Árnesingar ferðist og fundi

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu hefur haldið úti hóflegri starfsemi undanfarin ár, þó svo að stórhugur hafi einstaka sinnum gripið um sig meðal stjórnarmanna. Í vetur stendur einmitt þannig á fyrir okkur í stjórninni og nú stendur til að fara í ferðalag. Að þessu sinni hyggjum við á dagsferð, laugardaginn 28. febrúar, til að heimsækja bændur og búalið í Rangárvallasýslu. Ferðinni er heitið að Skarði í Landssveit, en þar er nýbyggt fjárhús og margt fé. Einnig langar okkur að heimsækja Heklubæina Hóla og Næfurholt. Verði ófært þangað, finnum við okkur aðra ákvörðunarstaði.

Ferðaáætlun er á þá leið að langferðabifreið leggur af stað frá Reykholti í Biskupstungum kl. 8.30 árdegis, verður á Borg í Grímsnesi um kl. 9.00, við þjóðþrifafyrirtækið Matvælastofnun á Selfossi kl. 9.30 og við Skeiðavegamót kl. 9.45. Félagið greiðir fyrir farið. Gert verður ráð fyrir hádegisverði einhvers staðar í Rangárvallasýslunni, sem ferðalangar greiða úr eigin vasa. Heimferð síðdegis.
Allir þeir sem áhuga hafa fyrir sauðfé og félagsskap okkar sauðfjárbænda eru velkomnir í ferðina. Skráið ykkur í síma hjá Ágústi Inga á Brúnastöðum 899-5494, Trausta í Austurhlíð 865-9284, Sigríði í Arnarholti 822-8421 eða 486-8621 fyrir fimmtudaginn 26. febrúar. Það hefur enginn svo mikið að gera þennan dag að geta ekki komið með.
Annar viðburður er framundan hjá Félagi sauðfjárbænda í Árnessýslu, en það er aðalfundurinn. Hann verður haldinn í Þingborg mánudagskvöldið 9. mars kl. 20.30. Fylgist með vefnum saudfe.is eða bssl.is þegar nær dregur, til að sjá hvort við höfum fundið einhvern almennilegan fyrirlesara til að koma á fundinn. Kaffiveitingar í boði félagsins. Við eigum í vændum notalega kvöldstund í Þingborg, eins og svo oft áður.
Umhleypingunum hér sunnanlands hlýtur að linna hvað úr hverju. Sýnum hugrekki og spörum ekki heyin.
Bestu kveðjur frá Félagi sauðfjárbænda í Árnessýslu.


back to top