7. fundur 2003
Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands haldinn þann 20. nóvember 2003 í húsnæði Búnaðarsambandsins að Austurvegi 1. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson og Guðni Einarsson. Þá var varastjórnin boðuð og mættu Ragnar Lárusson og Helgi Eggertsson. Ólafur Eggertsson, Þórhildur Jónsdóttir og María Hauksdóttir boðuðu forföll. Þá var Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri einnig mættur.
- Kornræktarleiðbeiningar. Jónatan Hermannsson frá RALA sagði frá ræktunartilraunum með korn, bæði með stofna og mismunandi ræktunaraðferðir á nokkrum mismunandi stöðum á landinu. Hann taldi að huga þyrfti betur að því að auðvelda verslun með korn. Sveinn las bréf frá Ólafi Eggertssyni um þá þætti kornræktinnar sem þyrfti að þróa áfram. Þar kemur fram að mjög ströng reglugerðarákvæði um smitvarnir hamla möguleikum á verslun með innlent korn, nýtingarmöguleika á hálmi þarf að þróa og auka þarf leiðbeiningar um jarðrækt, tækni, þurrkun og fóðrun á korni. Þá taldi Ólafur æskilegt að Búnaðarsambandið kæmi að verkefni ORF Líftækni varðandi ræktun á erfðabreyttu byggi.
- ORF Líftækni. Eftir nokkrar umræður samþykkti stjórnin að kaupa hlutafé í ORF Líftækni fyrir 1500 þúsund krónur og nota til þess fé úr afmælisgjafasjóði Landsbankans, enda liggur fyrir samþykki stjórnar sjóðsins til þess.
- Stefnumörkun fyrir Tilraunabúið á Stóra-Ármóti. Grétar Hrafn kynnti áfangaskýrslu starfshóps um stefnumótun fyrir Stóra-Ármót. Þar er fjallað um hlutverk tilraunabúsins, framkvæmdaþörf og tilraunastarf. Starfshópurinn leggur til að unnið sé að því að kanna möguleika á að koma upp heilfóðrunarkerfi á búinu.
- Hrossaræktin. Skráning skýrsluhaldsgagna í hrossarækt færist í auknum mæli frá Bændasamtökunum til Búnaðarsambandsins og framlag sem Hrossaræktarsamtökin hafa fengið til skýrsluhalds færist til Búnaðarsambandsins. Stefnt að námskeiðum í hrossarækt í samstarfi við endurmentunardeild LBH.
- Lög Búnaðarsamband Suðurlands. Stjórnin undirritaði lög Búnaðarsambands Suðurlands, sem samþykkt voru á aðalfundi þess sl. vor.
- Starfsemin. Sveinn sagði frá helstu störfum sem er á döfinni, s.s. námskeiðunum sem 145 kúabændur sóttu að Stóra-Ármóti, jarðræktarframkvæmdum sem hafa dregist saman og undirbúningi sauðfjársæðinga. Tólf Ameríkanar eru nú á námskeiði hér í sauðfjársæðingum.
- Formannafundur. Farið yfir dagskrá fundarins, sem verður í Þingborg 28.nóvember.
- Önnur mál. Eggert skýrði frá fyrirspurn sem Bændasamtökunum hefur borist frá einkaaðila um kaup á djúpfrystu nautasæði.
Nokkrar umræður urðu um hvernig best væri að standa að meiri leiðbeiningum í kornrækt. Talið rétt að huga að jarðræktarnámskeiðahaldi og einnig þarf að skoða betur reglugerðarákvæði sem snerta verslun með korn. Ráðunautarnir Jóhannes Símonarson og Kristján Bjarndal Jónsson sátu fundinn undir þessum lið.
Stjórnin ákvað að stefna að því að taka upp heilfóðurkerfi á Stóra-Ármóti á næsta ári og sækja um fjárstuðning til verkefnisins. Ákveðið var að senda sveitarstjórn Hraungerðishrepps, Vegagerð ríkisins og þingmönnum Suðurlands erindi um varanlegar endurbætur á veginum að Stóra-Ármóti (Oddgeirshólavegi að vestanverðu og Ármótsvegi). Huga þarf að skipulagningu umhverfisins á Stóra-Ármóti og sækja um styrki til skjólbeltaræktar og til básabreytinga í fjósi.
Fram kom að Runólfur Sigursveinsson fer í 3ja mánaða launað starfsleyfi til endurmenntunar eftir áramót. Nokkrar umræður urðu um Sunnuverkefnið og þróun þess.
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið.
Guðmundur Stefánsson, fundarritari.