5. fundur 2011 – haldinn 1. sept.
Stjórnarfundur BSSL 5/2011
- Fjárhagsstaðan. Sveinn greindi frá því að heldur þrengdi að. Gjöld hækka og tekjur samkvæmt búnaðarlagasamningi dragast saman. Ákveðið að leggja fram 8 mánaða rekstraryfirlit á næsta stjórnarfundi. Sveinn greindi frá slæmri ávöxtun í eignastýringu Landsbankans frá áramótum og fundi sem haldinn verður í fyrramálið um það.
- Starfsmannahald. Á fundinn mætti Hrafnhildur Baldursdóttir frá Litla-Ármóti en hún er nýráðinn starfsmaður Búnaðarsambandsins við fóðurleiðbeiningar og þá einkum við ráðgjöf út frá samnorræna fóðurmatskerfinu Nor-For. Hún er komin með 20 kúabændur í ákveðið þróunarverkefni í fóðurráðgjöf .
- Kynbótastöð. Sveinn greindi frá því að Gunnar Þorkelsson, dýralæknir, hefur látið af störfum sem frjótæknir í Skaftárhreppi. Sigríður Böðvarsdóttir, kúabóndi í Fagurhlíð, tekur við því fyrst um sinn.
- Hauststörf í sauðfjárrækt. Skipulagning hauststarfa í sauðfjárrækt er á lokastigi. Fanney Ólöf hefur unnið að því en alls munu 10 manns starfa við þau.
- Endurskoðun á ráðgjafarþjónustu. Lagt var fram bréf frá Bændasamtökunum þar sem fram kemur að von er á dönskum ráðgjafa sem mun skoða skipulag ráðgjafaþjónustu hér á landi og koma með tillögur um úrbætur
- Húsnæðið í Þorleifskoti hefur verið málað og endurbætt. Lóðin verður girt af og ný aðkeyrsla lögð. Bílastæði verða malarborin og snyrt.
- Afleysingaþjónusta vegna Grímsvatnagoss. Greint var frá því að afleysingaþjónusta með svipuðu sniði og í Eyjafjallagosinu verður rekinn í Skaftárhreppi á áhrifasvæði Grímsvatnagossins. Ráðinn hefur verið starfsmaður; Einar Jónsson á Efri-Steinsmýri, og hóf hann störf 1. ágúst sl.
- Opið hús á Stóra Ármóti. Egill óskaði eftir því að opið hús á Stóra Ármóti verði haldið í haust þar sem starfsemi tilraunabúsins og Búnaðarsambandsins verði kynnt. Sveini falið að vinna að málinu.
- Þá var komið að opnum kynningarfundi um drög að breytingum á jarða og ábúðarlögum. Elías Blöndal lögfræðingur BÍ og Sigurbjartur Pálsson stjórnarmaður í BÍ voru mættir og nokkur fjöldi gesta. Þeir félagar fóru yfir málin og í framhaldi af því urðu líflegar umræður um frumvarpsdrögin, en almennt fannst fundarmönnum þau meingölluð.
Sveinn Sigurmundsson