Ágúst Sigurðsson frá Birtingaholti
Ágúst í Birtingaholti var kjörinn í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands 1987 og af stjórninni sem formaður. Þar tók hann við af Stefáni Jasonarsyni sem hafði verið formaður frá 1969. Hann sóttist ekki eftir embættum en þetta verkefni tók hann að sér þrátt fyrir að sýnt væri að mörg krefjandi mál væru framundan. Búnaðarsambandið var að flytja búrekstur sinn frá Laugardælum og yfir að Stóra Ármóti en þar var uppbygging í fullum gangi. Skrifstofan að Reynivöllum var lítil og óheppileg og þurfti að finna nýtt húsnæði. Ágúst sat í stjórninni sem formaður til 1993 og leysti öll þau mál sem upp komu af lipurð og framsýni.
Ágúst hafði sterka en um leið þægilega nærveru og stjórnaði fundum af myndugleika og festu en gaf fundarmönnum góðan tíma til að ræða málin og móta þannig að þau væru farsællega til lykta leidd. Hann var kjörinn skoðunarmaður reikninga Búnaðarsambandsins eftir að formennsku hans lauk. Þá kom í ljós að hann bjó yfir góðri bókhaldskunnáttu og var óvenju reikningsglöggur og kom gjarnan með tillögur um það sem betur mætti fara í starfseminni.
Fyrir stuttu hitti ég Ágúst á Sjúkrahúsi Suðurlands, þar var hann þrotinn kröftum en hugur hans til verka og framkvæmda var óbilaður. Það hentaði honum ekki að gera ekki neitt.
Ég vil fyrir hönd Búnaðarsambands Suðurlands þakka Ágústi fyrir hans farsælu störf fyrir samtökin og sunnlenska bændur og ættingjum hans færi ég samúðarkveðjur.
Sveinn Sigurmundsson