Almenn ráðgjöf um línrækt

/Jón Guðmundsson
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
Veggspjald af Ráðunautafundi 2003

Lín (Linum usitatissimum, sú sem er gjörnýtt) er gömul ræktunarplanta. Fræ og þræðir plöntunnar hafa lengi verið nýtt. Plantan hefur því verið kynbætt í tvær áttir, til að auka olíumagn í fræi og til að auka trefjaþræði í stöngli. Fræ var notað til matar og olían sem hægt er að vinna úr fræinu var og er afar hentug til að verja við. Olían hefur bæði fúavarnareiginleika og hrindir frá sér vatni. Hún hvarfast einnig við súrefni og verður við það að harðri olíu. Olíulín hefur ekki verið ræktað hér á landi, eingöngu lín sem hráefni í spuna.
Línrækt var algeng í norðurhluta Evrópu á landnámsöld. Telja má víst að landnámsmenn hafi tekið þá ræktunarmenningu með sér. Nokkrar heimildir eru um línrækt hér á landi til forna. Örnefni og vísur benda og til línræktar.
Nokkrar tilraunir voru gerðar með línræktun hér á landi á tuttugustu öldinni. Ræktunartilraunir gerðar á Suðurlandi, á Innnesjum og á Vesturlandi sýna að hægt er að rækta lín hér á landi. Á tuttugustu öldinni gerðist það einnig að línrækt lagðist af á Norðurlöndunum vegna þess að samkeppnisstaða þessarar ræktunar versnaði miðað við önnur ræktunarform. Línþráður lenti í samkeppni við gerviefni, sem voru talin hafa kosti umfram línið. Nú örlar á fráhvarfseinkennum frá þeirri stefnu.

Frá árinu 1997 hefur með rannsóknarvinnu verið leitast við að svara þeim spurningum sem ekki hafði verið svarað nægilega í fyrri rannsóknum eða afla ítarlegri upplýsinga um einstök atriði. Helstu rannsóknaniðurstöður síðustu sjö ára eru eftirfarandi.

UPPSKERA
Þræðir
Uppskera líns er vel viðunandi miðað við uppskeru annars staðar í Evrópu. Þurrefnisuppskera á hektara hefur mælst vera 5–8 tonn á Suður- og Vesturlandi þegar sáð er um miðjan maí við góðar aðstæður. Á Norðurlandi mælist uppskeran mun minni. Uppskeran er mæld eftir rykkingu og því er hluti rótar með í uppskerumælingu. Lengd knippa er oftast um 100 cm. Góðir þræðir myndast í plöntunni fyrir fullþroska og því er hægt að hirða uppskeru þótt plantan sé græn.
Fræþroski
Fræ þroskast í líni ef það stendur lengi. Fræuppskera á Korpu mælist um 100 kg/ha. Fræuppskera undir Eyjafjöllum sumarið 2002 var hins vegar 300–500 kg/ha.

JARÐVINNSLA OG SÁÐTÍMI
Flest bendir til að sá eigi snemma, t.d. seint í apríl, þó er hugsanlegt að hart vorfrost drepi plöntur. Sáðtíma þarf að velja eftir jarðvinnslu og veðri. Sá á örgrunnt, strax eftir jarðvinnslu og valta eftir sáningu. Fræ þarf að ná góðum tengslum við jarðveginn. Því þarf að sá í vel unnið flag, Góðri jarðvinnslu er erfitt að ná fyrr en klaki er úr jörð. Ef flag er laust í sér þarf að valta fyrir sáningu.

SÁÐMAGN
120 kg fræ/ha gefa um 1100–2000 plöntur/m2. Í svo þéttri sáningu greinist plantan ekki. Ef sáðmagn er aukið vex hætta á legu, þar sem plöntur verða veikari. Þar sem ræktun er í lagi leggst plantan ekki, en ef hún leggst er líklegt að hún verði ekki til nytja. Ef sáðmagn er minnkað og hver planta fer að hafa mikið rými fer plantan að greinast niður við rót og það spillir þræðinum.

ILLGRESI
Lín er frekar lengi að mynda þéttan svörð og þolir illa illgresi. Lín þolir hins vegar illgresiseyðinn linuron (verslunarheiti er Afalon) sem fellir nærri allar aðrar einærar plöntutegundir. Það er því hægt að úða ef einært illgresi er í akrinum. Nota þarf 1–2 lítra af Afaloni á hektara.

ÁBURÐARGJÖF – pH
Við áburðargjöf má miða við að notaður sé um hálfur til 2/3 túnskammtur af nítri (N) og kalí (K) og fullur skammtur af fosfór (P). Hver túnskammtur er háður ræktunarsögu spildunnar og frjósemi. Í flestum tilfellum er fullur áburðarskammtur á lín um 65 kg af N, 30 kg af P og 60 kg af K. Þessu má t.d. ná með því að bera á 450 kg af Græði 5 á hektara. Sýrustig (pH) í jarðvegi á að vera milli 6 og 7.

NÆTURFROST
Næturfrost að hausti hefur lítil sem engin áhrif á línið. Lín getur því staðið í akrinum fram í október ef veður leyfir það að öðru leyti.

UPPSKERUTÍMI
Við sáningu í maíbyrjun má búast við blómgun í seinni hluta júlí. Plöntur eru komnar með sterka þræði 30–40 daga eftir fullblómstrun. Rykkja má hvenær sem er eftir það. Við rykkingu er plantan dregin upp úr moldinni, en ekki slegin. Ef seint er rykkt má búast við að fræ hafi þroskast og fræ má þá hirða.

VINNSLA
Rykkilínið fer eftir upptöku í vinnslu, sem miðar að því að fjarlægja öll plöntulíffræi utan af trefjaþráðunum sem liggja í búntum innan í stönglinum.
Vinnsluferlar eru: feyging, þar sem plöntuhlutar fúna utan að þráðunum. Þetta er nokkuð nákvæmur ferill, því að þræðirnir sjálfir mega ekki fúna. Þekktar feygingaraðferðir eru vallarfeyging, þar sem línið liggur um tíma á velli eftir rykkingu, og vatnsfeyging, þar sem línið er feygt í volgu vatni. Eftir feygingu er línið þurrkað og brákað, þar sem plöntuhold er mulið utan af þráðunum. Síðan þarf að kemba þræðina sem eftir það eru hæfir í spuna.

NOTKUN
Lín er nokkuð notað í ýmiss konar listiðnaði en aðalmarkaður líns er hins vegar sem hráefni í vefnað, spunalín, t.d. í líndúkum svo og í svokallaðan flóka en þar eru línþræðir ekki spunnir saman heldur þæfðir og pressaðir saman í ýmiss konar form.

back to top