6. fundur 2003

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands haldinn þann 22. október 2003 í húsnæði Búnaðarsambandsins að Austurvegi 1. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson og Guðni Einarsson. Þá var Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri einnig mættur.



  1. Eggert,sem er stjórnarmaður í Bændasamtökunum ræddi um breytingar á jarðalögunum og stöðu sauðfjárræktar. Þá var rætt um stöðuna í mjólkurframleiðslunni.

  2. Sveinn kynnti afmæli Nautgriparæktarfélags Hrunamanna. Ákveðið að styrkja afmælisrit þess um eitt hundrað þúsund krónur, sem skiptist jafnt milli Búnaðarsambands og Kynbótastöðvar.

  3. Kynnt voru drög að samningi um forðagæslu við Skaftárhrepp. Ákveðið var að kanna hvort samningsdrögin séu í samræmi við lög um forðagæslu.

  4. Kynnt var erindi frá ORF Líftækni um hlutafjárkaup. Ákveðið að afla frekari gagna og ræða við Eignarhaldsfélag Suðurlands um erindið. Rætt um hugsanlega aðkomu Afmælisgjafasjóðs LÍ að málinu.

  5. Kynnt var bréf frá landsráðunaut í hrossarækt þar sem Búnaðarsambandinu er boðin skráning gagna og önnur vinnsla við skráningu úr hrossaskýrslum gegn greiðslu. Tekið jákvætt í erindið.

  6. Sveinn kynnti hugmynd um skoðun og heimsókn í fyrirtæki Búnaðarsambandsins á formannafundi. Sveini og Þorfinni falið að ganga frá endanlegri dagskrá .

  7. Rætt var um undirbúning vegna 100 ára afmælis sambandsins sem verður 2008. Hugað verður að því að skipa 3ja manna afmælisnefnd. Páll Lýðsson hefur þegar hafist handa við að safna efni í ritverk vegna afmælisins.

  8. Þorfinnur fór yfir nokkur atriði vegna stefnumörkunar á Stóra Ármóti. Sveini falið að hafa samband við LBH um landnýtingaráætlun fyrir jörðina sem yrði unnið sem nemendaverkefni.

  9. Farið var yfir starfsemi Kynbótastöðvarinnar.

  10. Sveinn kynnti niðurstöður fundar ráðunauta Búnaðarsambandsins við sauðfjárræktarnefnd sambandsins um tilhögun myndasýninga og verðlaunaveitinga á veturgömlum hrútum og lambhrútum. Þá var rætt um verðlækkun á hrútasæði á komandi hausti til þeirra sem fengu nýja blöndunarvökvann í síðustu sæðistökuvertíð.

  11. Bréf frá Fræðsluneti Suðurlands um samvinnu við þá aðila sem stunda rannsóknastarf á svæðinu að efna til kynningarviku vísinda og rannsókna vikuna 22.- 26. mars 2004. Eðlilegt að starfsemin á Stóra Ármóti verði kynnt.

  12. Verðlagning loftmynda á tölvutæku formi var rædd og Sveini var falið að þrýsta á Bændasamtökin og Landbúnaðarráðuneytið um að allur landbúnaðargeirinn kaupi þessar myndir.

  13. Egill Sigurðsson óskaði eftir því við framkvæmdastjóra að hann leitaði eftir þeim vinnureglum sem fyrirhugað er að nota við úthlutun á þeim 7500 ærgildum í greiðslumarki sauðfjár sem úthluta á til bænda á jaðarsvæðum. Ennfremur að minna landbúnaðarráðherra á tillögu frá síðasta aðalfundi Búnaðarsambandsins um þau mál.

Fleira ekki fyrir tekið og fundi slitið.

Guðmundur Stefánsson,
fundarritari.


back to top