Sumarbeit kúnna
Sumarbeit kúnna
Guðmundur Jóhannesson
Búnaðarsambandi Suðurlands
Sumarið er nú framundan og um leið beitartími kúnna. Þetta eru þeir mánuðir þar sem mjólkurframleiðslan er hvað mest og jafnframt er mjólkurverðið lægst. Það skiptir því máli að tilkostnaðurinn við mjólkurframleiðsluna sé sem minnstur.
Reynslan hefur sýnt okkur að mjög misjafnt er hve góðum tökum bændur hafa náð á beitarstjórn og fóðrun kúnna á þessum tíma. Kröfur til beitar eru mjög mismunandi frá búi til bús. Það ræðst af þáttum eins og mismunandi ástandi beitar, breytilegri fóðurþörf vegna mismunandi burðartíma kúnna, mismunandi nýtingu framleiðsluréttar o.s.frv. Áreiðanlegt er að víða mætti bæta framkvæmd og skipulag beitar. Nægir í því sambandi að benda á að kýr sem bera að vori skila jafnan minni afurðum en þær sem bera á öðrum árstímum.
Hér er ætlunin að víkja nokkrum orðum að þáttum sem lúta að sumarbeit kúnna. Þetta verða fyrst og fremst ábendingar sem hver og einn bóndi getur svo vegið og metið hvernig nýtast honum á sínu eigin búi.
Höfuðatriði í mjólkurframleiðslu er að framleiða sem mesta mjólk á sem ódýrustu fóðri. Hérlendis er ódýrasta fóður sem við eigum völ á beit og því mikilvægt að ná tökum á nýtingu hennar. Yfir sumarið stendur bóndinn frammi fyrir vandamáli sem lýst er á mynd. Uppskera beitilands er mjög breytileg yfir beitartímann sem og gæði beitargróðursins. Þá eru fóðurþarfirnar sífellt að breytast en þær eru mismunandi eftir burðartíma kúnna og samsetningu kúastofnsins á búinu. Til að ná framgreindu markmiði þarf að geta boðið kúnum beit sem uppfyllir vissar kröfur í sem lengstan tíma af sumrinu. Gróflega áætlað þarf beitargróður að hafa yfir 70% meltanleika til þess að uppfylla gæðakröfur. Það er auðvelt fyrripart sumars en er líður á sumarið fellur meltanleikinn, beitargæðin minnka sem og magnið.
Hvað þarf að athuga?
Við skipulagningu beitarinnar eru nokkrir þættir sem einkum þarf að huga að:
- Val á beitilandi.
- Mismunandi áburðartími og áburðarmagn.
- Sláttur og hreinsun beitilands.
- Notkun á einærum beitarjurtum seinni hluta beitartímans.
- Gjöf með beitinni, einkum er líður að hausti.
Nú til dags eru tún víðast hvar orðin það mikil að flatarmáli að úthagabeit kúa heyrir nánast sögunni til. Því miður er endurræktun víða ekki sinnt sem skyldi og oft er áburðargjöf í minna lagi. Þetta leiðir til verri beitar heldur en þegar að gott sáðgresi er í túnum.
Við verðum að gera þær kröfur til beitilandsins að þar vaxi nægur, lystugur og kjarngóður gróður. Þá skiptir máli að þar sé skjólgott og að það liggi vel við fjósi þannig að rekstur kúnna sé í lágmarki. Aðgangur að góðu drykkjarvatni skiptir einnig miklu máli.
Við verðum að meta landið með tilliti til uppskeru því eftir henni fer sú landstærð sem kýrnar þurfa til beitar. Landþörfina má meta út frá fóðurþörf gripanna. Sem dæmi má taka 30 kúa bú þar sem mjólkurframleiðsla 450 kg á dag eða 15 kg til jafnaðar eftir hverja kú. Þá er:
Viðhaldsþörf 30×4,2 | 126 FEm |
Mjólkurmyndun 450×0,445 | 200 FEm |
Samtals: | 326 FEm |
Hér er reiknað með 10% hærri viðhaldsþörf á beit sem er almenn regla víðast hvar og kemur til vegna veðurfars og hreyfingar kúnna. Þetta þýðir 10,9 FEm á grip á dag. Við verðum einnig að taka nýtingu beitilandsins með í dæminu því að við beit fáum við aldrei fullkomna nýtingu á landinu. Kýrnar t.d. skíta út og traðka hluta beitilandsins. Mat á nýtingu beitarinnar er óljós. Danir reikna með 87% nýtingu en hérlendar tölur benda til 80% nýtingar. Ef við reiknum með 80% nýtingu hækkar þörfin í 13,6 FEm á grip á dag. Rétt er að taka fram að 15 kg nyt er mun hærra en víðast má reikna með.
Snemma sumars gætum við haft beitarframboð sem samsvarar 6.500 FEm á ha. Slíkt gæfi í okkar dæmi þörf fyrir um 21 fermetra fyrir hvern grip á dag. Síðsumars er ekki óalgengt að kúm sé beitt á land þar sem ekki er hægt að reikna með meiri uppskeru en 1.100-1.700 FEm á ha. Á slíku beitilandi þarf orðið 80-125 fermetra fyrir hvern grip á dag. Þarna sjáum við gríðarlega breytingu á landþörfinni og víða virðast bændur ekki gera sér grein fyrir þessu.
Í athugunum í Eyjafirði hefur komið í ljós að kýr þurfa til jafnaðar 45 fermetra á dag fyrir part sumars en 90 fermetra er líður að hausti. Þarna var um að ræða land sem er hreinsað með slætti. Við mjög góða sprettu grænfóðurs má reikna með því að hektarinn geti nýst 30 kúm til mánaðar beitar. Spretta þess er þó mjög misjöfn og verður hver og einn að meta það í hverju tilviki fyrir sig.
Hægt er að styðjast eitthvað við hæð beitargróðurs við mat á beitarframboði. Við getum vænst þess að sé hæð beitargróðurs komin undir 7-9 cm þá er beitarframboð orðið fremur takmarkað fyrir kýr.
Beitarkerfi
Oft hefur beitarumræða snúist um beitarkerfi. Rætt er um skiptibeit, hólfabeit, randabeit o.s.frv. Mismunandi beitarkerfi gefa í sjálfu sér engan mismun í afköstum beitilands og gripa nema að verið sé að tala um mismunandi beitarþunga eða beitarálag. Við skulum rifja þessi hugtök upp. Beitarþunga mælum við með fjölda gripa á flatareiningu lands en beitarálag sem fjölda gripa á magneiningu gróðurs (beitar).
Á mynd (sjá sumarbeit kúnna II) sjáum við almennt samband beitarþunga við annars vegar afurðir eftir hvern grip og hins vegar afurðamagn eftir einingu beitilands. Þar sést glöggt hve mikill munur er á nýtingu lands eftir því hvort stefnt er að mestum afköstum á grip eða flatareiningu lands. Hérlendis má ætla að þar sem flestir bændur hafa mikið land til umráða stefni menn að því að nýta gripina til fullnustu. Andstæða þessa er t.d. á Nýja-Sjálandi þar sem stefnt er hámarksafköstum á einingu lands enda fer öll mjólkurframleiðsla fram á beit.
Þrátt fyrir það sem sagði hér á undan geta mismunandi beitarkerfi skilað mismunandi árangri, sérstakelga hvað vinnufyrirkomulag varðar. Randabeit sem stýrt er með færanlegum rafstreng kallar til dæmis á reglulegt eftirlit og vinnu sem margir kjósa að sleppa frá á mesta annatíma við heyskap. Þetta er samt ef til vill gott aðhald með nauðsynlegu eftirliti sem veitir ákveðinn kost við beitarstjórn.
Hérlendis er skiptibeit lítt stunduð, þar sem notkun beitarhólfa er skipulögð með tilliti til að skipta beitarpeningi niður í hólf eftir fóðurþörfum hverju sinni. Þá er hámjólka kúm fyrst beitt á hólfin og þeim þannig tryggð gæðamesta beitin en síðan fylgja lágmjólka kýr og geldneyti til að hreinsa hólfin betur. Þá má vel hugsa sér hross til að hreinsa beitarhólf vel. Skiptibeit getur hentað vel á stærri kúabúum.
Byrjun beitar að vori
Hugum þá aðeins að beit á mismunandi tímabilum beitartímans. Það er mjög misjafnt hvenær bændur hefja beit sinna kúa að vorinu. Það má telja kost við að byrja snemma að beita að fóðurbreytingar eru oft minni vegna þess að kýrnar éta betur hey með beitinni meðan að hún er takmörkuð. Víðast er hvatt til þess að byrja eins snemma að láta kýrnar út og kostur er, m.a. með tilliti til veðurfars og aðstæðna.
Það sem fyrst og fremst þarf að hafa í huga er kýr eru látnar út er hin snögga fóðurbreyting sem þarf að forðast eins og kostur er. Einnig þarf að huga að árstíðabundnum fóðurtruflunum. Nýting kúnna á magnesíum úr nýgræðingi er ætíð fremur takmörkuð. Það er því ástæða til að ráðleggja notkun magnesíumríkra steinefnablandna síðustu vikur innifóðrunar og fyrstu beitarvikurnar, einkum þar sem skortur hefur áður komið fram. Auk þessa er það vel þekkt að mikil notkun köfnunarefnis- og kalíáburðar á beitiland gerir vont ástand verra við slíkar aðstæður.
Haustfóðrun
Beitarvandamál koma yfirleitt upp seinni hluta sumars og fram á haustið. Í þessu sambandi er rétt að minna á mynd 3 sem sýnir niðurstöður beitarathuganna í Eyjafirði. Þar má sjá að á síðustu tveimur mánuðum beitartímans kom fram munur sem svara til 3,5 kg af mjólk eftir hverja kú á dag milli búa í besta og lakasta flokki. Þetta sýnir glögglega mikilvægi góðrar haustbeitar eigi kýrnar að halda nythæð. Þessu til viðbótar er rétt að minna á hve erfitt er að vinna upp afurðir þegar kýrnar koma á bás. Haustbeitin getur því gert gæfumuninn í getu viðkomandi bús til framleiðslu á mjólk yfir haustmánuðina og fyrri hluta vetrar. Ástæða er að hafa í huga þann mun sem er á verði mjólkur yfir vetrarmánuðina og sumarmánuðina.
Beitarvandamálin seinni hluta sumars skapast vegna ört hrakandi gæða beitarinnar auk þess sem beitarframboð minnkar. Þá bætast við þættir eins og ótryggara veður með haustrigningum og hrakviðrum. Afleiðingarnar verða oft á tíðum óheppilegar sveiflur í fóðrun kúnna en eins og menn þekkja eru þær aldrei til góðs.
Úrbótaleiðin hlýtur að vera sú að reyna að tryggja gæði og magn síðsumar- og haustbeitar með áborinni há eða grænfóðri. Til að draga úr áhrifum snöggra fóðurbreytinga þarf að hefja heygjöf með beitinni snemma, helst í byrjun september. Þá verður einnig að huga að kjarnfóðurnotkun á þessum tíma á annan hátt en um hásumarið og verður rætt um það hér á eftir.
Tilkoma rúllutækninnar hefur einnig breytt miklu frá því sem áður var. Þar er átt við þann möguleika að geyma áborna há og grænfóður í böggum til innifóðrunar. Á þennan hátt má vafalítið auka nýtingu grænfóðurs og lengja í raun beitartímann að haustinu. Þetta verður samt að skoða miðað við aðstæður á hverju búi fyrir sig. Þá verður að meta á móti ávinningi í afurðum og betri nýtingu fóðursins, aukinn kostnað vegna pökkunar þess og alla þá vinnu sem það krefst.
Kjarnfóðurnotkun með beit
Með takmörkuðum framleiðslurétti hefur stórlega dregið úr notkun kjarnfóðurs með beit. Markmiðið fyrri hluta sumars hlýtur að vera að beitin ein og sér geti dugað kúm í allt að 20 kg dagsnyt. Kýr í hærri nyt geta varla torgað fóðri á beit sem dugir til viðhalds og framleiðslu. Hér er um að ræða kýr á fyrstu tveimur til þremur mánuðum mjaltaskeiðsins á þessum tíma en á alltof mörgum búum er það hátt hlutfall fullorðnu kúnna. Kýr geta að vísu mjólkað allmikið með því að ganga á eigin forða ef undirbúningur fyrir burð hefur verið góður. Grös eru próteinrík á þessum tíma þannig að próteinskortur dregur ekki úr mjólkurframleiðslu.
Notkun kjarnfóðurs með beit fer oft á tíðum út í það að kjarnfóðrið kemur í stað beitarinnar, þ.e. beitarnýting versnar. Slíkt þarf að forðast og þess vegna er rétt að gefa hámjólka kúm ekki eitt kg kjarnfóðurs fyrir hver 2,5 kg mjólkur eins og oft hefur verið miðað við á innistöðufóðrun heldur hækka mörkin fyrir fyrsta kg í kjarnfóðurgjöf.
Um og eftir mitt sumar eru beitargæðin orðin það breytileg að óraunhæft er að gera sömu kröfur og fyrr um sumarið. Þá verður að meta hvenær þörf er á kjarnfóðurgjöf. Það má hugsa sér að miða við að byrja kjarnfóðurgjöf á mjög góðri beit í 18-20 kg nyt, við sæmileg beitargæði við 14-15 kg nyt og með lélegri beit við 10 kg nyt. Að sjálfsögðu reynum við í lengstu lög að halda gæðum beitarinnar og nota sem lengst efstu mörkin.
Meltanleiki grasanna breytist er á sumarið líður sem og efnainnihald grasanna. Próteinhlutfallið lækkar og það er ástæða til að ætla að gæði þess minnki einnig. Þess vegna þarf oft að gefa kjarnfóður með gæðaríku próteini þegar á sumarið líður og örlítil fiskimjölsgjöf með beitinni á haustin á tvímælalaust rétt á sér.
Jöfnun mjólkurframleiðslu er hagsmunamál fyrir íslenska mjólkurframleiðslu. Veiki hlekkurinn hefur verið haustið og þess vegna þarf að styrkja þá framleiðslu. Huga þarf að skipulagi haustfóðrunar strax á vordögum ef mjólkurframleiðsla á ekki að bregðast á þeim tíma.
Að lokum:
- Forðist snöggar fóðurbreytingar.
- Ætlið nautgripum ekki snöggt beitiland.
- Fylgist vel með beitinni og hafið kýrnar ávallt á næringarríkri og góðri beit.
- Notið viðbótarfóður (kjarnfóður) og steinefni til að fullnægja þörfum kúnna.
- Notkun grænfóðurs getur lengt beitartímann og aukið gæði haustbeitar svo um munar.