Angus kálfar í einangrun hjá Nautís
Síðasta dag septembermánaðar voru þeir 6 Angus kálfar sem fæddust í sumar teknir undan kúnum og settir í einangrun þar sem þeir verða næstu 9 mánuðina. Kálfarnir voru fæddir seinni hluta júní mánaðar og því rúmlega 3ja mánaða. Þeir eru undan Emil av Lillebakken 74028 sem er eitt besta Angus nautið í Noregi í dag. Kvígurnar eru 3 og heita Emelía, Endurbót og Etna. Nautin eru líka 3 og heita Emmi, Erpur og Eðall. Kálfarnir voru vigtaðir og höfðu þyngst um 1445 gr/dag sem er ívið meira en kálfarnir í fyrra. Nautin þyngjast eðlilega meira en naut nr 28 Erpur var orðinn 212 kg sem gerir 1663 gr/dag í þungaaukningu. Nýbreytni er að nú er fyrirhugað að viðra kálfana í útigerði af og til. Á myndinni má sjá þær Emelíu og Endurbót en þær voru fljótar að grípa í hey.