Lög FKS
Lög Félags kúabænda á Suðurlandi
1. gr.
Félagið heitir Félag kúabænda á Suðurlandi, skammstafað F.K.S. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns hverju sinni.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að stuðla að framförum í nautgriparækt á félagssvæðinu, gæta hagsmuna kúabænda og sameina þá um málefni greinarinnar.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með:
- Vera málsvari kúabænda á svæðinu.
- Miðlun fræðslu og upplýsinga.
- Samvinnu við önnur félög og stofnanir.
- Með aðild að félagssamtökum bænda ef það brýtur ekki í bága við tilgang F.K.S. og með samþykki félagsráðs.
- Með öðrum tiltækum ráðum.
4. gr.
Félagar geta þeir einir orðið sem stunda nautgriparækt í Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og Árnessýslu.
5. gr.
Innan félagsins skal starfa félagsráð. Í því skulu sitja, auk formanns, 18 fulltrúar og 6 til vara, sem kosnir eru leynilegri kosningu á aðalfundi til tveggja ára. Kosningu er hagað þannig að árlega eru kosnir 9 aðalmenn og 3 varamenn. Að lágmarki skulu vera 2 fulltrúar frá hverri sýslu í Félagsráði. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi, leynilegri kosningu til eins árs í senn.
Félagsráð kýs sér ritara og gjaldkera, sem og aðrar trúnaðarstöður sem ekki er sérstaklega kveðið á um. Það annast málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður félagsins er jafnframt formaður Félagsráðs og ritari varaformaður.
Félagsráði er heimilt að skipa kjörnefnd sem leitar eftir framboðum og tekur við uppástungum á fólki til starfa á vegum félagsins.
6. gr.
Aðalfundur er haldinn árlega og ekki síðar en í lok febrúar og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Til hans er boðað sannanlega með minnst 14 daga fyrirvara. Þar eiga sæti með fullum réttindum allir skráðir félagar samkvæmt fyrirliggjandi félagaskrá. Öðrum þeim sem rétt eiga til aðildar að félaginu er heimil fundarseta án atkvæðisréttar.
Verkefni aðalfundar eru þessi:
- Skýrsla stjórnar félagsins.
- Afgreiðsla endurskoðaðra reikninga félagsins fyrir næstliðið ár.
- Kosningar:
- Formaður skv. 5. grein
- Félagsráð skv. 5. grein.
- Tveir skoðunarmenn og tveir til vara.
- Aðrar trúnaðarstöður. Aðalfundi er þó heimilt að vísa kosningum skv. þessum lið til Félagsráðs.
- Ákvörðun um félagsgjöld.
- Önnur mál.
7. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögum um lagabreytingar verður að skila skriflega til stjórnar.
Tillögur til lagabreytingar verður að tilkynna í fundarboði og ná þær fram að ganga með samþykki meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna.
8. gr.
Verði félagið lagt niður tekur Landssamband kúabænda eignir þess til varðveislu á verðtryggðum reikningi uns annað hliðstætt félag hefur verið stofnað á svæðinu og gerir kröfur í eignir þess fyrra.
Þannig samþykkt 29. janúar 2007