Verslun með korn

Verklagsreglur um framleiðslu, meðhöndlun og markaðssetningu á byggi



  1. Eftir þreskingu þarf að gæta þess að kornið sé þurrkað og/eða verkað á annan hátt á þurrum og hreinum stað þar sem húsdýr hafa ekki verið hýst og hafa ekki aðgang að. Staður þessi skal vera meindýraheldur.
  2. Einungis skal nota hreina poka/sekki undir korn. Flutningatæki undir korn sem áður hafa verið notuð til að flytja dýr, dýraafurðir eða húsdýraáburð skulu tryggilega sótthreinsuð fyrir notkun.
  3. Kaup, sala og flutningur á hálmi, lýtur sömu reglum og gilda um flutninga á heyi, sbr. reglugerð nr. 651/2001, um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, með síðari breytingum. Flutningur á hálmi innan og út af sýktum svæðum vegna riðu er háður skriflegu leyfi viðkomandi héraðsdýralæknis. Sjá nánar á vefsíðu yfirdýralæknis, (http://www.yfirdyralaeknir.is)
  4. Óheimilt er að endurnota poka/sekki undan korni sem kemur á fóðurblöndunarstöð eða til annars skráðs söluaðila. Önnur ílát og hverskonar flutningstæki fyrir fóðurvörur skulu þvegin og/eða á annan hátt hreinsuð fullkomlega eftir notkun, áður en þau eru notuð undir fóður þannig að engin blöndun né mengun geti átt sér stað, að því er varðar fóðurefni, óæskileg efni og smitefni.
  5. Bændur eða aðrir (t.d. þeir sem taka að sér kornþurrkun) sem ætla að setja korn á markað eða selja til fóðurblöndunarstöðva þurfa fyrst að láta skrá sig hjá Aðfangaeftirlitinu.
  6. Umsóknir um skráningu skulu sendar Aðfangaeftirlitinu á þar til gerðum eyðublöðum, sem eru á heimasíðu eftirlitsins undir Eyðublöð, Fóður, Skráning-viðurkenning-eyðublöð( http://www.adfangaeftirlit.is) Aðfangaeftirlitið staðfestir skráninguna, hafi henni verið lýst á fullnægjandi hátt.
  7. Undanskilið ákvæðum um skráningu hjá Aðfangaeftirlitinu er eftirlitsskylt fóður og fóðurvörur sem bændur framleiða sjálfir á búum sínum til eigin nota eða selja sín á milli, s.s. kornvara, sem ekki hefur eða hefur í litlum mæli fengið tæknilega meðhöndlun og er án hverskonar íblöndunar aukefna annarra en leyfilegra efna til að bæta verkun.


    Reykjavík, 22. ágúst 2005
    Embætti yfirdýralæknis
    Aðfangaeftirlitið

back to top