Ræktun olíurepju
Ræktun olíurepju
Fyrri tegundin hefur gengið undir nafninu repja hérlendis í hálfa öld. Hún heitir raps á norðurlandamálunum og er sama tegundin og gulrófa. Hún lætur hjá líða að safna forðanæringu í rótina, en hefur verið kynbætt til þess að bera sem allra mest fræ. Tvíæra afbrigðið af repju hefur verið notað hér sem fóðurkál í nærri fimmtíu ár og oft í stórum stíl. Síðari tegundin hefur fengið nafnið nepja, en heitir rybs á norðurlandamálunum. Það er sama tegundin og næpa, en án undirvaxtar. Til eru svo bæði vorafbrigði og vetrarafbrigði af hvorri tegund fyrir sig, þannig að um fjórar gerðir er að ræða alls.
Uppskera fræ, kg þe/ha |
Feiti skv.efnagr. % af þe. |
Næst með pressu % af þe. |
Olía, l/ha eðlisþ. 0,9 |
Hitaþörf fræárið, gráðudagar |
|
Tvíær nepja |
2750 |
44 |
29 |
900 |
1200 |
Tvíær repja |
3850 |
48 |
33 |
1400 |
1350 |
Einær nepja |
1800 |
44 |
29 |
600 |
1450 |
Einær repja |
2250 |
47 |
32 |
800 |
1600 |
Tilraunir voru gerðar með vetrarafbrigðin á níu stöðum hérlendis 2008-09. Þar sem best tókst til, á Þorvaldseyri og Möðruvöllum, fékkst uppskera sambærileg við það sem sést í töflunni hér að ofan. Í töflunni er eingöngu nefnd olíuuppskera, en ekki má gleyma, að sá hluti fræsins, sem af gengur þegar olían hefur verið pressuð, er verðmætt próteinfóður.
Einæru afbrigðin eru yfirleitt auðveld í ræktun og fylla akurinn bara eitt ár. Í samanburði við tvíæru afbrigðin eru uppskeruvonir þó ekki miklar. Þær þurfa líka langt og hlýtt sumar, nepjan jafnmikinn hita og fljótþroska vorhveiti og repjan svipað og seinþroska hveiti. Sú síðarnefnda er því alveg fyrir utan kortið hér á landi. Hugsanlegt er að rækta megi einæra nepju á bestu stöðum hérlendis. Hún hefur verið í tilraunum á Korpu þrjú ár án þess að náðst hafi viðunandi árangur, en þó ekki fjarri því.
Einn galli hefur fylgt þessum tegundum hér á Korpu og hann er sá, að þær verða varanlegt illgresi í ökrum, þar sem þær hafa verið ræktaðar. Þær ná sér að vísu ekki á strik, sé akurinn gerður að túni, en setja óræktarsvip á kornakur, sem á eftir þeim kemur, jafnvel þótt mörg ár séu liðin frá repjusáningu.
Við horfum því fyrst og fremst til tvíæru afbrigðanna. Þau gera svipaðar kröfur til hita síðara árið og bygg, nepjan þarf ámóta hita og fljótþroska bygg og repjan ámóta og seinþroska bygg. Þessi afbrigði fylla akurinn að vísu tvö ár eða réttara sagt eitt og hálft, því að taka má fyrri slátt af túni áður en það er plægt fyrir repjusáningu. En ræktun tvíæru afbrigðanna fylgir nýr áhættuþáttur, það er hvort þau lifa veturinn eða ekki. Það verður aðalvandi og aðalviðfangsefni þeirra, sem hyggja á ræktun af þessu tagi. Þar er nepjan til muna öruggari og þolnari en repjan.
Hér verða settar fram stuttorðar leiðbeinigar um það sem hafa þarf í huga við ræktun repju og nepju.
Land. Tvíæru afbrigðunum líður best þar sem annað hvort eru vetur mildir og lítið um jarðklaka eða þá þar sem snjóalög eru stöðug. Tíð skipti á frosti og þíðu þola þau illa og frostlyftingu ekki. Illa hefur líka reynst, ef vatn stendur uppi á akri vetrartíma. Reynslan sýnir, að forðast ber leirmó og leirborinn sand eða aur. Þar eru líkur á að frosthreyfingar jarðvegs lyfti plöntunum alveg upp úr jörðu.
Sáðtími. Samkvæmt tilraunum, sem gerðar hafa verið á Korpu, er æskilegasti sáðtími tvíæru afbrigðanna milli 10. og 25. júlí. Varhugavert er að vera seinna á ferðinni en það. Einæru afbrigðunum verður að sá eins snemma vors og mögulegt er.
Sáning og sáðmagn. Best er að raðsá með a.m.k. 12 sm bili milli raða, dreifsáning getur þó gengið líka. Ráðlagt sáðmagn af repju er 4-6 kg af fræi á ha, en 6-8 kg á ha af nepju. Munurinn er vegna þess að nepjan greinist minna en repjan. Ef sáð er meira en þetta getur það komið niður á vetrarþoli, því að í þéttri sáningu verða plönturnar alltaf smáar. Fyrir veturinn þurfa þær að ná 6-8 blöðum, fingurgildum rótarhálsi og djúpri rót.
Áburður við sáningu. Við sáningu er borið á nálægt 50 kg N á ha í sæmilega frjósömu landi, en í sandi eða á mel þyrfti að fara upp í 70-80 kg N á ha. Við höfum ráðlagt Garðáburð eða Blákorn til þess að gefa stóra skammta af steinefnum. Óvíst er, hvort þörf er á því og samkvæmt erlendum ráðleggingum mætti allt eins nota einhverja tegund af svokölluðum flagáburði.
Áburður að vori. Að vori verður að bera á eins snemma og hægt er. Rétt er þá að bera á svipaðan skammt og borið er á korn á sams konar landi, það þýðir svona 60 kg N á ha á frjósömu landi og allt að 100 kg N á ha á sandi. Það sama á við um einæru afbrigðin. Menn eru ekki sammála um það, hvort þörf er á því að bera á bór. Engin hefð er fyrir bóráburði á repju, þegar hún er notuð sem fóðurkál, en bórskortur getur valdið skaða í garðrækt, einkum ef sýrustig er hátt.
Skurður. Þegar repjan hefur blómgast, sett skálpa og gerst gulbrún, þá þarf að fylgjast með henni daglega. Til að ná sem mestri og bestri uppskeru verður repjan að standa sem lengst. En hún getur allt í einu tekið upp á því að sprengja skálpana. Sé veður þar að auki hvasst, getur stór hluti uppskerunnar tapast á einu dægri. Því ríður á að hafa skurðarvélar tilbúnar. Uppskeruna þarf svo að þurrka við blástur. Geymsluþurrt er fræið ekki fyrr en rakainnihald er komið niður í 8%. Fljótlegra er að þurrka repjufræ en bygg vegna þess hve fræið er smátt.
Kálæxlaveiki. Repja og nepja eru næmar fyrir kálæxlaveiki. Það er alvarlegur rótarsjúkdómur í káli og getur borist milli bæja og akra með moldugum jarðvinnslutækjum. Sýkillinn lifir í jarðveginum árum saman og ef veikin berst á bæ, verður ekki hægt að hafa repju þar í sama landi nema með margra ára millibili. Kálæxlaveiki hefur þegar fundist á nokkrum bæjum sunnanlands. Gera verður allt sem unnt er til að koma í veg fyrir að veikin breiðist út.
Í lokin vil ég enn ítreka, að ræktun þessara tegunda er áhættusöm og bið menn um að fara varlega að minnsta kosti á meðan við erum að læra á ræktunina og finna takmörk hennar. Vetrarþol tvíæru afbrigðanna er brigðult og þar að auki er alls ekki gefið að síðara sumarið verði nógu hlýtt til þess að þau nái þroska. Ég bendi á, að nepjan er til muna harðgerari en repjan og repjuræktendur ættu jafnan að hafa hana í hluta lands.