Aðalfundur BSSL 2021
113. aðalfundur
Búnaðarsambands Suðurlands
haldinn 21. apríl 2021 sem fjarfundur
1. Fundarsetning og ávarp – Gunnar Kr. Eiríksson formaður BSSL.
Gunnar Kr. Eiríksson á Túnsbergi setti fundinn með fjarfundabúnaði kl. 13 og bauð fulltrúa og gesti velkomna að skjánum og þar með á fundinn. Hann gerði það að tillögu sinni að Ragnar Lárusson stýrði fundi og að Helga Sigurðardóttir starfsmaður BSSL ritaði fundargerð.
Ragnar Lárusson þakkaði traustið og gjörði kunnugt að ekki yrði kosið til Búnaðarþings á þessum fundi, stjórn væri búin að fara vel yfir málin og leita álits lögfræðings og ekki yrði þörf á kosningu fyrr en að loknu auka Búnaðarþingi, þegar vitað væri hversu marga fulltrúa kjósa þarf um.
Skýrsla stjórnar Gunnar Kr. Eiríksson
Gunnar fór yfir skýrslu stjórnar sem birtist í ársritinu en þar fór hann yfir helstu störf stjórnar á árinu og síðasta aðalfund sem haldinn var sem fjarfundur 18. nóvember s.l. Hann fór yfir m.a yfir þær breytingar sem gerðar voru á skrifstofuhúsnæðinu og að ákveðið hefði verið að kaupa mjaltaþjón á Stóra-Ármót. Þá ræddi Gunnar um vinnu við breytingar á félagskerfinu en breytingarnar eru m.a. fólgnar í því að bein félagsaðild bænda verður að Bændasamtökum Íslands, búgreinafélög sameinast BÍ, búnaðarsamböndin verða áfram landshlutasamtök bænda og sinna skilgreindum verkefnum.
Á Búnaðarþingi sem var haldið 22.-23. mars s.l. var samþykkt að vinna áfram að þessum félagskerfisbreytingum en á síðari stigum komi landbúnaðarfyrirtæki til liðs við félagskerfið og styrki stoðirnar.
Auka Búnaðarþing verður haldið 10. júní og verður félagskerfisbreytingin lögð þar fyrir til samþykktar. Verði hún samþykkt mun nýtt kerfi taka við 1. júlí 2021.
2. Ávarp varaformanns BÍ – Oddný Steina Valsdóttir
Oddný fór yfir tillögur frá síðasta Búnaðarþingi þar sem fyrirhugaðar breytingar á félags-aðild bænda í Bændasamtök Íslands (BÍ) voru samþykktar. Þær þýða að bændur verða beinir aðilar að BÍ og BÍ verði byggt upp í ákveðnum deildum. Hlutverk búnaðar-sambanda er að þau verða félagslegir útverðir samtakanna. Félögin munu halda sína fundi fyrir 15. maí n.k. og kynna þessar breytingartillögur fyrir sína félagsmenn. Þann 10. júní verður svo auka Búnaðarþing og ef það samþykkir þessar breytingar verður farið að vinna eftir þessu nýja skipuriti 1. júlí n.k.
3. Framkvæmdastjóri BÍ – Vigdís Häsler
Vigdís þakkaði gott boð á fundinn, hún kynnti áherslur BÍ sem eru, bætt kjör bænda, leiðbeiningarþjónusta og fagleg fræðsla, útgáfustarfsemi og miðlun upplýsinga. Einnig öll verkefni sem tengjast bændum og landbúnaði. BÍ er að vinna í að kynna landbúnað í samráði við félasmenn, menntastofnanir, fyrirtæki í landbúnaði og stjónvöld. Sýnilegur ávinningur að félagsaðild í BÍ er aukin kjör bænda, réttindi og hlunnindi, starfsumhverfi og upplýsingamiðlun og menntun.
Framundan er að þróa nýtt félagskerfi, starfsáætlun fyrir BÍ er í bígerð, viðburðaráætlun þ.e. kynningarfundir og móta stefnu stjórnar og hlutverk framkvæmdastjóra. Móta þarf áherslur og verkefni sviða, sem verða, skrifstofusvið, útgáfu- og kynningarsvið, markaðs-svið og búgreinasvið.
Búnaðarsamböndin munu koma inn sem félagslegur vettvangur og svæðisbundin hagsmuna¬gæsla.
Ítarlegri stefnumörkun Bændasamtakana verði mótuð á Búnaðarþingi eins og t.d. til að vita eftir hverju starfsmenn eiga að vinna ofl.
Orðið laust
Jóhann Nikulásson beinir spurningum til Oddnýjar um stöðuna á Bændahöllinni?
Erlendur Ingvarsson óskar Vigdísi til hamingju, og bætir við að hann voni að hún verði bændum öflugur málsvari, því við þurfum að stýra þessari umræðu.
Oddný svarar að það sé lítið að frétta af hótelmálum, nema að það er í skjóli til 7. júlí. Sammála Erlendi við bændur verðum oft undir í umræðunni og vonumst við til að nýtt skipurit efli okkur í að koma sjónarmiðum bænda á framfæri.
Vigdís svarar, tíminn vinnur með okkur í sambandi við Bændahöllina. Erlendi þakka ég það traust að vera málsvari bænda, minn bakgrunnur er ekki sveitatengdur, en ég og Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ vinnum mjög náið saman og hann hefur staðið sig mjög vel. Við getum ekki verið alltaf í vörn, við þurfum að hafa eitthvað skipurit og sýna viðspyrnu. Það er gróska innan samtakana og gott að fá viðbrögð en við þurfum að fara í ímyndarmál og kynningar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnar-ráðherra, er okkar fulltrúi í norrænu ráðherranefndinni, þar við viljum fá að taka meiri þátt og horfa til þess sem gert er á norðurlöndum.
4. Farið yfir kjörbréf – Sveinn Sigurmundsson
Sveinn las upp kjörbréfin og lét fulltrúa staðfesta viðveru sína við skjáinn. Niðurstaðan var að mættir voru 32 fulltrúar af 43 sem rétt áttu á fundarsetu frá 23 búnaðarfélögum og 5 búgreinafélögum. Sjá töflu aftast í fundargerð.
5. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra: Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir veltutölur fyrirtækjanna fyrir árið 2020 en þar er innbyrðis sala á milli fyrirtækjanna með. Búnaðarsambandið er með 58 milljón króna veltu, Kynbótastöð ehf með 174 milljónir, Bændabókhald ehf 44 milljónir og Stóra-Ármót ehf 61 milljón króna. Þá fór hann yfir reikninga Búnaðarsambandsins og helstu lykiltölur dóttur¬fyrir¬tækjanna ásamt helstu atriðum úr starfseminni. Rekstrarniðurstaða BSSL og fyrirtækja þess er rúmar 10 milljónir í hagnað þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða, Kynbótastöð ehf með 1,8 milljónir króna í hagnað, Stóra-Ármót með rúmar 4 milljónir í hagnað og Bændabókhald með tap upp á rúmar 800 þúsundir króna.
Sveinn sagði frá fjölgun félaga en þeir eru 1.226. Á síðasta ári var farið í breytingar á húsnæði BSSL. Innheimtum félagsgjöld beint til BSSL nema um annað sé rætt. Sveinn vinnur fyrir hin fyrirtækin en Bændabókhaldið sér um bókhald þeirra ásamt því að sjá um bókhald fyrir bændur.
Vinna í umboði ANR (atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti) hefur aukist. Veruleg tiltekt í Bústofni af hálfu BSSL þegar farið var að vinna við skil á haustskýrslum. BSSL er til í fleiri verkefni ef þau eru í boði.
Bændabókhaldið er að vinna fyrir 230 viðskiptavini þar á meðal eru 85 félög.
Breytilegur kostnaður á Stóra-Ármóti er ívið meiri en á meðalbúi. Afurðastig frekar hátt og mikil heysala til Nautís. Viðhald á girðingum og fjósi. Ákveðið að kaupa mjaltaþjón Fullwood/Merlin. EBIDTA rekstrarafgangur 12,3 milljónir. Tilraunastarf á vegum LbhÍ er ekkert nú sem stendur og skólinn hefur markað sér þá stefnu að vera með fóður og nautgripa¬tilraunir á Hvanneyri. Góðir möguleikar eru á að framkvæma jarðræktartilraunir á Stóra-Ármóti þar sem um mismunandi jarðvegsgerðir er að ræða og nú eru viðræður við SS um athugun á því hvað áhrif það hefði á uppskeru og efnainnihald að nota dólómít kalk og skeljasand á tún og í flög. Góð samvinna og samlegðaráhrif er við starfsemi Nautís. Sú hugmynd hefur komið fram að nota kúabúið sem ræktunarkjarna þegar farið verður að nota úrval út frá erfðamörkum í ræktunarstarfinu. Fundarsalurinn hefur nýst til bændafunda og námskeiðahalds og margir möguleikar á að nota búið bændum til hagsbóta.
Kynbótastöð er með meira en helming af veltu BSSL. Náðum verulegri hagræðingu í sæðingum á Austurlandi á síðasta ári. Höfum ekki hækkað sæðingagjöld síðan 2019. Mikill munur er á kostnaði við sæðingar milli landshluta. Þarf að endurnýja klaufskurðar¬básinn. Beiðslisgreiningarnámskeið verður haldið við fyrsta tækifæri. Þörf er á að heimsækja bú sem eru með laka frjósemi. Bíðum eftir hentugum rafbíl sem hefur næga drægni. Fanghlutfall í sauðfjársæðingum er 68% frá stöðinni, en mætti vera betra í frosna sæðinu. Nemendaverkefni er við LbhÍ þar sem sæðisgæði og fanghlutfall einstakra hrúta er borið saman. Til stendur að gera fekari rannsóknir með frosið sæði.
Farsælt samstarf er við Nautís. Árangur í fósturvísauppsetningum ekki nógu góður. Hugmynd er um að fá erlendan sérfræðing í sumar ef hægt verður til að fara yfir þetta með okkur og reyna að bæta árangurinn í fósturvísainnlögn.
Breytum samþykktum BSSL þegar samþykktum BÍ verður breytt. Búnaðarsamband Austur-Skaftfellinga mun líklega óska eftir aðild að BSSL. Búnaðarsamband Suðurlands er samtök bænda og fólks í dreifbýli á Suðurlandi. Aukin samvinna og samstarf við BÍ. Hvernig geta þessi samtök komið sem best að gagni fyrir bændur.
6. Umræður um skýrslur og reikninga og þeir bornir undir atkvæði
Reynir Jónsson þakkaði fyrir skýrslu Sveins. Eðlilegt er að velta fyrir sér stöðu og hlutverki Stóra-Ármóts eins og segir í ársskýslunni um búið. Þar koma líka hugmyndir að verkefnum sem þarf að drífa í gang og fá peninga annars staðar frá. Af hverju er kostnaður við kjarnfóður, áburð og fræ yfir meðalbúi?
Haraldur Einarsson þakkar Sveini fyrir góða yfirferð og skýrslu. Á næstu misserum eru gríðarleg tækifæri til að efla Búnaðarsambandið. Vill gera athugasemd við það að það eigi ekki að kjósa búnaðarþingsfulltrúa en samkvæmt lögum félagsins á að kjósa núna, kallar eftir umræðum.
Ragnar Lárusson taldi ástæðulaust að kjósa til Búnaðarþings á síðasta kjörseðli stóð kosning til Búnaðarþings 2020 og 2021 og að það yrði auka aðalfundur til að kjósa nýja fulltrúa, þegar fulltrúafjöldi okkar verður klár.
Hulda Brynjólfsdóttir þakkaði góðar skýrslur og spyr um lækkað fanghlutfall, er það bara fyrir mjólkurkýr eða eru holdakýr líka með?
Sveinn Sigurmundsson þakkaði og fagnaði fyrirspurnum. Allra vilji er að Stóra-Ármót komi að gagni fyrir bændur. Meiri kostnað við fræ og áburð má mögulega skýra að búið sér um hey fyrir Nautís og er með kornrækt á 20 ha. Við þurfum að skoða hvort við séum með aðstöðu fyrir ræktunarkjarna. Fanghlutfall er miðað við allar kýr sem eru sæddar og þær fáu holdakýr sem eru sæddar eru þar með.
Haraldur Einarsson er enn ósammála svari fundarstjóra um kosningu til Búnaðarþings. Hugsi yfir stöðu Stóra-Ármóts við eigum að gera ríkari arðsemiskröfu, ekki í milljónum króna heldur í tilraunum og hvetur stjórn til að efla rannsóknir. Var síðasta tilraun ekki kláruð? Á Stóra-Ármót var keyptur haugtankur. Var samvinna og sameign við bændur á nágrannabæjum skoðuð og svo er nýlegur haugtankur hjá Búnaðarfélagi Villingaholts-hrepps sem hefði verið hægt að fá afnot af. Á síðasta aðalfundi var rætt um að skoða kaup á einstaklingsfóðrunarbúnaði á Stóra-Ármóti hvaða stefnuleysi er það í stjórn að fara þess í stað í kaup á mjaltaþjóni? Hann vill fá ársreikninga frá öllum fyrirtækjum sambandsins. Varðandi fjárhagsáætlun BSSL er annar rekstrarkostnaður frekar hár. Af hverju endurskoðar Bændabókhaldið ekki ársreikninga Nautís ?
Samúel U. Eyjólfsson var sammála Haraldi varðandi kosningar til Búnaðarþings. Af hverju kom aðalfundarfundarboðið ekki á heimasíðuna fyrr en á síðustu stundu, þeir félagar sem eiga málfrelsi á þessum fundi gátu ekki séð þetta á netinu. Hvað veldur lægri frjósemi? Er mismunur milli svæða, sæðingamanna eða eru sæðisgæðin misjöfn?
Páll Jóhannsson, spurði Svein hvernig hann viti að kýr séu sæddar of snemma. Er verið að skrá þetta einhversstaðar sem við sjáum ekki ? Spurði ennfremur út í vinnu við tiltekt í Bústofni og aðstoð við greiðslumarks¬viðskipti.
Þórunn Andrésdóttir, kom að ályktun frá á Landsambandi Kúabænda að hafa sæðingar á einni hendi. Má ekki hagræða á þeim svæðum þar sem sæðingarnar eru óhagkvæmar. Ef það á að sameina sæðingar þá á BSSL að hugsa stórt og taka allt landið.
Páll Eggertsson getum við ekki gert tilraunir á Stóra-Ármóti án LbhÍ.
Þorsteinn Logi Einarsson tekur undir með þörf á aukinni arðsemiskröfu á Stóra-Ármóti, vill að hagnaðurinn fari í tilraunasjóð.
Sveinn Sigurmundsson svarar framkomnum fyrirspurnum. Þegar lögin um tilrauna-stöðina voru í gildi og RALA sá um laun tilraunastjóra og tilraunamanns ásamt öðrum kostnaði þá voru þetta um 30 milljónir á ári. Vinna við tilraunir og kostnaður er meiri en margur hyggur. Síðasta tilraun sem gerð var á Stóra Ármóti var á vegum MatÍs en í henni var verið að skoða hvaða áhrif það hefði á efnasamsetningu mjólkurinnar að gefa mjólkurkúm þangmjöl. Nýr haugtankur keyptur á síðasta ári á Stóra Ármót en það hefði alveg mátt skoða hvort það hefði verið flötur á samvinnu við önnur bú eða búnaðarfélög. Ákvörðun um kaup á mjaltaþjóni var tekin á fyrsta fundi stjórnar á þessu ári en þar er verið að hugsa til vinnuléttingar og hugsanlega betri afurða og heilsufars hjá mjólkur-kúnum. Aðkeypt þjónusta í öðrum rekstrarkostnaði hjá Búnaðarsambandinu upp á 8 milljónir er sú vinna og þjónusta sem Búnaðarsambandið kaupir af fyrirtækjum sínum. Þessi liður hét áður þátttaka í sameiginlegum kostnaði. Bændabókhaldið sér um bókhalds¬vinnu við Nautís en það er ákvörðun stjórnar NautÍs að hafa löggiltan endur-skoðanda. Varðandi að auglýsa fundarboðið á heimasíðunni þá var óvissa um hvort um staðar- eða fjarfund yrði að ræða fram á síðustu stundu. Lakari frjósemi hjá mjólkur¬kúm er áhyggjuefni en náið er fylgst með árangri frjótækna, sæðisgæðum og árangri einstakra búa. Reglulega er farið yfir árangurinn með frjótæknum og það eru haldnir fundir með þeim þar sem farið er yfir verklag hjá þeim og þeir bera saman bækur sínar. Breytileiki í árangri milli búa er mun meiri en milli nauta og frjótækna. Að mati frjótækna er algengt að kýr eru sæddar of snemma á gangmálinu. Í Bústofni var mikið af röngum skráningum sem þurfti að lagfæra. Aðilar sem höfðu óskað eftir að láta taka sig út vegna þess að þeir áttu ekkert búfé lengur og jafnvel fólk sem er látið. Aðstoð við bændur vegna sölu á greiðslu¬marki er vegna þess að þeir leituðu eftir aðstoð. Þegar farið verður að jafna aðstöðumun milli bænda í sæðingum verður að gera það á ábyrgan hátt og þessvegna mikilvægt að vanda til verka.
Gunnar Kr. Eiríksson svaraði varðandi Stóra-Ármót að lítið hafi verið um tilrauna-starfsemi síðustu ár á vegum LbhÍ, en áður var virk tilraunanefnd með þátttöku bænda starfandi sem eftirsjá er í. Tel ekki rétt að setja sæðingastarfsemina á eina hendi. Það fer vel á því að starfsemin sé rekin undir stjórn bænda og í nálægð við þá. Dæmi um fyrirtæki sem hefur fjarlægst bændur er RML en það er rekið á landsvísu. Á Austurlandi hefur kostnaður við sæðingar lækkað mikið en kostnaður er að verða sambærilegar við það sem er hér. Mundi treysta Sveini og Sigurgeiri á Hríshól fyrir að sjá um sæðingar á landsvísu.
Reikningar bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða
7. Kosningar
Kosið um tvo menn úr Rangárvallasýslu.
Jóhann Nikulásson stingur upp á Páli Eggertssyni, Arngeirsstöðum, og Huldu Brynjólfsdóttur, Tyrfingsstöðum og til vara Borghildi Kristinsdóttur, Skarði og Sigurði Sæmundsyni, Skeiðvöllum í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands til næstu 3ja ára.
Ragnar Lárusson ber þessa tillögu upp og er hún samþykkt með meirihluta atkvæða.
8. Tillögur lagðar fram
Tillaga nr.1 – frá stjórn
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er sem fjarfundur 21. apríl 2021 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2021 verði kr. 6.000 á hvern félagsmann. Tillagan samþykkt samhljóða.
Tillaga nr. 2 – frá stjórn
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er sem fjarfundur 21. apríl 2021 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna þ.e. kr.12.600. Tillagan samþykkt samhljóða.
Tillaga nr. 3 – frá stjórn
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er sem fjarfundur 21. apríl 2021 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000 á ári.
Haraldur Einarsson eru sömu stjórnarlaun í hinum fyrirtækjunum?
Sveinn Sigurmundsson, nei það eru þau ekki.
Páll Jóhannsson hver er ríkistaxtinn?
Sveinn Sigurmundsson það eru einfaldir dagpeningar 12.600 kr.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Tillaga nr. 4 – frá stjórn
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er sem fjarfundur 21. apríl 2021 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2021.
Samúel U. Eyjólfsson eru greiddir dagpeningar þegar það eru fjarfundir? Hvað með húsaleigu til RML?
Sveinn Sigurmundsson já það eru greiddir dagpeningar en ekki akstur. Varðandi húsaleigu til RML þá hefur hún verið óbreytt frá 2013 og það var aðeins verið að vinna í að skoða þetta en það verkefni var ekki klárað.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Tillaga nr. 5 – frá stjórn
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er sem fjarfundur 21. apríl 2021 lýsir yfir fullum stuðningi við tillögur félagskerfisnefndar BÍ sem verða til afgreiðslu á auka Búnaðarþingi 10. júní nk. Tillagan samþykkt samhljóða.
9. Önnur mál
Gunnar Kr. Eiríksson byrjar á að óska nýju fólki til hamingju með kosninguna og þakkar Erlendi og Ragnari fyrir gott samstarfi. Gunnar fer yfir síðustu ár og samstarfið með þessum ágætu mönnum sem hafa hvor um sig sína sérstöðu, Erlendur sem er drjúgur við að velta við steinum og Ragnar sem man alla hluti mjög vel, en er að sama skapi ekki mjög nýjungagjarn. Sauðfjárhjartað slær fast í þeim báðum, en pólitíkin er þeirra hjartans mál og eru þeir aldrei á sömu skoðun. Þakkar þeim Ragnari og Erlendi vel unnin störf yfir BSSL.
Samúel U. Eyjólfsson óskar nýju fólki velfarnaðar í stjórn. Hann vill að farið sé eftir 6. grein laga Búnaðarsambands Suðurlands og vill leggja fram tillögu, svohljóðandi.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er sem fjarfundur 21. apríl 2021
Vill að farið verði eftir 6. grein og kosið til Búnaðarþings 6 fulltrúar og 6 til vara.
Eins lýsir Samúel yfir fullum stuðningi við tillögur félagskerfisnefndar BÍ sem verða til afgreiðslu á auka Búnaðarþingi 10. júní nk.
Páll Eggertsson, þakkar stuðninginn við kjör í stórn BSSL.
Haraldur Einarsson óskar nýju fólki til hamingu. Styður Samúel og fer yfir lög BSSL og vill taka undir tillögu Samúels. Spyr hvort kaup á mjaltaþjóni styrki eða veiki möguleika á einstaklingsfóðrun? Varðandi Kynbótastöð og sæðingastarfsemi þá er galið að hafa ekki allar sæðingar á einni hendi. BSSL á að leiða þessa vinnu, hvort sem við erum að tala um eina eða fleiri starfsstöðvar.
Ragnar M. Lárusson vill vísa tillögu Samúels frá og ítrekar það sem hann sagði í byrjun fundar að stjórnin hafi farið vel yfir þessi kosningamál og m.a. rætt við lögfræðing BÍ. Í síðustu kosningum voru kosnir fulltrúar fyrir árin 2020 og 2021 og þrátt fyrir að það hafi verið auka Búnaðarþing í gegnum tíðina, þá hafa alltaf verið boðaðir fulltrúar sem sátu fyrra þing. Fulltrúar á Búnaðarþing hafa ekki tekið við fyrr en um áramót.
Reynir Jónsson óskar nýju fólki velfarnaðar í stjórn og skorar á stjórn BSSL að reyna að efla Stóra-Ármóti og láta okkur eigendur vita að það sé eitthvað að gerast í tilraunastarfi þar.
Hulda Brynjólfsdóttir þakkar fyrir það traust sem henni er sýnt að koma í þessa stjórn. Er að hugsa um hvenær á að kjósa næstu fulltrúa á Búnaðarþing?
Ragnar M. Lárusson kosning til Búnaðarþings verður á aukaaðalfundi sem haldinn verður í haust, þegar ljóst er hversu marga fulltrúa við eigum.
Samúel U. Eyjólfsson ég stend með minni tillögu og LK er búið að kjósa sína fulltrúa.
Ragnar M. Lárusson á kjörseðlum er upplýst um að kosningin er fyrir árin 2020 og 2021
Sveinn Sigurmundsson þegar BÍ hefur boðað til auka Búnaðarþings þá er kallað á þá sem sátu síðasta Búnaðarþing enda hafa þeir umboð út almanaksárið.
Haraldi Einarssyni finnst skrýtið að við viljum ekki kjósa um þessa tillögu og frekar ólýðræðislegt. Hvað eru margir stjórnarmenn sem búnaðarþingsfulltrúar?
Ragnar M. Lárusson því skyldum við kjósa 6 fulltrúa þegar fyrir liggur að þeir verði jafnvel bara 2.
Jóhann Nikulásson segir alveg skýrt að ef kosið væri nú þá hefðu þeir búnaðarþings-fulltrúar ekki umboð nema frá næstu áramótum, styður Ragnar og hans skýringar.
Gunnar Kr. Eiríksson við í stjórninni fórum vel yfir þetta og það er alveg á hreinu að þessir fulltrúar eru með umboð og það er alveg skýrt að umboðið er rétt.
Páll Jóhannsson þakkar fyrirspurnarmönnum, en finnst þetta frekar rússnesk kosning, í framhaldi af þeirri umræðu sem er að það þarf að hafa reglurnar skýrari. Þetta þarf að vera klárt í lögum félagsins.
Sveinn Sigurmundsson tekur undir með Páli, betra að kjósa en að hafa rússneska kosningu. Vegna þeirra álitamála sem upp eru komin væri betra að lögin væru skýrari. En í 6 gr. í samþykktunum segir „Á aðalfundi skulu kosnir fulltrúar til setu á Búnaðarþingi til tveggja ára og jafn margir til vara. “ Skilningur BSSL og BÍ er að átt sé við almanaksár en ekki milli aðalfunda. Varðandi einstaklingsfóðrunarbúnað þá erum við ekki búin að slá hann út af borðinu. Það hefur vantað áhuga og mannskap frá LbhÍ á undanförnum árum, við samruna RALA og LbhÍ þá virtust áherslur á tilraunastarfi minnka. Þá hefur alveg vantað áreiti frá kúabændum um þörf á tilraunastarfi.
Haraldur Einarsson ég ætla að taka áskoruninni og sendi tillögur fljótlega til BSSL.
Gunnar Kr. Eiríksson varðandi einstaklingsfóðrun þá væri gott að fjármagn kæmi ekki bara frá Stóra-Ármóti og mjaltaþjónn kemur ekki í veg fyrir þá fóðrun. Laganefnd verður sett á laggirnar og þá verður það vinna hennar að breyta lögunum og gera þau skýrari.
Að lokum legg ég fram frávísunartillögu á tillögu Samúels.
Ragnar M. Lárusson frávísunartillaga lögð fram frá Gunnari og hún samþykkt með 19 atkvæðum en 2 á móti.
Ragnar þakkar BSSL fyrir allt sem það hefur gert fyrir hann á undanförnum áratugum. Í gosinu í Eyjafjallajökli fóru 36 ha af túnum og girðingar undir ösku, þá voru ráðunautar hjá mér í marga daga að vinna fyrir mig og get ekki annað en þakkað. Ég er mikill Búnaðarsambands maður og verð það áfram, þið yngri menn eigið ekki að hugsa fyrr en eftir 50 ár, hver tekur við af ykkur? Það verður ekki auðveldara í framtíðinni að manna sveitirnar. Sveini og öllum stjórnarmönnum sem ég hef starfað með þakka góð kynni. Lærdómurinn sem ég bý að eftir þennan tíma er mikill og þakka ég stjórn og starfsfólki Búnaðarsambands Suðurlands allt gott.
10. fundarslit – Gunnar Kr. Eiríksson
Fundarstjóri gaf Gunnari formanni BSSL orðið, sem þakkaði fundarmönnum, tæknistjóra og fundarritara. Vill þakka Sveini fyrir sína vinnu, framundan er mikil vinna við breytt félagskerfi. Þakkaði góðan fund og líflegar umræður, fundarstjóra góða stjórn og sleit fundi kl 16:18.
Aðalfundur BSSL 2021 – fulltrúar
Félag Fulltrúar 2021
Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps: Jóhann Nikulásson, Hildisey
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps: Magðalena K. Jónsdóttir, Drangshlíðardal
Búnaðarfélag Álftavers: Páll Eggertsson, Mýrum
Búnaðarfélag Ásahrepps: Ekki mættur
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar: Ingvi Þorfinnsson, Spóastöðum og Daníel Pálsson, Hjálmsstöðum
Búnaðarfélag Djúpárhrepps : Ekki mættur
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps: Magnús Örn Sigurjónsson, Eystri-Pétursey
Búnaðarfélag Eyrabakka: Ekki mættur
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps: Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.
Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps: Stefán Geirsson, Gerðum
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps: Ekki mættur
Búnaðarfélag Grímsneshrepps: Björn Snorrason, Björk
Búnaðarfélag Holtahrepps: Daníel Magnússon, Akbraut
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps: Skeggi Gunnarsson, Skeggjastöðum
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps: Páll Jóhannsson, Núpstúni og Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti
Búnaðarfélag Hvammshrepps: Ingi Már Björnsson, Suður Fossi
Búnaðarfélag Hvolhrepps: Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps: Rúnar Þorri Guðnason, Keldunúpi
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps: Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ
Búnaðarfélag Landmannahrepps: Sigurður Sæmundsson, Skeiðvöllum
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps: Ekki mættur
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps: Ekki mættur
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps: Ari Páll Ögmundsson, Stóru-Sandvík.
Búnaðarfélag Skaftártungu: Ekki mættur
Búnaðarfélag Skeiðahrepps: Haraldur Ívar Guðmundsson, Reykholti
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps: Sigurfinnur Bjarkarson
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps: Eyvindur Ágústsson, Stóru-Mörk
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps: Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps: Ekki mættur
Búnaðarfélag Ölfushrepps: Kjartan Þ. Ólafsson, Hlöðutúni
Félag kúabænda á Suðurlandi: Borghildur Kristinsdóttir, Skarði, Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti, Þorsteinn Logi, Egilsstaðakoti, Haraldur Einarsson, Urriðafossi, einn fulltrúi ekki mættur
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu: Trausti Hjálmarsson Austurhlíð og Jökull Helgason, Ósabakka
Félag sauðfjárbænda í Rangárv.sýslu: Hulda Brynjólfsdóttir, Tyrfingsstöðum og Guðni Jensson, Teigi
Félag sauðfjárbænda í V-Skaft.: Ekki mættur
Loðdýraræktarfélag Suðurlands: Ekki mættur
Fjöldi fulltrúa í allt 43 Mættir fulltrúar 32