Haustfóðrun mjólkurkúa
Haustin og síðsumur eru oft á tíðum sá árstími sem hvað erfiðast er að fóðra mjólkurkýr til afurða. Þarfir kúa eru afar misjafnar eftir því hvar þær eru staddar á mjólkurskeiðinu sem taka verður tillit til. Vorbærar kýr mega alls ekki missa nyt þegar beitin daprast og nauðsynlegt er á sama tíma að huga vel að haustbærum kúm og gefa þeim góðan undirbúning fyrir komandi mjólkurskeið.
Hér á eftir fara nokkrir minnispunktar sem gott er að hafa í huga við haustfóðrun.
- Gefa kúnum hey með beitinni. Heygjöfin minnkar allar fóðurbreytingar til muna og viðbrigðin verða minni þegar þær verða að fullu teknar inn. Geti kýrnar stjórnað átinu sjálfar munu þær smátt og smátt auka heyátið eftir því sem beitin verður lakari. Engu skiptir þó kýrnar séu á góðu grænfóðri, þær munu samt sem áður leita í heyið til að fá fylli sína. Séu þær á þokkalega orkuríku grænfóðri gæti hentað vallarfoxgras af fyrri slætti sem er fremur lágt í orku, t.d. það sem slegið var eftir mánaðarmótin júní/júlí. Það hey ætti samt sem áður að vera lystugt. Þó kúnum sé gefið hey inni í fjósi er jafnframt gott að hafa rúllu úti á beitarstykkinu og þá í rúllugrind. Kýr á fyrri hluta geldstöðu hafa ekkert með grænfóður að gera.
- Hýsa kýrnar á nóttunni. Nú styttist dagurinn óðum og ávinningurinn af því að setja kýrnar út í myrkrið er enginn.
- Gefa kvígunum góðan aðlögunartíma með kúnum. Kvígum er nauðsynlegt að ganga með kúnum a.m.k. 1-2 mánuði fyrir burð. Aðlögunin er ekki síður mikilvæg í legubásafjósum þar sem ákveðinn tíma tekur fyrir kvíguna að finna sinn stað innan hópsins. Nauðsynlegt er að kvígan sé orðin sjálfsagður hluti af hjörðinni við burð svo hún þurfi ekki að berjast við „einelti“ ofan á annað álag sem burðinum og mjólkurframleiðslunni fylgir.
- Tryggja kúnum vatn. Haustin eru góður tími til að yfirfara brynningarkerfið í fjósinu. Brynningarkollur þurfa að hafa nægan þrýsting og gefa um 10 lítra á mínútu til að kýrnar nenni að drekka nægju sína. Ef auka þarf þrýstinginn á kerfinu má fá til þess litlar dælur sem kosta lítið m.v. ávinninginn. Vatnsþörf kýr í 30 kg nyt er á bilinu 80-100 lítrar á sólarhring og því afar mikilvægt að vatnsskortur sé ekki hamlandi þáttur á nyt. Mjólkurkúm á auk þess að tryggja nóg af góðu vatni úti á beitinni – alltaf!
- Stýra kjarnfóðurgjöfinni. Val á kjarnfóðurblöndum og ákvörðun um magn kjarnfóðurs á hverja kú er vandasamt verk og ekki hægt að alhæfa svo öllum henti. Ákvörðun um þetta verður að leysa með einstaklingsráðgjöf. Sem þumalputtareglu um magn kjarnfóðurs er t.d. hægt að gefa sér að beit og/eða hey standi undir viðhaldsþörfum kýrinnar og framleiðslu á X mörgum lítrum af mjólk en kjarnfóður standi undir framleiðslu á þeim lítrum sem eftir standa. Hvar mörkin liggja verður að byggjast á þekkingu á hjörðinni og efnainnihaldi heyjanna hverju sinni.
Tökum dæmi: Hey og/eða beit er ætlað að standa undir viðhaldsþörfum (u.þ.b. 4,5 FEm) og auk þess framleiðslu á 12 kg af mjólk. Kýr í 30 kg nyt þarf þá kjarnfóður til framleiðslu á 30-12 = 18 lítrum af mjólk og skv. þarfatöflum þarf 0,45 FEm til að framleiða hvern líter þ.e. 18 x 0,45 = 8,1 kg af kjarnfóðri. Þröskuldar í kjarnfóðurnotkun á kú eiga ekki að þekkjast. Uppfylla þarf orkuþarfir hverrar kýr eins nákvæmlega og hægt er. Í mörgum tilvikum þýðir það að auka þarf kjarnfóðurnotkunina á fyrri hluta mjaltaskeiðs og hætta kjarnfóðurnotkun fyrr þegar líður fram á síðmjaltaskeiðið, t.d. þegar þessu X lítra marki er náð sem heyinu er ætlað að standa undir, í okkar dæmi 12 lítrum.
Jóhannes Hr. Símonarson