3. fundur – haldinn 3. apríl
Stjórnarfundur BSSL 3/2013
Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Guðbjörg Jónsdóttir, Erlendur Ingvarsson, og Ragnar Lárussonar og Jón Jónsson og Gunnar Kr. Eiríksson. Þá sat Sveinn Sigurmundsson fundinn. Síðar mættu endurskoðendurnir. Halldór Arason og Ásbjörn Guðmundsson. Theodór Vilmundarson félagskjörinn endurskoðandi og Ólafur Þór þórarinsson þegar farið var yfir reikninga Búnaðarsambandsins fyrir síðasta ár.
1. Undirbúningur fyrir aðalfund. Rætt um nefndaskipan, fundarstjóra, senda bréf með aðalfundarboði um afsal búnaðargjalds til RML og tillögur laganefndar um breytingar á lögum Búnaðarsambandsins, dagskrá ofl.
2. Halldór Arason endurskoðandi fór yfir reikninga Búnaðarsambandsins og fyrirtækja þess fyrir síðasta ár. Helstu lykiltölur úr rekstrarreikningi sýna tekjur upp á 238 milljónir sem er lækkun frá fyrra ári eða úr 250 milljónum. Rekstrargjöld eru rúmar 254 milljónir og rekstrartap upp á 15,5 milljónir. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og dótturfélags er tap upp á rúm 500 þúsund. Samkvæmt efnahagsreikningi eru heildareignir 248,1 milljónir en eigið fé í árslok var 218,5 milljónir. Veltufjármunir eru 135,4 milljónir í árslok. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 8,1 milljónir en í fyrra varð það jákvætt upp á 11,7 milljónir. Búnaðarsambandið er með veltu sem nemur 20 milljónum minna en í fyrra og tap fyrir utan fjármagnsliði upp á 14 milljónir. Lokaniðurstaðan er svo tap upp á rúma 1 milljón þegar fjármagnsliðir, dótturfélag og tekjuskattur hefur verið tekinn inn.
3. Rætt var um árgjöld sem hafa ekki hækkað frá árinu 1990 og eru kr 1000,- á félagsmann. Ákveðið að leggja til við aðalfundinn að hækka það í kr. 1500,-. Leggja upp með að árgjaldið nái sem mest yfir kostnað við aðalfund og stjórnarfundi.
4. Sveinn lagði fram og ræddi drög að fjárhagsáætlunum og að hækkunarþörf Kynbótastöðvarinnar verði mætt með sæðingagjöldum af kelfdum kvígum og þá kr 2000,- á ári eins og af kúm. Stuðst verði við forðagæsluskýrslur að venju. Stjórnin var því samþykk en ákveðið að leggja málið fyrir aðalfund.
5. Kúabændur í Austur-Skaftafellsýslu hafa óskað eftir því að Kynbótastöð Suðurlands taki sæðingar yfir í sýslunni frá og með næstu áramótum. Stjórnin er því samþykk en ákveðið að leggja málið fyrir aðalfund til umræðu og afgreiðslu.
6. Lagt var fyrir erindi frá Selfossveitum og leigusamningur um stækkaða leigulóð á Lambhaga vegna fyrirhugaðra borana á heitu vatni á svæðinu. Eftir samþykki stjórnar var samningurinn undirritaður.
7. Rætt var um framtíð Búnaðarsambandsins og möguleika í breyttu umhverfi.
8. Ákveðið að senda ekki út formleg boðsbréf á aðalfundinn, en auglýsa hann vel og að allir séu velkomnir.
Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson