4. fundur haldinn 7. júní 2018

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal í Miðjunni á Hellu mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson, Gunnar Kr. Eiríksson. formaður, Sigurjón Eyjólfsson og Helgi Eggertsson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Á fundinn mætti einnig Gunnar Ríkharðsson.

 

  1. Aðalfundurinn og tillögur sem þar voru samþykktar.

Aðalfundargerðin var lögð fram og farið yfir tillögur sem fundurinn samþykkti. Samþykkt að eftirfarandi tilögu um að Búnaðarstofa verði sjálfstæð eining verði fylgt eftir með heimsókn til ráðherra landbúnaðarmála.

 

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 krefst þess að sú starfsemi sem unnin er í Búnaðarstofu Matvælastofnunar verði færð í sjálfstæða stofnun undir stjórn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til að styrkja stjórnsýslu í landbúnaði.

 

Önnur tillaga var um að auka tilraunastarf á Stóra Ármóti.

 

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að efla og standa betur að rannsóknum í nautgriparækt á Stóra Ármóti og nýta þá aðstöðu sem þar er til staðar, landbúnaði til hagsbóta og framfara.

 

Ákveðið að bíða eftir skipun nýs rektors LbhÍ og óska þá eftir fundi með honum og þeim sem fara með stjórn tilraunamála um framtíð tilraunastarfs í landinu og þar með talið á Stóra Ármóti.

2. Fréttir af aðalfundi Veiðifélags Árnessýslu og gagnrýni á framgöngu framkvæmdastjóra BSSL á samfélagsmiðlum.

Framkvæmdastjóri sat átakafund Veiðifélags Árnessýslu í apríllok þar sem fram kom tillaga um að banna netaveiði árið 2019. Eftir að farið hafði verið yfir mikinn fjölda umboða var hún borin undir atkvæði og samþykkt með 88 atkvæðum gegn 68. Framkvæmdastjóri greiddi atkvæði gegn þessarri tillögu og var það gagnrýnt á samfélagsmiðlum með spurningum um í hvaða umboði var hann að taka afstöðu gegn tillögu sem kom frá hluta félagsmanna á sambandssvæðinu. Framkvæmdastjóri var í umboði stjórnar Búnaðarsambandsins sem fulltrúi Stóra Ármóts að gæta hagsmuna þeirrar jarðar sem hefur réttindi til netaveiða í Hvítá. Stjórnin lýsti fullum stuðningi yfir afstöðu framkvæmdastjóra.

3. Kalt vor og kaltjón á Suðurlandi.

Nokkrir bændur í Þingvallasveit sem og Bláskógabyggð hafa leitað til Búnaðarsambandsins vegna kalskemmda. Gunnar Ríkharðsson fór og gerði úttekt á kalinu hjá þeim bændum sem þess óskuðu

4. Tilraun með þaramjöl á Stóra Ármóti í haust.

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir efnafræðingur hjá Matís hefur unnið að því að undirbúa tilraun/athugun með þaramjöl í fóðri mjólkurkúa á Stóra Ármóti í haust.

5. Starfsemi Nautís

Sveinn greindi frá starfsemi Nautís en framundan er að ljúka við innréttingar í einangrunarhlutanum og ljúka við planið. Þá er búið að taka 25 nýja fósturvísa úr Aberdeen Angus gripum í Noregi og verða þeir fluttir til landsins að loknum 60 dögum. Sótt hefur verið um 15 milljóna króna viðbótarframlag til einangrunarstöðvarinnar úr framleiðslujafnvægispeningunum í búvörusamningunum.

 

 

 

Fleira ekki og fundi slitið

Sveinn Sigurmundsson

Að loknum fundi fór stjórnin á fund í Árhúsum Hellu til að fjalla um framtíð landbúnaðar á Íslandi


back to top