Félagsráðsfundur FKS 29. mars 2007
Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi,
fimmtudaginn 29. mars 2007 kl. 11.00 í fundarsal MS Selfossi.
Sigurður Loftsson formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl.11:10 og kynnti dagskrá.
1. Að loknu Búnaðarþingi.
Formaður sagði frá nýliðnu Búnaðarþingi, vitnaði í grein formanns LK í Bændablaðinu um Búnaðarþing og það tap sem BÍ hefur orðið fyrir vegna þess að Hótel Saga var ekki seld á sínum tíma.
-Samþykkt hefði verðið að kanna viðhorf bænda til stéttarinnar t.d. hvernig ætti að ráðstafa arði ef Hótel Saga yrði seld, einnig gætu búgreinafélögin komið sínum viðhorfum á framfæri.
-Forritun hafði mikið verið rædd, meðal hugmynda er að breyta skýrslugrunninum í nautgriparækt og jafnvel að tengjast skýrsluhaldinu í Danmörku, eins stendur okkur til boða að skoða grunnin hjá Svíum. Í fjárhagsáætlun BÍ er gert ráð fyrir 10 milljónir í þetta verkefni og lagt upp með að þetta geti verði komið í gagnið á næsta ári.
– Ályktað var meðal annars um afnám stimpilgjalda og afnám fóðurtolla annað árið í röð.
Ómar Helgason Lambhaga kom inn á rekstur BÍ, telur þar allt of marga vinna eins og á öðrum vinnustöðum hjá bændastéttinni, vill breyta fyrirkomulagi á kosningum til BÍ.
Fundarmenn ræddu um hótelsöluna sem ekki varð og hver ástæðan hefði verið, hvort það hefði verið vegna mismunandi skoðana hvað ætti að gera við fjármunina vegna sölunnar.
Formaður sagði að mismunandi skoðanir hefðu verið uppi á sínum tíma, hugmyndir hefðu verið um að söluandvirði yrði lagt í lífeyrissjóðinn og eins til að kosta starfsemi bændasamtakanna. Hinsvegar væri ljóst að einhverja fjármuni þyrfti til að koma samtökunum fyrir á öðrum stað.
Runólfur Sigursveinsson fagnaði ályktuninni um forritamálin og vill að þessi hópur fylgi þessu stíft eftir til að þetta verði að veruleika, eins og allir vita hafa þessi mál verið í miklum ólestri, eðlilegt að fara í samstarf við danina sem hafa haldið vel utan um þessi mál, tenging tölvubúnaðar vélaframleiðenda (mjaltaþjóna) við gagnagrunna skýrsluhaldsins orðin aðkallandi.
Þórir Jónsson Selalæk segir það nauðsynlegt að hægt sé að tengja tölvukerfi mjaltabúnaðar við miðlægan grunn.
2. Aðalfundur MS/Auðhumlu svf, nú Auðhumlu svf.
Formaður ræddi þær miklu breytingar sem orðnar væru með sameiningu mjólkuriðnaðarins. Jafnframt flutti hann árnaðaróskir til nýkjörins stjórnarformanns Auðhumlu svf., Egils Sigurðssonar.
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir Nýjabæ fannst tímanum illa varið á MS fundi, mikill peningur fari í laun fulltrúa fyrir fundarsetu. Fulltrúar fá flottar möppur, allt kostar þetta og tekið úr fyrirtækinu, finnst bruðl í gangi, taka þurfi til í svona fundarhöldum rétt eins í rekstrinum.
Ólafur Kristjánsson Geirakoti sagði fulltrúa eiga auðvitað að undirbúa sig vel og standa sig, þeir eru kallaðir til að vinna mikilvæg mál, fyrirtækið er með fulltrúalýðræði sem er gott og það eigi að vera vel borgað.
Ómar í Lambhaga taldi sjálfsagt að borga fulltrúum en þörf á tiltekt í fyrirtækinu, margir forstjórar enn í vinnu. Finnst ótrúlegt að heyra verð á danskri mjólk í Grænlandi, hversu dýr hún er.
Formaður taldi miklu skipta hvernig okkur tekst til með sameiningu iðnaðarins og rekstrarumhverfi hans. Ánægjulegt að sjá niðurstöður skoðanakönnunnar, sem kynnt var á nýliðnu Búnaðarþingi, að 65% þjóðarinnar virðist tilbúinn að borga meira fyrir íslenska vöru en erlenda, þetta skiptir máli í ímyndunarsköpuninni. Það selur þó ekki vöruna fyrir okkur.
Guðbjörg Jónsdóttir á Læk sagði afkomuna aldrei hafa komið fram, jákvætt að fá konur í stjórn, sammála að borga fulltrúum en þeir verða að standa sig, hefði viljað sjá meira í fréttum af fundi, m.a., konur komnar í stjórn.
Ólafur Helgason Hraunkoti sagði þetta hafa verið hefðbundinn fundur, menn eigi að fá greidda fundarsetu, miklar breytingar er að gerast, Osta- og Smjörsalan lögð niður og rekstur Mjólkusamsölunnar í Reykjavík fluttur á Selfoss, fannst jákvætt andrúmsloft á fundinum.
Grétar Einarsson í Þórisholti taldi erfitt að bera saman rekstur milli ára þar sem öll þessi breyting hafi verið og ekki hægt að tala um afkomutölur miðað við fyrri ár, ekkert viðmið.
Gunnar Eiríksson Túnsbergi fannst full ástæða að greiða fulltrúum vel og sama hvað margir fundir, það sé bara ein greiðsla. Fannst þetta öðruvísi fundur, mikill fjöldi fulltrúa og ný stjórn.
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey tók undir að einhugur væri í mönnum með sameininguna. En nú er staðan orðin þannig að þetta eru orðnir mjög stórir fundir fulltrúar orðnir 87 talsins og telur að deildir hljóti að verða sameinaðar og fulltrúum verði fækkað. Varðandi fundarlaun til fulltrúa þá séu þeir sem um langan veg þurfi að fara ekkert ofsælir af þessum fundarlaunum. Óskar Agli til hamingju og velfarnaðar í starfi stjórnarformanns . Vitnar í bréf frá MS undirritað af Pálma Vilhjálmssyni varðandi greiðslu fyrir umframmjólk sem verður full afurðastöðvagreiðsla á þessu verðlagsári ,en skilja megi bréfið svo að það verði ekki framvegis. Í þessu sambandi verði skilaboðin frá MS að vera skýr. Telur brýnt að MS setji sér markmið og geri áætlanir fram í tímann í þessum efnum og þá ekki síst um það mjólkurmagn sem þurfi til að láta reyna á fyrir alvöru útflutningsmöguleika á komandi árum og biður Egil að svara ef hann getur.
Sigurður Þór Þórhallsson Önundarhorni velti fyrir sér hvaða kröfur hægt sé að gera til fulltrúa MS/Auðhumlu, t.d. að segja sínar skoðanir á deildarfundum.
Fannst vanta niðurstöður dótturfyrirtækjanna, hvort þau skili einhverju?
Svo um sölu á einkaleyfum erlendis, hvaða greiðslur komi af því?
Tók undir orð Jóhanns um umframmjólkina.
Bóel Anna Þórisdóttir sagði með umframmjólkina, að þá væri annar möguleiki í stöðunni, hægt er sé að selja Mjólku mjólkina.
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ óskaði Agli til hamingju, sagðist sammála því sem kom fram á fundinum að sjö manna stjórn yfir fjögurra manna vinnustað sé of mikið.
Fannst aðalfundurinn mjög rólegur menn létu ekkert í sér heyra eins og undanfarin ár, taldi að fulltrúar séu að gefa þessum málum tíma.
Tók undir orð Jóa að skilaboðin verði að vera skýr, slæmt yrði að lenda í enn einni kvótaspennunni aftur.
Egill Sigurðsson Berustöðum sagði fulltrúa ekki ofsæla með fundargreiðslur en sjálfsagt sé að gera kröfur til þeirra í staðinn.
Hugmynd hefur komið um að deildirnar verði styrktar, engin afstaða tekin enn.
Bréfið frá Pálma, tók undir um að skýrara sé orðað í bréfum til bænda um stöðuna á hverjum tíma. Árið í ár er sérstakt en næst reynir á að selja út, því birgðarstaðan er allt önnur en var. Miklar væntingar eru um útflutning.
Tveir hópar framleiðenda væru núna á Íslandi, annar ætlar að framleiða bara á innanlandsmarkað (Mjólka) en hinn hópurinn vill þróa útflutningsmarkað á mjólkurvörum. Vill að fulltrúar LK taki á málum þessara tveggja flokka hjá kúabændum m.t.t framtíðar..
Gunnar Eiríksson Túnsbergi spurði Egil um opinberu verðlagninguna, hvort eitthvað sé hægt að hreyfa við henni.
Þórir Jónsson Selalæk taldi nauðsynlegt að taka hana af.
Egill sammála Þóri um nauðsyn þess að leggja hana af.
Ómar Helgason sagði að sumir bændur tali um að selja umframmjólk til Mjólku í ágúst en hún sé í raun til allt árið og ef bændur ætli að láta svona þá þurfi að bregðast við því.
Ólafur Helgason Hraunkoti taldi að breyta þyrfti búvörusamningi ef opinber verðlagning yrði tekin af.
Tekið hádegishlé kl. 12.30, – MS Skyr og brauð í boði Auðhumlu svf.
Formaður hóf fund kl. 13:06 eftir matarhlé og sagði frá erindi sem sent var til landbúnaðarráðuneytis eftir fund með Borgfirðingum á sínum tíma um mjólkuruppgjör. Ekkert svar hefur borist enn og spurning er um réttarstöðu erinda sem þessara. Telur rétt að senda enn og aftur erindi og óska skriflegs svars.
3. Aðalfundur Landssambands kúabænda 13. og 14. apríl.
Formaður sagði að á síðasta stjórnarfundi LK hafa verið m.a fjallað um komandi aðalfund. Endanlegar tillögur og fulltrúalisti hafa enn ekki borist frá aðildarfélögum þannig að ekki hafi verið hægt að ganga frá öllum málum í skipulagi fundarins.
Komið hefur fram í fundarboði að Egill Sigurðsson og Jóhannes Jónsson gefa ekki kost á sér áframhaldandi setu í stjórn LK. Undanfarin ár hafa tveir stjórnarmenn LK verið af þessu svæði, spurningin er sú hvort við vilji er til að svo verði áfram.
Ragnar Magnússon Birtingaholti stakk upp á Jóhanni Nikulássyni og var það samþykkt af hálfu fundarmanna. Fundarmenn ræddu nokkuð áhrif FKS innan stjórnar LK og samskipti LK og SAM, m.a. vegna mismunadi áherslna í afstöðu til verðstöðvunar síðastliðið haust.
Egill Sigurðsson þakkaði hlý orð í sinn garð fyrr á fundinum, taldi að FKS, LK og SAM væru ekki andstæðir pólar, með þessum ákvörðunum hafi komið ýmislegt í kjölfarið.
Formaður kynnti tillögurgerð stjórnar LK, tillögur sem borist hafa svo og erindi sem verða á aðalfundi LK.
Guðbjörg Jónsdóttir á Læk lagði fram tillögur á fundinn vegna aðalfundar LK m.a. um samnýtingu greiðslumarks bújarða, lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur, áskorun til Landbúnaðarstofnunar um að birta niðurstöður efnagreininga á aðföngum og tillögu um betra verklag vegna einstaklingmerkinga.
Þá kynnti formaður tillögu sem kom upphaflega frá Sigurlaugu í Nýjabæ um vigtun og verðlagningu á nautgripakjöti.
Talsverð umræða varð um tillögurnar, stjórn falið að yfirfara tillögur í samráði við Guðbjörgu og Sigurlaugu.
4. Fundur formanns FKS með aðal- og varastjórn Bssl og aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands 20. apríl að Heimalandi
Formaður sagði frá fundi með aðal- og varastjórn Bssl nýlega þar sem ýmis mál hafi verið rædd, m.a. annars starfið á St-Ármóti. Ræddi mögulega aðkomu fulltrúa FKS að starfseminni að starfi tilraunastöðvarinnar svipaða því þegar tilraunanefndin var starfandi. Samþykkt að FKS tilnefni fjóra fulltrúa félagsins sem tengiliði við starfsemina á St-Ármóti. Þeir yrðu eftirtaldir: Jóhann Nikulásson St-Hildisey, Helgu Þórisdóttir Skeiðháholti, Ómar Helgason Lambhaga og Sigurður Þór Þórhallsson Önundarhorni.
Fundarmenn ræddu töluvert fjármögnun ráðgjafarstarfsins hjá BSSL og þá búnaðargjaldið sérstaklega.
Guðbjörg á Læk ræddi hvað bændum finnist um óljós mörk á greiðslu fyrir unnin verk, hvað er gjaldfrítt og hvað ekki, ræddi húsnæðismál hjá BSSL, skrifstofan er í dýru húsnæði en að hluta óhentugu, þ.á.m. er ekki aðgangur fyrir hjólastóla
Gunnar á Túnsbergi tók undir orð Guðbjargar, vill fá skýrari skilgreiningar frá BSSL.
Þórir á Selalæk taldi þörf að skera þetta kerfi upp frá grunni
Formaður lagði til að FKS legði fram tillögu um fjármögnun og framtíðaráherslur í starfi BSSL á aðalfund BSSL þann 20.apríl.
Formaður sagði frá hugmyndum stjórnar BSSL um afmælisárið hjá BSSL m.a. landbúnaðarsýning/ afmælisrit / námsstefnu og hugmynd um Hollandsferð fyrir kúabændur.
5. Útfærslur á mjólkursamningi.
Formaður ræddi þær formbreytingar sem ættu að verða á mjólkursamningi um næstu verðlagsáramót. Bað Egil að kynna í hvaða farvegi það mál væri hjá samninganefnd.
Egill Sigurðsson Berustöðum sagði að tveir fundir hafa verið haldnir um málið. Fulltrúar bænda hafa lagt til að fresta útfærslu þessa hluta mjólkursamnings um eitt ár. Meðal þess sem rætt hefur verið um útfærslur er: þróunarsjóður, flutningsgreiðslur á mjólk, greiðslu eftirlitskostnaðar og greiðslur út á opið land.
Holdanautabændur hafa beðið um að hluti þessara greiðslna yrðu til þeirra og þá í formi gripagreiðslna
Runólfur Sigursveinsson taldi jákvætt ef hægt væri að útfæra greiðslur í flutningsjöfnun .
Formaður sagði að stjórn LK myndi m.a. leggja fram tillögur á aðalfundi um breytingar á stærðamörkum gripagreiðslna.
6. Önnur mál.
a. Erindi FKS til MS/Auðhumlu um sölu á hlut í FB.
Egill Sigurðsson sagðist hafa tekið tillögu frá FKS til MS/Auðhumlu um FB til skoðunar.
b. Fundargerðir.
Guðbjörg Jónsdóttir á Læk hvatti til að flýta úrvinnslu fundargerðar Félagsráðs FKS til birtingar á netinu.
Elín Sveinsdóttir Egilsstaðarkoti tók undir það.
c. Tæki til að mæla lyfjaleifar í mjólk
Jóhann Nikulásson vakti athygli á tæki sem MS er að selja til að athuga lyfjaleifar í mjólk á búunum, hvatti bændur að nota sér það
Fundarritari Katrín Birna Viðarsdóttir.