Fósturvísar
Í dag föstudaginn 10. nóvember verða fluttir til landsins 40 fósturvísar úr norskum Aberdeen Angus holdagripum. Kaupandi er Nautgriparæktarmiðstöð Íslands sem er að byggja einangrunarstöð fyrir holdagripi á Stóra Ármóti. Búið er að festa kaup á 36 kúm sem verða samstilltar og fósturvísunum komið fyrir í þeim. Það verða norskir dýralæknar sem annast uppsetningu fósturvísanna sem gæti orðið í byrjun desember en er þó háð því hvenær þeir geta komið. Fari það eftir munu fyrstu kálfarnir fæðast í ágúst 2018 og að lokinni 9 mánaða einangrun væri hægt að selja þá til bænda á miðju ári 2019.