Vallarsveifgras

VALLARSVEIFGRAS (Poa pratensis)
Vallarsveifgras er ein af u.þ.b. 200 tegundum sveifgrasa sem til eru í heiminum og ein af 7 sveifgrastegundum sem vaxa villtar hér á landi. Tegundin er algeng um allan heim og hefur verið í túnum í aldaraðir, þó ekki þar sem heitast er.

Útlit:
Vallarsveifgras er yfirleitt fremur lágvaxið (30-50 sm). Sveifgrösin eru puntgrös og er punturinn keilulaga þar eð neðstu greinar hans eru lengstar en síðan styttast þær eftir því sem ofar dregur. Hliðargreinar standa nær lárétt út frá stögnlinum.
Blöð vallarsveifgrass eru auðþekkt á því að þau enda í totu, líkt og bátsstefni, sem klofnar ef strokið er fram eftir blaðinu. Þar sem önnur sveifgrös hafa einnig samskonar totu getur verið erfitt að þekkja sveifgrösin í sundur. Það verður helst gert með því að athuga vaxtarmátann.
Vallarsveifgras vex yfirleitt í breiðum eða blettum, oft hringlaga stundum með öðrum tegundum inni í miðjum hring. Þetta er vegna þess að vallarsveifgras breiðir úr sér með neðanjarðarrenglum. Plantan breiðist þá út til allra átta ef skilyrði til slíkrar útbreiðslu eru góð.
Vallarsveifgras er tilbrigðarík tegund og eru stofnar af því misjafnir að útliti og eiginleikum. Tegundin fjölgar sér kynlaust að mestu, fræ verða þá til án frjóvgunar og öll fræ af einni plöntu hafa sömu arfgerð. Stofnar af norðlægum upppruna eru yfirleitt dökkgrænni en stofnar frá Suðurhöfum.

Jarðvegur:
Vallarsveifgras gerir ekki miklar kröfur til jarðvegs en vex þó lakast í þurrum sandjarðvegi. Það þolir traðk og umferð vel og er því mikið notað í íþróttavelli og grasfleti í skrúðgörðum.

Stofnar:
Margir stofnar eru til af vallarsveifgrasi og allir þeir sem telja má nokkra von um að þrífist hér á landi hafa verið prófaðir. Þúsund korna vigt er um 0,3 g. Sáðmagn er um 18 kg/ha í hreinrækt en algeng hlutdeild vallarsveifgrass í grasfræblöndu er um 30% á móti 70% vallarfoxgrass em ætti að henta víða á kúabúum. Helsti stofnar sem hér hafa verið notaðir eru:

  • Fylking. Sænskur stofn sem upphaflega var gerður fyrir skrúðgarða en hefur staðið sig ótrúlega vel við íslenskar aðstæður. Fylking setur svo til aldrei punt hér á landi, gefur ekki mikla uppskeru í fyrsta slætti en mjög góðan endurvöxt, jafnvel þó seint sé slegið.
  • Primo.
  • Sobra
  • Lavang. Norskur stofn, þolinn og uppskerumikill.

Uppskera:
Þótt vallarsveigrasið sé fremur lágvaxið getur það orðið mjög þétt og því gefið mikla uppskeru. Vallarsveifgras skríður yfirleitt í júní eða fyrst í júlí í meðalári og þyrfti að slá það um skrið því næringargildi þess minnkar fljótt eftir skrið. Endurvöxtur vallarsveifgrass er góður og sé það slegið áður en það sprettur úr sér getur fengist mikil og góð há af því.
Vallarsveifgras er talin fremur lostæt jurt og skepnur sækjast gjarnan í að bíta það, einkum á haustin. Vallarsveifgras er steinefnaríkt sé það ekki svelt.

Nýting:
Vallarsveifgras er sjaldan notað eitt sér hedlur í blöndum með öðrum tegundum, einkum vallarfoxgrasi og túnvingli, annað hvort hvoru fyrir sig eða báðum saman. Í blöndum þar sem vallarfoxgras er meginuppistaðan er vallarsveifgrasinu ætlað að sjá um háarsprettu og fylla í skellur sem kunna að koma í svörðinn.
Í vætutíð síðsumars og á haustin vill sveppur, mjöldögg setjast á blöð vallarsveifgrass. Nafnið kemur til af því að sveppurinn ber hvít gró sem gera að patnan lítur út eins og sáldrað hafi verið yfir hana hveiti.

 

Heimildir:
Nytjajurtir. Kennsluefni við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Ýmsir höfundar. Samantekt efnis: Ríkharð Brynjólfsson
Upplýsingar um sáðvörur vorið 2003. Mjólkurfélag Reykjavíkur

back to top