Ræktun 2013
Hin goðsagnakennda Álfadís mætir á Ræktun 2013
Hin árlega stórsýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands „Ræktun 2013“ verður haldin í Ölfushöllinni nk. laugardagskvöld, 27. apríl kl. 20.
Fram kemur fjöldi hrossa, en áhersla er lögð á kynbótahross að venju. Heiðurshryssa Suðurlands verður heiðruð eins og vant er og að þessu sinni er það hin goðsagnakennda gæðingamóðir Álfadís frá Selfossi sem hlýtur þann titil og mun hún heiðra samkomuna ásamt afkvæmum sínum, þeim Gandálfi, Álfhildi og Álffinni frá Syðri-Gegnishólum. Fleiri frábærar ræktunarhryssur munu eiga afkvæmi á sýningunni, t.d. koma fram afkvæmi Elju frá Ingólfshvoli og Gustu frá Litla-Kambi og ekki má gleyma afkvæmahestunum, en þar verða sýnd afkvæmi Fróða frá Staðartungu, sem margir eru spenntir að sjá, afkvæmi Glæsis frá Litlu-Sandvík og Geisla frá Sælukoti mæta, og svo sjáum við Eldjárn frá Tjaldhólum ásamt afkvæmum sínum.
Ræktunarbú sem mæta eru Jaðar, Dalbær, Stóra-Hof, Austurkot, Eystra-Fróðholt, Flugumýri, Vatnsleysa, Koltursey, Litlaland í Ölfusi, Torfastaðir og Ytra-Dalsgerði.
Meðal stóðhesta sem mæta má nefna norðlensku gæðingana Eld frá Torfunesi, Trymbil frá Stóra-Ási og Vita frá Kagaðarhóli sem allir verða til afnota á Suðurlandi í sumar og því tilvalið tækifæri til að taka þá út. Þá mun Andvarasonurinn Gaukur frá Garðsá leika listir sínar en hann sló í gegn á Stóðhestaveislu fyrir norðan um daginn.
Ekki verður úrvalið af hryssum síðra, þar má nefna m.a Helgu Ósk frá Ragnheiðarstöðum, Öskju frá Kílhrauni, Kotru frá Steinnesi, Sál frá Fornusöndum, Kolfinnu frá Minni-Völlum og Dís frá Hólakoti.
Verknemar frá Hólaskóla verða með atriði, unglingar undir stjórn Hugrúnar Jóhannsdóttur leika listir sínar og landsmótssigurvegarar gleðja gesti.
Allt þetta og miklu meira í Ölfushöllinni á laugardaginn. Allir velkomnir, húsið opnar kl. 19, miðaverð er kr. 2.500 og er hægt að tryggja sér miða í forsölu í Baldvini og Þorvaldi á Selfossi, Líflandi Lynghálsi í Reykjavík og Top Reiter í Ögurhvarfi í Kópavogi.
Fleiri hross sem koma fram verða kynnt á netmiðlum hestamanna á næstu dögum. Fylgist með og tryggið ykkur miða á þessa vinsælu sýningu.