Ræktunarkjarninn 2002
Í upphafi árs voru til 37 frystir fósturvísar. Af þeim eru 22 undan Búbót 29 og Kaðli 94017, 10 undan Gæfu 314 og Klerki 93021 og 5 undan Slaufu 433 og Vestra 94014. Af þeim var 15 komið fyrir í fósturmæðrum og hafa 4 af þeim fest fang sem er auðvitað ekki nægjanlega góður árangur. Nú verður farið að meðhöndla fósturvísana í ethylen glycoli í stað glyceróls sem gerir það að verkum að hægt verður að meðhöndla þá eins og fryst nautasæði.
Kýr og kvígur sem tilheyra ræktunarkjarnanum eru 34 og þar af 16 ungar og óbornar flestar þeirra afar vel ættaðar. Kvígur sem tilheyra ræktunarkjarnanum á Stóra Ármóti og báru í haust mjólkuðu vel enda kýr þar á bæ fóðraðar til meiri afurða nú síðustu 2 árin.
Skjalda 004. Þessi kvíga er undan Smelli 92028. Móðir hennar er Jósý 603 afurðasæl dóttir Ugga 88004. Þetta er snotur og góð kvíga sem fer vel af stað og komst í 26 kg dagsnyt og heldur vel á sér en virðist hafa efnarýra mjólk eins og hún raunar á kyn til.
Lokka 005. Er tvíkelfingur á móti kvígu nr. 006.Móðir þeirra er Rós 718 dóttir Hvanna 89022 og Kvöldrósar 431 en svo eru þær undan Skugga 92025. Kvígan er með opna byggingu og full afturþungt júgur. Skap mætti vera betra en hún er mjólkurlagin, komst í 27 kg hæstu dagsnyt og heldur vel á sér.
Brussa 010. Er undan Bryðju 415 sem var ættuð frá Bryðjuholti og Krossa 91032. Kvígan er afburða mjólkurlagin og fór í 34 kg hæstu dagsnyt. Hún er geðgóð og afar laus í mjöltum. Júgrið er afar vel borið og breitt en framspenar full gleitt settir.
Prýði 014. Hér er enn ein dóttir Kvöldrósar 431 frá Sigtúnum en faðirinn er Tjakkur 92022. Þetta er prýðilegt kýrefni með ágæta júgur- og spenagerð en hefur erft fínleika í byggingu frá Þræði 86013 afa sínum og háan krossbeinskamb frá móður sinni. Hún fór í 27 kg hæstu dagsnyt
Bíbí 017. Er undan Stúfi 90035 og í móðurætt af út af Gígi 018 frá Stíflu sem gaf af sér 3 naut á nautastöð. Þessi laglega kvíga sem við fyrst sýn líkist kúm af Jersey kyni hefur alla burði til að reynast farsæll gripur þó hún teljist ekki til skörpustu gripa frekar en móðir hennar og amma. En þær bættu sig með auknum aldri og þroska.
Að lokum fylgir svo hér með mynd af rauðhryggjóttri kvígu sem áhugamaðurinn Daníel Magnússon frá Akbraut gaf tilraunabúinu. Kvígan er rétt liðlega tveggja ára, feikna háfætt, þroskamikil og með öfluga byggingu. Kvígan heitir Gullbrá og er undan Leggi 97975 sem var bróðir Ljómalindar 58, en móðir hennar er Lísa 73 sem er dóttir Andvara 87014.
Ef við lítum til nágrannalanda okkar þá hefur ekki orðið sú þróun að kúahópar á búunum yrðu myndaðir með fósturvísaflutningum eins og menn bjuggust við fyrir ca. 15 árum, m.a. vegna kostnaðar. Hinsvegar eru bestu kýrnar gjarnan settar í fósturvísaflutninga og þá er um leið verið að tryggja að nautkálfar fáist á stöð. Fósturvísaflutningar eru einnig notaðir við flutning erfðaefnis milli landa og í holdanautarækt.
Við höfum ekki fengið nýtt erfðaefni í ræktunarkjarnann í nokkur ár, en nú er komin tími á að við framkvæmum það sem til hefur staðið eða að reyna að semja við bændur sem eiga úrvalskýr um að fá að skola fósturvísum úr þeim og að fá hluta af þeim inn í ræktunarkjarnann. Um leið erum við að auka líkur til þess að nautkálfar undan þessum sömu úrvalskúm fáist á uppeldisstöð.