Sauðfjársæðingastöð Suðurlands
Sauðfjársæðingastöð Suðurlands var stofnuð 1968 af fjárræktarfélögunum á svæðinu. Sauðfjársæðingastöðin heyrir undir stjórn Búnaðarsambandsins og sér Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri, um daglega stjórn og rekstur. Páll Stefánsson, dýralæknir, sér um blöndun á sæði, Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir, hefur séð um sæðisfrystingu og Guðmundur Jóhannesson um erlend samskipti vegna útflutnings á sæði.
Fyrsta haustið voru 2.790 ær sæddar með fersku hrútasæði frá stöðinni. Þátttakan fór vaxandi og fljótlega bættust Austur Skaftafellsýsla og Kjalarnesið við. Hámarki náði notkunin 1983 en þá voru 10.639 ær sæddar frá stöðinni. Þegar kvótaþrengingarnar fóru að segja til sín minnkaði notkunin bæði vegna fækkun fjár og minni áhuga. Nú síðustu árin hefur áhugi vaxið aftur og árið 2006 voru sæddar 15.286 ær frá stöðinni með fersku sæði. Flest árin þar á eftir á milli 13 og 14 þúsund ær en haustið 2012 voru 15490 ær sæddar með fersku sæði frá stöðinni.
Haustið 1998 var í fyrsta sinn djúpfryst hrútasæði sent til Bandaríkjanna til áhugasamra ræktenda íslensks sauðfjár og haustið 2009 fékkst leyfi til sendingar á sæði til Noregs.
Í dag er verið að þróa notkun á djúpfrystu sæði til notkunar innanlands enn frekar.
Sauðfjársæðingastöð Suðurlands gefur árlega út hrútaskrá þar sem birtar eru lýsingar á þeim ásamt fyrirliggjandi upplýsingum um reynslu þeirra. Skráin er litprentuð og í henni eru litmyndir af hverjum hrút. Síðustu ár hefur stöðin haft samstarf við Sauðfjársæðingastöð Vesturlands um þessa útgáfu og því er í raun um að ræða landshrútaskrá.
Hrútaskráin er einnig birt undir heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands undir sauðfjárrækt, m.a. á pdf-formi.
|
|
Leitast hefur verið við að hafa fjölbreytt úrval hrúta, bæði hyrndra og kollótta þar sem megin áherslur eru á kjötgæði en einnig er tekið tillit til frjósemi og mjólkureiginleika dætra og nú seinni árin hafa áherslur á ullareiginleika farið vaxandi. Á stöðinni er einnig að finna forystuhrút og mislita hrúta.
Árangur hefur verið nokkuð misjafn milli búa en í heild er um 72% ánna sem festa fang sem á alþjóðamælikvarða verður að teljast nokkuð gott. Sæðistaka hefst í nóvember og er þá tekið sæði til frystingar. Sæðingar með fersku sæði hefjast um mánaðmót nóv./des. og standa fram undir jól. Sæðispantanir eru í síma 482 1920 þegar sæðistaka er hafin en annars í síma 480 1800. Fax er 480 1818. Einnig má senda póst á netfangið bssl@bssl.is . |
Sjá einnig: