Ísland sem grasræktarland
Ísland er grasræktarland. Vegna norðlægrar staðsetningar landsins ríkja hér yfirleitt langir vetur og stutt sumur en við slíkar aðstæður mun grasrækt alltaf verða undirstaða fóðuröflunar fyrir búfé, jafnvel þó kornrækt hafi og muni áfram sækja í sig veðrið með auknum kynbótum og hlýrra veðurfari.
Af hinum mikla fjölda grasa eru tiltölulega fáar notaðar til túnræktar. Í lista OECD um stofna nytjajurta eru taldar um 75 tegundir túngrasa. Langflestar hafa þó óverulega eða staðbundna þýðingu eða eru eingöngu notaðar í íþróttavelli, golfvelli o.þ.h.