Gengisþróun


Gengisþróun

Hér verður fjallað lítilsháttar um þróun gengis  íslensku krónunar gagnvart eftirtöldum fimm myntum, USD, EUR, GPB, JPY og CHF. Tekin er staðan eins og gengið var skráð þann 25 ágúst 1999 og síðan þegar þetta er ritað þann 27. desember 2005. Einnig verða fundin hæstu og lægstu gildi. Notast er við almennt gengi og eru línuritin sem hér fylgja tekin af vef Landsbanka Íslands, www.landsbanki.is þann 27. desember 2005 


Evra (EUR)
Í ágúst 1999 var gengi Evru rúmar 76 kr. Síðan styrkist krónan og  evran fer lægst niður í 68 kr. í maímánuði árið 2000. Í lok nóvember árið 2001 nær evra sínu hæsta gildi gagnvart krónu rúmar 97 kr. Þann 27. des 2005 er gengi evru 75,6 kr. Á þessu tímabili hefur gengið sveiflast um rúmlega 28%.


Mynd 1. Gengisþróun Evru frá 1999 til 2005.



Bandaríkjadollar (USD)
Í ágúst 1999 var gengi dollars rúmar 73 kr. en síðan gaf  krónan eftir og  dollarinn kostaði í lok nóvember 2001 tæpar 111 krónur. Síðan hægt og bítandi styrkist krónan og í marsmánuði  árið 2005 slær gengi dollars niður í 58 krónur.  Þann 27. des 2005 var gengi bandaríkjadals 63,76 kr. Á þessu tímabili hefur gengið sveiflast um rúmlega 89%.


Mynd 2. Gengisþróun bandaríkjadollars frá 1999 til 2005.



Sterlingspund (GPB)
Í ágúst 1999 var gengi pundsins rúmar 116 kr. síðan gaf  krónan eftir og pundið kostaði í lok nóvember 2001 rúmlega 156 krónur. Eftir það með lítislháttar sveiflum náði pundið sínu lægsta gildi í nóvember 2005 og kostaði ríflega 105 krónur.  Þann 27. des 2005 var gengi sterlingspunds 110,47 kr. Á þessu tímabili hefur gengið sveiflast um rúmlega 47,8%.


Mynd 3. Gengisþróun sterlingspunds frá 1999 til 2005.


Japanskt yen (JPY)
Í ágúst 1999 var gengi á yeni rúmlega 66 aurar. Síðan eftir töluverðar sveiflur nær krónan sínu lægsta gildi gagnvart yeni í lok nóvember 2001 rúmlega 89 aurar. Þá styrkist krónan jafnt og þétt og nær hámarki í byrjun nóvember 2005 og kostar þá yenið rúmlega 50 aura.  Þann 27. des 2005 var gengi á  japönsku yeni  0,54. Á þessu tímabili hefur gengið sveiflast um rúmlega 75%.


Mynd 4. Gengisþróun yens frá 1999 til 2005.



Svissneskur franki (CHF)
Í ágúst 1999 var gengi frankans tæplega 48. Síðan nær það sínu lægsta gildi í apríl árið 2000 eða 43,7. Þá hækkar gengi frankans  jafnt og þétt og nær hámarki í  nóvember 2001 og kostar þá tæplega 67 krónur.  Þá styrkist krónan en nær þó ekki sínu hæsta gildi frá því í aprílmánuði 2000.  Þann 27. des 2005 var gengi á svissneska frankans 48,6 . Á þessu tímabili hefur gengið sveiflast um rúmlega 52%.


Mynd 5. Gengisþróun svissneska frankans frá 1999 til 2005.


Samantekt
Þegar þetta er skoðað sést að krónan var í sínu lægsta gildi gagnvart þessum gjaldmiðlum í lok árs 2001. Mjög misjafnt var hver sveiflan frá hæsta og lægsta gildi var en hún var á bilinu 28% á evruni og alveg upp í 89% á bandaríkjadollar. Ef þetta er sett í samband við upphæðir getur lántakandi að búast við því að lánsupphæð allt að því tvöfaldist í einhvern tíma, og þar af leiðir tvöfaldast afborgunarhluti og vaxtagreiðslur. Einnig getur lántakandi notið góðs af gengisþróun  það er að segja ef gengi íslensku krónunar er stöðugt að styrkjast á lánstímanum. Þá greiðir lántakandi mun færri krónur til baka heldur en hann fékk lánaðar í upphafi. Að mörgu er að hyggja ef tekið er erlent lán svo sem verðgildi og vextir gjaldmiðils, gengissveiflur, efnahagsástand á þessum myntsvæðum, lánstími, fjöldi mynta í körfu og svo mætti lengi telja.


Valdimar Bjarnason

back to top