4. fundur haldinn 12. júní 2019.
Á fundinn sem haldinn var á Hótel Önnu Moldnúpi mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Björn Snorrason og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð.
1. Aðalfundurinn og tillögur sem þar voru samþykktar.
Fundarmenn voru á því að aðalfundurinn hafi heppnast vel og öll aðstaða til fyrirmyndar á Hótel Dyrhólaey. Þá var farið yfir tillögur aðalfundarins. Frá fjárhagsnefnd voru eftirtaldar tillögur samþykktar.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2019 verði kr. 6.000 á hvern félagsmann.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna þ.e. kr.11.800.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000 á ári.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2019.
Í allsherjarnefnd voru 6 eftirfarandi tillögur samþykktar en þær hafa þegar verið sendar Bændasamtökunum.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, leggst alfarið gegn fyrirhugaðri stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Tilgangur og þörf fyrir stofnun þjóðgarðs er óljós og veruleg hætta er á að nytjaréttur landeigenda muni skerðast og/eða glatast. Einnig hefur reynslan sýnt að kostnaður við rekstur þjóðgarða er verulegur samanber rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, lýsir áhyggjum sínum af hagtölusöfnun í landbúnaði og hvetur stjórn BSSL til að beita sér fyrir úrbótum í þeim efnum.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, hvetur stjórn Kynbótastöðvar ehf að huga að bættum aðbúnaði hrúta á sauðfjársæðingastöðinni.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, mælist til þess að á haustfundum sauðfjárræktarinnar á Suðurlandi veiti BSSL verðlaun fyrir hyrnda, kollótta og mislita hrúta.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, hvetur stjórn BSSL til að standa að tilraunum á Tilraunabúinu á Stóra Ármóti.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, hvetur stjórn BSSL til að finna vettvang fyrir aðildarfélögin til að ræða saman um starfsemi sína m.a. um rekstur tækja til útleigu, námskeið og kynningar, sameiginleg innkaup og annað sem henta þykir.
2. Fréttir frá Nautís.
a. Útboðið. Tilboð í Angus nautkálfana voru opnuð 11. júní. Alls bárust 12 tilboð en þau voru í alla kálfana. Dýrasti kálfurinn fór á 2.065 þúsund kr og sá sem var ódýrastur fór 1.350 þúsund kr. Alls voru kálfarnir seldir fyrir 8.952 þúsund kr og meðalverð því 1.790 þúsund kr. Allar tölur eru án vsk.
b. Væntanlegur burður. Þær 11 kýr sem eru með fangi bera í lok júní. Fyrsta kýrin á tal 18. júní
c. Næsta fósturvísainnlögn. Þann 5. júní luku Norðmenn við að skola fósturvísa úr 7 kvígum. Alls náðust 67 fósturvísar og eru þeir allir undan Emil av Lillebakken. Stjórn Nautís hefur ákveðið að kaupa 40 fósturvísa í stað þeirra 25 fósturvísa sem áður hafði verið ákveðið. Þeir eru þá væntanlegir til landsins fyrri hlutann af ágúst.
d. Sæðistaka og dreifing þess. Sæðistaka getur hafist eftir að sýni sem tekin verða hafa verið greind og gripirnir reynast hreinir að loknu einangrunartímabili sem er 4. júlí. Vonandi verður hægt að bjóða upp á sæði í ágúst nk. Sæðinu verður dreift frítt frá NBÍ eftir að styrkur af framleiðslujafnvægislið búvörusamninga til kaupa á sæðinu fékkst.
3. Styrkur frá þróunarsjóði sauðfjárræktar.
Þróunarsjóður sauðfjárræktar veitti Kynbótastöð ehf styrk til þróunar á meðhöndlun við djúpfrystingu hrútasæðis að upphæð 4,9 milljónir. Styrkurinn er í samræmi við umsóknina sem er aðallega í tækjakaup.
4. Rekstur Kynbótastöðvar og hækkun á sæðingagjöldum.
Reksturinn á síðasta ári var með nærri 14 milljóna kr tapi og því hefur m.a. verið unnið að breyttu fyrirkomulagi sæðinga á Austurlandi sem tekur gildi 1. júlí nk. Gjaldskrá fyrir sæðingar og klaufsnyrtingu hefur verið hækkuð en fyrirsjáanlegt er að hækka þarf sæðingagjöldin á miðju ári. Samþykkt að innheimta sæðingagjöldin á tveggja mánaða fresti í stað 3 ja mánaða áður og hækka sæðingagjöldin þannig að reksturinn standi undir sér.
5. Rekstur Búnaðarsambandsins.
Rætt var um innheimtu félagsgjalda strax í haust. Á aðalfundinum var umræða um að Búnaðarsambandið innheimti félagsgjaldið fyrir aðildarfélögin óski þau þess. Félagsgjöldin eru eini tekjustofn sambandsins fyrir utan greiðslur vegna úttekta vegna landgreiðslna og jarðræktar.
6. Stóra Ármót og tilraunastarf.
Rætt var um framtíð tilraunastarfs á Stóra Ármóti en eins og staðan er hjá okkur í dag er ekki mögulegt að vera með einstaklingsfóðrun. Það er hinsvegar hægt að gera ýmsar athuganir á hópum og nú er unnið úr greiningu á mjólkursýnum hjá Matís til að finna út úr því hvaða efni sem eru í þaramjöli berist í mjólkina.
Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson