Kúabændur og sauðfjárbændur samþykktu búvörusamninga

Eins og fram kemur á vef Bændasamtaka Íslands þá samþykktu bændur nýja samninga um starfsskilyrði nautgripa- og sauðfjárræktar.
Atkvæði féllu þannig um sauðfjársamning að 60,4% kjósenda samþykktu samninginn. 37,3% höfnuðu sauðfjársamningnum. Auðir seðlar og ógildir voru 2,3% atkvæða. Alls voru 2944 á kjörskrá og 1671 atkvæði var greitt. Kosningaþátttaka sauðfjárbænda var 56,8%.

Atkvæði féllu þannig um nautgripasamning að 74,7% kjósenda samþykktu samninginn. 23,7% höfnuðu samningnum. Auðir seðlar og ógildir voru 1,6% atkvæða. Alls voru 1244 á kjörskrá og 881 atkvæði var greitt. Kosningaþátttaka kúabænda var 70,8%.

Frestur til að greiða atkvæði rann út á miðnætti þriðjudagskvöldið 22. mars.

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs skrifuðu undir nýja búvörusamninga 19. febrúar sl. Um var að ræða rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samninga um starfskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017 til 2026. Stjórn Sambands garðyrkjubænda samþykkti garðyrkjusamninginn og rammasamningurinn var samþykktur meðal búnaðarþingsfulltrúa á síðasta Búnaðarþingi.

Samningarnir eru til 10 ára en gert er ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023.

Sjá má samningana á vef Bændasamtaka Íslands bondi.is


back to top