Samið um reiðhöll í Hrunamannahreppi
Samningur um byggingu reiðhallar á Flúðum í Hrunamannahreppi var undirritaður á tröppum Ráðhúss Árborgar í gærkvöld. Um er að ræða 1100 fermetra skemmu sem byggð verður á Lambatanga í Hrunamannahreppi. Það er hestamannafélagið Smári sem byggir reiðhöllina og fær til þess 15 milljóna króna styrk úr reiðhallasjóði landbúnaðarráðuneytisins en gert er ráð fyrir að byggingarkostnaður nemi 30 milljónum.
Hrunamannahreppur kemur að framkvæmdinni með 7 milljónir króna, Skeiða- og Gnúpverjahreppur með 2 milljónir, Búnaðarfélag Hrunamanna með eina milljón og Hrossaræktarfélag Hrunamanna með eina milljón og hestamannafélagið Smári með 5 milljónir.
„Þetta er ein af 28 reiðhöllum sem byggðar verða með framlagi úr reiðhallasjóði ráðuneytisins. Þetta hús mun eins og öll hin jafna aðstöðu hestamanna ekki síst til kennslu- og unglingastarfs sem er afar þýðingarmikið. Það verður mikill styrkur fyrir hestamannafélögin að fá þessa uppbyggingu og mun efla þátt íslenska hestsins í uppbyggilegu uppeldisstarfi,” sagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra að lokinni undirskrift.