafn Harðarson tilraunastjóri á Stóra-Ármóti og Runólfur Sigursveinsson ráðunautur. Farið var yfir það hvernig samstarfi hefur verið háttað um tilraunastarfið á St.-Ármóti. Ágúst sagði frá sinni sýn á samstarfið í framtíðinni.Grétar skýrði frá stefnumótun í verkefnavali á tilraunafjósunum á Stóra-Ármóti og á Hvanneyri. Ákveðið að yfirfara og endurnýja samstarfssamkomulag milli þessa aðila. Þá fór Runólfur yfir aðkomu búnaðarsambandsins að verknámi nemenda og að endurmenntunarnámskeiðum á vegum LBHÍ og rætt var um framhald á því.
4. Stóra-Ármót. Grétar Hrafn, sem sat fundinn áfram undir þessum lið, skýrði frá því að heilfóðurbúnaðurinn virðist ætla að reynast mjög vel. Kýrnar hafa mjólkað mjög vel. Þá skýrði hann frá tilraun með uppeldi kvígukálfa.
5. Starfsmannamál. María Karen Ólafsdóttir hefur hafið störf við Bændabókhald tímabundið í stað Guðbjargar Jónsdóttur.
6. Landmælingar. Rætt var um mælingatækni. Ákveðið að skoða fyrst samstarf við Skógræktina um GPS mælingatæki, en hugsanlegt er að kaupa nákvæmara tæki síðar.
7. Önnur mál. Rætt var um úrræðaleysi varðandi förgun rúlluplasts og endurgreiðslu á skilagjaldi. Farið var yfir málaskrá Búnaðarþings.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin, samþykkt og fundi slitið.


back to top