Leiðbeiningar við töku heysýna
Hirðingarsýni
Sýni skal tekið rétt áður eða samtímis því sem hirðing hefst á viðkomandi spildu. Mikilvægt er að hvert sýni gefi sem bestan þverskurð af því heyi sem er á viðkomandi spildu. Til að svo megi verða má hugsa sér að fara um spilduna t.d. eftir hornalínu hennar og taka heyvisk hér og þar og setja í plastpoka.
Um magnið er erfitt að segja en til viðmiðunar má nefna 0,2 til 0,4 kg, háð þurrkstigi. Athuga þarf þó að taka ekki meira en svo að auðvelt sé að loka pokanum t.d. með því að setja hnút á pokann og loka honum þannig. Það er ekki nauðsynlegt að taka sýni úr öllum túnum. Góð regla er að flokka sýnin eftir fyrri og seinni slætti, ný og gömul tún, rýgresi o.s.frv.
Verkuð sýni
Til að hægt sé að gera fóðuráætlun í NorFor er mælst til að senda inn verkuð heysýni. Þegar senda á verkuð gróffóðursýni til efnagreiningar þarf fóðrið að hafa legið í stæðu eða rúllu í 6-8 vikur. Þegar tekin eru verkuð sýni er nauðsynlegt að hafa prufubor. Það er gott að taka prufur á nokkrum stöðum úr stæðu eða úr nokkrum rúllum og blanda því vel saman og senda samsýni úr þeirri blöndu. Einnig er gott að hafa í huga að taka sýni á fleiri en einum stað úr þeim rúllum sem búið er að gata á annað borð.
Stæða: Borað 5-7 sinnum, því blandað vel saman og senda sýni úr því.
Rúllur eða stórbaggar: Borað 2-3x í 2-3 rúllur/bagga bæði ofarlega og neðarlega í rúlluna/baggann. Þessu blandað saman , sýni tekið úr því og sett í plastpoka.
Meðferð sýna
Að lokinni sýnatöku þarf að setja sýnin sem fyrst í frystikistu. Þegar sýnin eru síðan send BSSL er gott að setja þau í pappakassa og láta koma fram á kassanum að þetta séu heysýni. Hægt er að senda sýnin til BSSL með mjólkurbíl eða á annan öruggan hátt. BSSL mun síðan koma sýnunum áfram í efnagreiningu.
Merking sýna
Ætlast er til að notaðir séu þar til gerðir límmiðar til að skrá upplýsingar um hvert sýni. Mikilvægt er að merkja hvert sýni eins fljótt og hægt er. Á límmiðann er fyrst skráð nafn bónda og býlis auk kennitölu. Síðan þarf að merkja við hvers konar sýni sé um að ræða, þ.e. gras-, hirðingarsýni eða verkað fóður. Þá er einnig merkt hver verkunaraðferð er, þ.e hvort þetta eru rúllur, þurrhey, vothey eða heymeti.
Hvaða dag viðkomandi tún eða spilda er slegin þarf að skrifa svo og hirðingardagur.
Loks þarf að auðkenna sýnið með heiti spildu, númeri eða á annan hátt.
Efnagreining sýnanna og verð
Reiknað er með allt að 30 daga afgreiðslufresti frá því sýnin koma til okkar og niðurstöður berast bændum.
Verð fyrir heildarmælingar (með steinefnum og tréni) er 5.700 kr. hvert sýni án vsk.
Verð án steinefna 3.000 kr. hvert sýni án vsk.
Viðbót fyrir Norfor kerfið (aska, sCP,NDF og iNDF) 1.500 kr. hvert sýni án vsk.
Verðin miðast við efnagreiningu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Að lokum
Ef eitthvað er óljóst um framkvæmd sýnatökunnar, hikið þá ekki við að hafa samband við Runólf Sigursveinsson, netfangið: rs@bssl.is , eða Margréti Ingjaldsdóttur, netfangið: margret@bssl.is , sími: 480-1800.