2. fundur – haldinn 28. mars 2018
Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Sigurjón Eyjólfsson og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Á fundinn mættu svo Þórir Ólafsson fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækisins Álands, Ólafur Þór Þórarinsson og Helga Sigurðardóttir.
1. Reikningar teknir til afgreiðslu og undirritunar.
BSSL að meðtöldum dótturfélögum var með um 292 milljónir í rekstrartekjur sem er aukning frá fyrra ári úr um 280 milljónum. Rekstrargjöld voru 293,6 milljónir og var því rekstrartap upp á 1,6 milljónir. Fjármunaliðir skila 3,6 milljónum sem er þó aukning frá fyrra ári þar sem þeir skiluðu 2,1 milljón. Hagnaður með vaxtatekjum er því rúmar 2 milljónir króna en eftir skatta er það rúm milljón sem er í hagnað.
Samkvæmt efnahagsreikningi eykst eigið fé um rúma milljón og er nú 254,6 milljónir. Eignir lækka hinsvegar sem skýrist af því að eignir og skuldir voru færðar yfir í dótturfélög. Áhrif þess má sjá í sjóðstreymi en þar lækka rekstrartengdar eignir og skuldir um 9,6 milljónir en höfðu árið á undan hækkað um 8,6 milljónir. Veltufjármunir aukast úr 157,2 milljónum í 161,6 milljónir. Eiginfjárhlutfall vex úr 85,8 % í 91,6 %. Í efnahagsreikningi samstæðunnar koma fram bókfærðar eignir upp á 311 milljónir króna.
Búnaðarsambandið (aðalskrifstofan) er með veltu sem nemur um 77,5 milljónum og hagnað upp á 1,1 milljón króna þegar búið er að taka tillit til dótturfélaga og skatta. Reynt var að hagræða á síðasta ári m.a með því að fækka og breyta ráðningarfyrirkomulagi starfsfólks, selja bíl og taka við nýjum verkefnum.
Bændabókhald ehf. velti 35,4 milljónum og var með tæpar 400 þúsund kr í hagnað. Verkefnin eru að aukast og áhugi er á að auka starfsemina. Starfsmenn eru núna fjórir og viðskiptamenn á þriðja hundrað.
Á Stóra Ármóti voru rekstrartekjur um 54,7 milljónir. Rekstrargjöld voru 47,3 milljónir og hagnaður 6,3 milljónir þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða. Á árinu var farið í miklar framkvæmdir í fjósinu og því breytt í lausagöngufjós. Mikilvægt er að nýta aðstöðu á Stóra Ármóti meira tengt rannsóknum og athugunum
Kynbótastöð ehf. sá um allan rekstur á sæðingum og klaufsnyrtingu á síðasta ári og rekstrartekjur voru um 144 milljónir. Tap varð á rekstri á árinu upp á 3,1 milljón og þar af var tap á sauðfársæðingum rúmlega 1 milljón en um 25% samdráttur varð á síðasta ári í sölu á hrútasæði enda rekstur sauðfjárbúa erfiður um þessar mundir. Alls voru klaufir snyrtar á 5663 kúm á síðasta ári sem er aukning um 1000 kýr milli ára.en fjöldi nautgripasæðinga var svipaður milli ára.
Að loknum umræðum þar sem Þórir skýrði reikningana ennfrekar voru þeir undirritaðir.
2. Undirbúningur fyrir aðalfund.
Aðalfundurinn verður föstudaginn 13. apríl að Smáratúni í Fljótshlíð. Fundurinn hefst kl 11:00 og verður að venju byrjað á því að flytja skýrslur og skýra reikninga. Gestir með erindi verða Sigurður Eyþórsson BÍ og Runólfur Sigursveinsson RML. Nefndir sem starfa á fundinum verða fjárhags-, allsherjar-, og fagmálanefnd. Stjórnin ákvað að leggja til að árgjald til sambandsins yrði kr 5000,- fyrir starfsárið 2018. Kosið verður um stjórnarmenn úr Rangárvallasýslu og fram kom að bæði Erlendur og Ragnar gefa kost á sér áfram.
3. Samningur við Selfossveitur um hitaréttindin á Stóra Ármóti.
Á síðasta stjórnarfundi var Gunnari, Helga og Sveini falið að ganga til samninga við Selfossveitur um hitaréttindin á þeim hluta Stóra Ármóts þar sem ekki hafði verið gerður samningur áður. Þeir kynntu samninginn sem m.a. fól í sér 5 milljón króna eingreiðslu við undirritun.
4. Staðan hjá Nautís.
Fram kom að 153 milljónir hafa farið í verkefnið frá byrjun. Framkvæmdum er að mestu lokið en þó er eftir að steypa stétt, laga planið fyrir utan húsið og ljúka við innréttingarnar í kálfahlutanum. Búið er að panta fleiri fósturvísa frá Noregi og stefnt að því að setja þá upp í ágúst.
5. Önnur mál.
Búrekstur á Stóra Ármóti sem og fleira því tengt var til umfjöllunar.
Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson