Bygg í fóðri mjólkurkúa

gretar_hrafnBygg í fóðri mjólkurkúa
Grétar Hrafn Harðarson,
Tilraunastjóri, Stóra-Ármóti

 

 Byggrækt hefur aukist mjög mikið síðustu ár. Á árinu 2003 er áætlað að sáð hafi verið í um 2.600 ha. vítt um land. Meðaluppskera var 3,8-4,0 tonn/ha af þurru byggi eða um 10 þús. tonn í heild (Jónatan Hermannsson, munnlegar heimildir). Til samanburðar má áætla að heildarnotkun kjarnfóðurs í mjólkurkýr sé um 25 þús. tonn á ári.

Bygg er áhugavert fóður fyrir nautgripi. Efnasamsetning byggs er þó ekki í jafnvægi við þarfir mjólkurkúa. Það er orkuríkt en aftur á móti lágt í próteini, tréni og steinefnum (tafla 1). Sérstaklega þarf að taka tilliti til lágra gilda fyrir kalsíum og magnesíum. Bygg hentar vel með öðru fóðri og þá sérstaklega í heilfóðri.

Tafla1: Samanburður á efnainnihaldi (g/kg þe.) byggs, heys og heilfóðurs ætlað hámjólka kúm 

Þroskunarstig og verkun byggs getur haft nokkur áhrif á efnasamsetningu og fóðurgildi byggs. Ólíkt grasi lækka tréni og aska á sama tíma og orka, prótein og fita hækka með auknum þroska. Þurrkun byggs tryggir besta mögulega efnainnihald en við votverkun brotna næringarefnin að hluta til niður. Própíonsýra takmarkar gerjunina sem á sér stað við votverkun og með því móti minnkar efnatapið.

Tilraunir á Möðruvöllum 1996 og Stóra Ármóti 1997 þar sem fóðurgildi mismunandi byggs var rannsakað sýndu að gerð byggsins hafði lítil áhrif á át og afurðir, en tilhneiging var til að votverkaða byggið kæmi best út.

Átgeta er helsti takmarkandi þáttur í fóðrun mjólkurkúa. Til að vinna gegn þessu hafa bændur aukið orkustyrk fóðurs og hækkað hlutfall kjarnfóðurs í heildarfóðri verulega, sérstaklega í byrjun mjaltaskeiðs. Kjarnfóðurgjöf er á bilinu 15 –30 kg fyrir hverja 100 lítra mjólkur framleidda og hámarkskjarnfóðurgjöf er nú víða 10 –12 kg á kú á dag. Þessi mikla aukning á orkustyrk fóðursins hefur víðtæk áhrif á efnaskipti kýrinnar og efnasamsetningu afurðanna.

Hámarksafurðastefna kallar á meiri nákvæmni við fóðrun. Ef ekki er komið til móts við fóðurþarfir leiðir það til aukins álags á kýrnar og eykur jafnframt hættuna á framleiðslusjúkdómum. Há nyt sem slík eykur ekki hættuna á efnaskiptasjúkdómum enda má segja að heilbrigði sé forsenda mikilla afurða. Það er fyrst og fremst ójafnvægi í fóðursamsetningu og fóðrun sem veldur framleiðslusjúkdómum.

Í fóðri mjólkurkúa er um 60-70% kolvetni (tréni, sterkja og sykur). Afgangurinn samanstendur af próteini, fitu og ösku. Í núverandi fóðurmatskerfi gefur orkuinnihaldið (meltanleikinn) vísbendingar um eiginleika kolvetnanna. Víða erlendis er fóðurmatið mun nákvæmara og einstakir þættir kolvetnanna greindir.

Fóðurþarfir fyrir hin ýmsu framleiðsluskeið mjólkurkúa má skilgreina með tilliti til allra þessara þátta (sbr. efnainnihald heilfóðurs í töflu 1). Á einfaldan hátt má segja að fóður fyrir hámjólka kýr þarf að innihalda ákveðið lágmark af tréni (torgerjanlegt kolvetni), mikið magn auðgerjanlegra kolvetna og skapa aðstæður fyrir jafna gerjun án of mikillar sýrustigslækkunar í vömb (pH>5,7). Kýr í lægri nyt og með minni orkuþarfir geta nýtt fóður með lægri orkustyrk þ.e.a.s. meira tréni.

Tréni hefur neikvæð áhrif á meltanleika fóðurs og þar með fóðurgildi. Tréni er engu að síður nauðsynlegt í fóðri jórturdýra því það myndar “mottu” í vömbinni sem er nauðsynleg fyrir eðlilega meltingu. Vambarmottan örvar jórtrun og framleiðslu munnvatns sem dregur úr lækkun sýrustigs í vömb. Helsti trénisgjafinn í fóðri mjólkurkúa er gróffóðrið. Korn er aftur á móti mjög auðugt af auðgerjanlegum kolvetnum. Vegna mismunandi gerjunareiginleika korntegunda er mikilvægt að ekki sé treyst eingöngu á eina korntegund í fóðri hámjólka kúa. Bygg er í flokki auðgerjanlegra korntegunda ásamt höfrum og hveiti. Maís gerjast aftur á móti hægar og þess vegna er gott að gefa þessar korntegundir saman til að draga úr hættu á meltingartruflunum þegar kjarnfóðurhlutfall er hátt. Einnig má benda á að afurðir sem innihalda pektín (sykurrófumjöl og ýmsar belgjurtir) hafa annað gerjunarmynstur og valda síður súrnun í vömb.

Á grunni gerjunareiginleika byggs er hámarks hlutfall byggs í fóðri mjólkurkúa almennt talið vera 25-30% á þurrefnisgrundvelli meðan samsvarandi tala fyrir maís er hærri. Heildarát liggur yfirleitt á bilinu 16-20 kg þurrefnis og þannig má áætla að öruggt sé að gefa kúm 4-6 kg af þurrefni byggs á dag. Í raun eru margir bændur að gefa meira en sem þessu nemur án augljósra vandamála og líklegt að skýringuna sé að finna í tréniseiginleikum gróffóðursins.

Fóðrunartækni hefur einnig veruleg áhrif á hversu mikið er hægt að gefa af auðgerjanlegum kolvetnum. Mikilvægt er að gefa kornið í mörgum en smáum skömmtum til að tryggja jafna gerjun í vömb. Búnaður sem uppfyllir þessi skilyrði er því ákjósanlegur. Auðvelt er að tæknivæða gjafir á þurrkuðu korni en þegar kemur að súrsuðu byggi vandast málið þar sem votverkað bygg vill stífla færibönd og snigla. Í lausagöngu fjósum hafa svo nefndir súrkornsbásar gefist nokkuð vel. Þar hafa kýrnar tölvustýrðan aðgang að súrsuðu byggi í ákveðinn tíma og í ákveðinn fjölda skipta á sólarhring. Heilfóðrun er auðveldasta aðferðin til að tryggja almennt jafnvægi næringarefna í fóðrinu út frá þörfum kýrinnar á hverju stigi framleiðsluferilisins. Hægt er að stilla af hvern efnaþátt fóðursins og þar með nálgast markmið um t.d. lágmarks trénisinnihald og rétt hlutfall próteins og kolvetna í fóðri hámjólka kúa.

Þessi grein birtist í aprílhefti Freys 2004

back to top