Félagsráðsfundur FKS 4. október 2016

Fundur Félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi þann 4. Okt 2016 í fundarsal MS á Selfossi.
Valdimar formaður setti fund klukkan 11:00
Sveinn Sigurmundsson BsSl kynnti stöðu holdanautaverkefnisins á Stóra Ármóti. Nautgriparæktarmiðstöð Íslands skammstafað NautÍs byggir 525 fermetra einangrunarstöð á 47 hektara landi á Stóra-Ármóti. Verkefnið er búið að fá 100 milljónir úr viðbótarframlagi búvörusamninganna. Áætlaður kostnaður til að koma rekstri af stað er um 120 milljónir en líklega hægt að fá rest úr sjóðum, s.s. framleiðsluráðssjóði. Unnsteinn Snorri Snorrason sá um hönnun í samstarfi við MAST. Danskir sóttvarnadýralæknar til ráðgjafar.
Staðan á byggingunni í dag er að verið er að keyra í púða í grunninum og smiðir eru væntanlegir. Ef það gengur allt eftir og veturinn verður mildur gæti húsið verið tilbúið á útmánuðum. Búið er að fjárfesta fyrir 7 milljónir króna.
Leyfi til að taka fósturvísa í Noregi er væntanlegt fljótlega, þannig að það eru a.m.k. þrír mánuðir í að fósturvísarnir komi til Íslands.

Jóhann í Hildisey þakkar Sveini og Búnaðarsambandinu fyrir að bjóða land undir einangrunarstöðina og koma þessu verkefni áfram. Stefnt er að selja lifandi gripi til bænda eftir 9 mánaða einangrun. Einnig verður sæði til boða.

Margrét Gísladóttir nýráðinn framkvæmdastjóri LK boðin velkomin til starfa og fór yfir helstu verkefni LK sem hún hefur verið að vinna að.

Aðbúnaðarreglugerðin er í ósamræmi við sjálfa sig. Hluti hennar tók gildi 1. Okt sl. Búið er að sækja um frest á þeim ákvæðum til 31. Des 2018. Ný reglugerð er ekki enn tilbúin en búið er reka mikið á eftir í ráðuneytinu. LK er alls ekki á móti reglugerðinni en tímalínan í henni gengur ekki upp. Frestun ætti að hvetja bændur til framkvæmda frekar en hitt.

Jóhann í Hildisey spyr um samráðsvettvang MAST, LK og RML. Hann er ekki kominn af stað. Gott væri að bændur gætu leitað til ráðgjafahóps um hverju þarf að breyta til að standast reglugerð og hvernig hagstæðast væri að framkvæma þær breytingar.

Margrét útskýrir upprunamerkingar í ungkálfa sem fara í slátrun. Þetta er reglugerð frá ES. Umræða um upprunamerkingar almennt og er það mikið vandamál að vita hvaðan kjötið er raunverulega upprunnið. Okkar eina svar er að hafa okkar vörur nógu vel merktar. Unnið í að mötuneyti og veitingahús fái upprunamerkinguna alla leið.

Erfðamengisúrval ( Genomic selection) getur allt að tvöfaldað erfðaframfarir. Er það mögulegt á Íslandi? Þetta er allt á byrjunarstigi.
Baldur Helgi Benjamínsson hefur verið ráðinn til að halda utan um verkefnið og gera framkvæmdaáætlun. Búið að fá styrk í 6 mánaða vinnu. Hugsanlega hægt að fá styrki erlendis frá í þetta verkefni.

Bóel Anna spurði um kyngreiningu sæðis. Ef af erfðamengisúrvali verður kemur kyngreint sæði í kjölfarið. Ekki raunhæft fyrr þar sem einungis er hægt að kyngreina ferskt sæði.

Spermital gel tvöfaldar líftíma sæðis í kúnni og eykur þar með árangur. Kostnaður 500-1500 kr/á skammt. Norskt einkaleyfi. Baldur Helgi einnig að skoða þetta.

Kvótamarkaður verður 1. Nóv fyrir næsta verðlagsár. Tilboðum skal skila inn fyrir 26 okt.

LK sendi KS og KVH áskorun um að draga til baka lækkun á nautakjöti. Ekki í fjölmiðla strax. Líklega verður heldur minni innflutningur nautakjöts á þessu ári heldur en í fyrra.

LK er að vinna í reglugerð tengdri búvörusamningum s.s. um styrki til framkvæmda og nýliðunar. Vonandi verður hún birt í lok nóvember.
Bóel Anna ræddi umræðuna um landbúnaðarmál í þjóðfélaginu. Taldi vanta svör frá greininni, við, bændur, þurfum að taka þátt í umræðunni. Margrét sagði að pólíkusarnir hefðu yfirgefið bændur. Bændur hefðu samið við ríkið en nú könnuðust aðrir þingmenn en Haraldur Ben ekki við það.

Matarhlé

Egill Sigurðsson fór yfir stöðuna í mjólkurframleiðslunni.

Rekstur MS er samkvæmt áætlun, vonast eftir 300-400 milljóna hagnaði. Salan hefur verið sérlega góð sl. 3 mánuði. Athygli vakti að metsala var tvær vikur eftir úrskurð Samkeppniseftirlits. Stefnir í 12-14 milljóna framleiðslu umfram kvóta en miðað við slátrun og fjölda sæðinga mun líklega draga hratt úr framleiðslunni á næstunni.
Vöxtur í innanlandssölu 2-3% og greiðslumark verður líklega hækkað á næsta ári. Brátt verður gefið út verð fyrir umframmjólk 2017. Núna er jafnaðarskilaverð umframmjólkur 30-35kr./ltr. Verið að reyna að finna út hvað Auðhumla getur mögulega borgað fyrir umframmjólk því halda þarf framleiðsluvilja bænda. Haft eftir Garðari Eiríks að óvenju margir framleiðendur, stórir og smáir, séu að hugsa um að hætta framleiðslu. En misvísandi fréttir um hve margir séu að spá í að stækka við sig. Jói benti á að þeir sem framleiða umframmjólk séu þeir sem verja innanlandsmarkaðinn með því að taka á sig sveiflurnar.
Birgðir hafa aldrei verið meiri en hluti af þeim er úr umframmjólk og þarf sérstakt leyfi til að selja þær á innanlandsmarkaði.
Frá 6. Sept kaupir Auðhumla alla mjólk og selur svo hrámjólk m.a. til MS, KS og allra hinna sem vinna úr mjólk. MS sendir Auðhumlu svo reikning fyrir þjónustu s.s. birgðahaldi því MS tekur við allri mjólk sem hinir vilja ekki.

Áfrýjunarúrskurður vegna samkeppnissektarinnar væntanlegur um miðjan október. Egill taldi mjög brýnt að þetta mál tæki enda. Nauðsynlegt er að fá skýr svör um túlkun 71.gr. búvörulaga. Halda skal því til haga að MS hefur aldrei verið dæmt fyrir samkeppnisbrot, einungis ítrekaðar ásakanir!

Margrét spurði Egil hvort verið væri að undirbúa viðbrögð við væntanlegum úrskurði, hvort heldur sem úrskurðinn fellur okkur í vil eða ekki. Egill sagði að viðbrögðin yrðu hófstillt. Margrét taldi mikilvægt að viðbrögðin kæmu strax því eftirspurn fjölmiðla eftir skoðunum bænda væri mjög lítil.

Í búvörulögum er tollvernd aukin en tollasamningurinn leyfir innflutning ákveðinna vara strax en útflutningur eykst í skrefum. Verslunin hafði sitt fram.

Bent á að LK útskýri verðmyndun mjólkur í nýjum búvörusamningi, nú fást beingreiðslur líka fyrir umframmjólk.

Elín Heiða spurði hve mikilli mjólk MS gæti tekið við? Ef 150 milljónir lítra kæmu jafnt yfir árið væri það ekki vandamál en topparnir eru erfiðir. Þarf að endurnýja duftgræjur á Selfossi.

Fundur í verðlagsnefnd væntanlegur enda var skilin eftir hækkunarþörf við seinustu ákvörðun. Líklega tilkynnt um kosningahelgi í okt.

Fyrirmyndarbú MS þurfa að standast úttekt. Ekki enn búið að ákveða hvaða umbun þeir fá sem standast hana. Jarle Raiesen telur að um 20% bænda myndu standast úttektina en talsvert margir þyrftu ekki miklar úrbætur til að standast hana.

Búið að herða reglur um úrvalsmjólk en greiðslur um hana verða líklega ekki tengdar fyrirmyndarbúi eins og hefur verið rætt um. Herða þarf reglur um 1.flokk bæði fyrir líftölu og frjálsar fitusýrur.

Bóel Anna og Sævar á Stífu sögðu sína reynslu að of oft hefðu hvorki mjólkureftirlitsmenn né þjónustumenn mjaltakerfa lausnir þegar líftala og frjálsar fitusýrur væru til vandræða. Ennþá virðist skorta þekkingu.

Samúel í Bryðjuholti spurði hvort það væri eftirsóknarvert fyrir kúabændur að feta þá leið, kaupa um 2% dýrara kjarnfóður? Margrét taldi það aðeins tímaspursmál hvenær kúabændur yrðu spurðir þar sem vaxandi þungi er í umræðunni. Erfðabreytt fóður hefur neikvæðan stimpil þó að það sé í raun ekkert verra, frekar áhyggjuefni að kaupa fóður sem mikið eitur hefur verið notað við ræktunina.

Umræða um dýraníð erfið og kvik en LK ítrekar að það fordæmi dýraníð.

Önnur mál

Jóhann í St. Hildisey spyr um fjármögnun LK og hvort gerðar hafi verið athugasemdir um fyrirfram innheimtu búnaðargjalds. Enn hefur lögum um búnaðargjald ekki verið breytt en kæra vegna þess er nú fyrir Hæstarétti. Gera þarf eftirsóknarvert að vera félagi í LK en ennþá hefur það ekki verið útfært, góðar hugmyndir vel þegnar.

Margrét útskýrði þrískipt hlutverk LK; Bændur sjá ekki mikið hvað verið er að gera en myndu taka eftir því ef það væri ekki gert.
• Faglegt, ætla að segja meira frá starfinu.
• Félagslegt; haustfundir, árshátíð o.fl.
• Markaðs og kynningarmál; eru að fræða bændur og skólabörn

Kúabændur þurfa að berjast fyrir sínum málum. Ungur bóndi snappið er snilld með um 4500 áhorf og allt að 6500. M.a. blaðamenn og starfsmenn ráðuneyta sem fylgast með því.

Jón Vilmundar, Skeiðháholti taldi að reyna þyrfti að fá málsmetandi fólk úr öðrum stéttum til að leggja inn gott orð fyrir okkur, samanber grein Friðriks á Hótel Rangá.

Jórunn á Drumboddsstöðum benti á jafningjafræðslu. Bændur þyrftu að geta svarað spurningum um landbúnað sem ættingar, vinir og kunningjar(neytendur) spyrja. En þar sem kerfið okkar er flókið væru bændur varla í stakk búnir til þess að svara og útskýra. LK þyrfti að aðstoða og hvetja bændur við það.

Tvær ályktanir voru samþykktar samhljóða:

Félagsráðsfundur, félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn 4. Október 2016 á Selfossi skorar á stjórn Auðhumlu að gefa út verð á umframmjólk fyrir árið 2017 sem allra fyrst.

Félagsráðsfundur, félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn 4. Október 2016 á Selfossi skorar á MAST að gefa út greiðslumark ársins 2017 sem allra fyrst.

Voru þær sendar viðeigandi aðilum.

Valdimar sleit fundi klukkan rúmlega þrjú.

Fundarritari: Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum


back to top