Samráðsfundur BSSL og félagsráðs FKS 27. sept. 2005
Samráðsfundur Búnaðarsambands Suðurlands og Félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi
Haldinn 27.september 2005 í fundarsal MS/MBF á Selfossi og hófst kl. 11:00.
Sigurður Loftsson setti fund kl. 11:07 og bauð gesti frá BSSL og fundarmenn velkomna. Kynnti dagskrá fundarins en meginviðfangsefni hans væri starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands með tilliti til þriggja þátta; ráðgjafastarfið, sæðingastarfsemina og St.-Ármót.
1. Áherslur Búnaðarsambands Suðurlands í ráðgjöf í nautgriparækt.
Í upphafi kynnti Runólfur Sigursveinsson hvaða áhersluþættir yrðu kynntir sérstaklega en þeir væru eftirfarandi: Framleiðslumálin og fóðrun, fjármálaráðgjöf, námskeið, SUNNA og loks fjósbyggingafundir.
Framleiðslumálin og ráðgjöf í fóðrun
Runólfur vakti athygli fundarmanna á því að nú væri viðfangsefni næstu missera að framleiða sem mesta mjólk á sem hagkvæmasta hátt til að uppfylla þarfir markaðarins, þetta væri veruleg breyting frá fyrri árum. Hins vegar væri viðfangsefnið snúið í framkvæmd, ljóst væri að fjöldi kúa væri orðinn takmarkandi þáttur, innvigtun síðustu mánuða væri minni en árið áður. Niðurstöður heysýna breytilegri en oft áður og birgðastaða heys sennilega heldur lakari nú en síðustu ár. Sú afurðaaukning sem hefur verið síðustu ár á Suðurlandi er í raun ótrúleg, síðustu 7 ár hafa afurðir aukist um 21% eða að meðaltali um 3% á ári.
Runólfur sýndi töflu með innlagðri mjólk pr. kú m.t.t. hvar mest væri að sækja varðandi ráðgjöf til bænda til að auka framleiðslu enn meira, trúlega væru það bú sem núna væru að leggja inn 4.000 – 5.500 lítra pr. kú og þetta eru um 180 bú á svæðinu miðað við tölur frá 2004. Ef hægt væri að auka framleiðslu þessara búa um 10% næstu 12 mánuði þá næðist aukning í framleiðslu upp á tæpa 2,8 milljónir.
Til að takast á við verkefnið væru fjórir þættir mikilvægir; hvatinn til framleiðslu (ákvörðun um greiðslur fyrir umframmjólk þarf liggja fyrir sem fyrst), skoða sérstaklega ákveðna “framleiðsluhópa” (sbr. hér á undan), greinarskrif til bænda auk fræðslufunda í samstarfi við MS/MBF og loks maður á mann ráðgjöf.
Fjármálaráðgjöf og námskeið
Valdimar Bjarnason rakti það sem BSSL býður upp á vegna fjármálaráðgjafar en það er: Rekstrargeining, stöðumat, endurfjármögnun, fjárfestingaáætlun, viðskipta¬áætlun, arðsemi/endurgreiðslutími fjárfestinga og svo SUNNA.
Hann sagði mikinn mun á verðtryggðum og óverðtrygggðum lánum, telur mun öruggara að taka verðtryggð lán.
Valdimar fór yfir þá miklu breytingu á fjármálamarkaði sem orðin er, m.a. auknir lánamöguleika bænda vegna íbúðarhúsnæðis, hægt að ná fram lægri vöxtum en lengja jafnframt lánstímann og létta þannig núverandi greiðslubyrði, hins vegar er verðbólgan á uppleið.
Valdimar kynnti að BSSL væri með nokkur námskeið í undirbúningi sem eru: Frumkvöðlanámskeið, fjármál/rekstur, lykiltölur í rekstri, búvélakostnaður og lestur ársreikninga.
SUNNU-verkefnið og fjósbyggingahópur
Jóhannes Hr. Símonarson sagði að heimsóknum til Sunnubænda væri að ljúka og samanburðarblaðið að verða tilbúið. Hann fór yfir áhersluatriði sem farið er yfir með bónda í heimsóknum, lögð væri áhersla á að lækka framleiðslukostnað og einstakir rekstrarliðir skoðaðir í því sambandi.
Í kjölfar samanburðarblaðsins verða haldnir samráðsfundir með SUNNU-bændum, væntanlega 3 talsins. Á þeim fundum yrði farið yfir helstu þætti í greiningunni og þar yrði jafnframt reynt að blása nýju lífi í SMS-hópana
Verið sé að undirbúa þemafundi ætlaða kúabændum sem hug hafa á endurbótum á framleiðsluaðstöðu og/eða nýbyggingum, væntanlega yrði boðið upp á fjóra fundi á þessum vetri, hver fundur með afmarkað svið. Jafnframt yrði leitað eftir því við bændur sem hafa lokið eða eru að ljúka endurbótum eða nýbyggingum að boðið yrði upp á heimsóknir ákveðna daga t.d. í feb/mars á næsta ári til fróðleiks fyrir aðra bændur.
Sigurður Loftsson þakkaði ráðunautunum framsögurnar og gaf orðið laust.
Birna Þorsteinsdóttir þakkaði starfsmönnum BSSL kynningu þessara verkefna og fagnaði því að heyra um aukið námskeiðishald hjá BSSL. Spurði einnig um verðþróun í kjarnfóðri
Sigurður Loftsson velti fyrir sér möguleikum til aukinnar framleiðslu. Heyfengur sumarsins virðist ekki með besta móti og því mikilvægt að horft sé ákveðið á fóðrunarþáttinn. Taldi einnig miklu skipta að afurðarstöðvar gefi fljótt út hvað fáist fyrir umframmjólkina.
Ágúst Dalkvist spurði hvort áhættan sé hverfandi að taka erlend lán.
Einar Haraldsson þakkaði Runólfi fyrir þessa töflu um innlegg pr. kú og telur að ráðgjöf til að auka framleiðslu, sé maður á mann.
Grétar Einarsson spurði hvort eitthvað hafi verið skoðað hverjir náðu ekki kvóta og hvort þar sé ekki þörf á að hjálpa og leiðbeina þar sérstaklega. Vill sjá meira um að ráðunautar láti sjá sig á fundum eystra og verði meira sýnilegri og spyr hvort að ráðunautar hafi tíma til að vera með öll þessi námskeið.
Sigrún Ásta Bjarnadóttir þakkaði BSSL-mönnum fyrir þeirra framlag á fundinn, telur mikla þörf að heimsóttir séu bændur sem séu að framl. 3000 – 3500 lítra og hvattir til að framleiða meira.
Runólfur sagði í tilefni af orðum Ágústar að ekki verði fram hjá því litið að vextir erlendis eru mun lægri en hér á landi þannig að erlend lántaka í einhverjum mæli sé réttlætanleg jafnvel þó svo krónan muni gefa eftir þá er verðbólgan mun meiri hér á landi en í helstu viðskiptalöndunum. Höfum mest að sækja í flestum tilvikum varðandi fóðurráðgjöf til þeirra sem eru á áðurnefndu afurðabili 4.000 til 5.500 ltr/kú. Tók undir með Grétari að varðandi þá sem eru ekki að ná sínum framleiðslukvóta. Varðandi verðþróun á kjarnfóðri, þá ætti verð að haldast á svipuðu róli og ef eitthvað væri, þá að lækka vegna gengisþróunar.
Sigurður Loftsson sagði á því talsverða hættu að ekki næðist að uppfylla þarfir markaðarins, taldi mikilvægt að finna leiðir til að fá framleiðendur, sem geta sannanlega aukið framleiðsluna.
Sigrún Ásta Bjarnadóttir vill sjá kynningu á reglugerð vegna frumutölu.
Sigurlaug H. Leifsdóttir tók í sama streng og finnst eðlilegra að sekta, í staðinn fyrir að ná ekki í mjólkina og hvort ekki sé hægt að seinka reglugerðarbreytingunni um áramót.
Ragnar Magnússon var sammála og sagði auðséð að skipta þurfi út kúakyninu bæði með tilliti til júgurhreysti og annarra þátta.
Ólafur Kristjánsson sagði reglugerðina erfiða ekki síst vegna þess að kúakynið sé ómögulegt, kýrnar séu beinaberar og síðjúgra, þola ekki kuldann á haustin. Vakti athygli á grein í Bændablaðinu þar sem fram kæmi að færeyskir kúabændur geti framleitt allt upp í 10 þúsund lítra/kú á ári enda væru þeir með annað kúakyn.
Sigurjón Hjaltason sagði að ekki sé hægt að kenna íslenska kúastofninum um þróunina, líta þurfi á sérgreinda gæðaeiginleika íslensku mjólkurinnar.
Kristinn Guðnason benti á nauðsyn námskeiðs um mjólkurgæði/frumutölu, spyr hvort hafi verið tekið saman um lokun á fjósum, hvort það svipaðar tegundir af fjósum eða allar gerðir fjósa.
Ágúst Dalkvist lýsti yfir áhyggjum á kálfadauða og kvígum, vill sjá fleiri efni mæld í heysýnum ofl.
Grétar Hrafn Harðarson svaraði að byrjað sé á að athuga áhrif aðbúnaðar á mjólkurgæði.
Sigurður Loftsson taldi að bændur væru nú í auknum mæli að finna fyrir áhrifum reglugerðar í frumutölu og því hversu þungt getur verið fyrir fæti ef meðaltalið hækkar verulega. Velti fyrir sér hversu mikil áhrif þessa eru á núverandi framleiðslustöðu.
Matarhlé 12:25. til 13:00
Að því loknu bað fundarstjóri Þorstein Ólafsson að segja frá lokunum vegna frumutölu og reglugerðinnni.
Þorsteinn Ólafsson sagðist hafa verið á fundi í Danmörku um undirbúning á ráðstefnu sem haldin verður hér á landi vegna dauðfæddra afkvæma. Telur að frumutala hafi farið á verri veg nú í sumar en áður og er hræddur um að ekki sé nóg af kvígum í endurnýjun. Segist ekki vita um lokanir á öllu landinu en á okkar svæði eru lokanir í fjósum ekki á mörgum bæjum en ítrekað á sumum, segist vera sammála að hafa verðskerðingu en ekki lokun vegna frumutölu, þessi reglugerð er frá Evrópusambandinu og við sitjum uppi með hana en spurning sé um túlkun á henni.
Sigurlaug H. Leifsdóttir spyr um kasein og fríar fitusýrur, hver mörkin séu, einnig hvort ekki sé hægt að mæla tanksýni í hvert sinn hjá þeim sem óska.
Grétar Einarsson taldi alltof langur tími geti orðið að fá niðurstöður tanksýna, allt upp í 5 daga hjá þeim sem lengra eru frá og það geti skipt máli.
Þorsteinn sagði að ómögulegt væri í núverandi skipulagi að koma við sýnatöku í hverri ferð. Reyndar væri tekið aukasýni ef einhver vandamál væru með frumutölu en erfitt væri að koma niðurstöðum fyrr til bænda en alltaf sé hringt ef eitthvað er að.
Kynbótatöðin – sæðingastarfsemin – Sveinn Sigurmundsson
Sveinn sagði að breyting verði með nýjum mjólkursamningi, auragjaldið dettur út, um 75 milljónir króna en í staðinn koma 100 milljónir inn í mjólkursamninginn og sagðist spenntur að sjá hvernig því verður skipt.
Dagatal Kynbótastöðvarinnar er að koma út eftir u.þ.b. viku. Segir heldur lakari frjósemi nú en áður og til stendur að senda út leiðbeiningarplagg um beiðslisgreiningu á næstunni, breytingar verða á símamálum frjótækna, gefa á upp alla síma hjá þeim þ.m.t. GSM símana. Smá munur er á fanghlutfalli milli svæða, heldur lakara í Landeyjum og Eyjafjöllum.
Segir frjótækna kvarta yfir aðstæðum sumstaðar til að sæða sem kemur í kjölfar breyttra fjósa.
Töluverðar umræður urðu um frjósemi og gangmálaspjaldið, m.a. um breytingar því, nauðsyn þykir að stækka reitina þar sem kúm hefur fjölgað á bæjum, jafnvel þá að fækka heldur mánuðum á því. Sveinn benti mönnum á að ræða við Þorstein um breytingar á spjaldinu.
Birna Þorsteinsdóttir lýsti yfir ánægju sinni með að spjaldið skuli koma fyrr út en áður. Telur að frjótæknar ættu að kvarta við bændur um aðstæður þar sem þær eru ekki í lagi.
taldi vanta meira öryggi á niðurstöður fangskoðana hjá frjótæknum en segir markvissar fangskoðanir nauðsynlegar.
Sveinn Sigurmundsson sagði að Guðmundur Jóhannesson hefði beðið sig að koma á framfæri að skýrsluskil séu ekki í nógu góðu lagi. Sveinn sagði jafnframt kvíguskoðun lokið, verið sé að safna myndum fyrir myndasýningu í haust, hægt sé að nálgast upplýsingar á netinu um það.
Nautavalsforit er ekki tilbúið, Sveinn sagðist hræddur við skyldleikarækt en ánægður með kvígusæðingar á Suðurlandi en þær er um 65 – 70%.
Hann sagðist hafa verið á námskeiði með dönskum ráðunaut og hann hvatti til að bændur notuðu ungnaut allt uppí 70% þá næðist fljótari árangur. Segir að aðeins 2 bú á Suðurlandi séu utan sæðinga.
Tilraunastarfið á Stóra Ármóti. – Grétar Hrafn Harðarson
Sagði að ný staða væri í tilraunastarfinu þar sem Hvanneyri og Möðruvellir ásamt Stóra Ármóti myndu vinna sameiginlega í tilraunum en þó verkaskipt þannig;
Kálfauppeldi “betri kvígur” og mjólk af beit; Hvanneyri.
Fóðrun til hámarksafurða; Stóra Ármót.
Möðruvellir komi til með að vera með “Umhverfisáhrif í búskap”en er enn í mótun, segir búskap erlendis sé víða litinn hornauga vegna umhverfismála.
Grétar nefndi önnur verkefni í tilraunastarfinu, s.s.“Sprotabú” en það eru 8 bú sem hafa verið fengin til þess að vinna með í skráningu á mörgum þáttum varðandi fóðuröflun á búunum og nýtingu fóðurs.
Kálfadauði; segir það mikla spurningu hvort það gæti tengst efnainnihaldi í jarðvegi og þá selenvöntun en í fóðursýnum sem efnagreind hafa verið m.t.t. selens, þá eru mjög lág gildi á Selen í þeim.
Á Stóra Ármóti hafa afurðir hækkað umtalsvert síðustu misseri og komið vel yfir 6.000 kg/kú.
Fundarmenn ræddu mikið um kálfauppeldi en Grétar Hrafn hvetur til að 4 fyrstu vikur kálfa sé þeim gefið kjarnfóður að vild og 4 lítra af mjólk í 8 vikur og þá hey og kjarnfóður.
Jóhann Nikulásson vill sjá meiri rannsóknir og prófanir á nýjum fóðurtegundum sem menn gætu hugsanlega ræktað hér á landi.
Ólafi Kristjánssyni lýst vel á samvinnu þessara þriggja búa.
2. Af vettvangi FKS
Afmæli FKS – Uppgjör árshátíðar og útgáfu.
Formaður gerði grein fyrir kostnaði við útgáfu afmælisritsins og árshátíðarinnar.
Haustfundir FKS og LK.
Búið er að dagsetja haustfundina, rætt um staðsetningu og hún ákveðin. Fundirnir verða haldnir að Þingborg, Heimalandi og að Herjólfsstöðum í Álftaveri.
Ráðstefna um framtíðarmöguleika greinarinnar.
Formaður sagði að í stjórn hefði verið rætt um hvort einhver möguleiki væri að standa fyrir ráðstefnu, t.d. með 3 fyrirlesara og pallborðsumræðum.
Fundarmenn ræddu þetta mikið á jákvæðan hátt og töldu hentugasta tímann annað hvort í nóvember eða fyrri hluta janúar Ákveðið að skoða hvort þetta sé framkvæmanlegt m.t.t. fyrirlesara og einnig kom hugmynd að hægt væri að senda svona fund út á netið.
3. Fréttir af starfi stjórnar LK
Formaður hafði tekið saman og dreift til fundarmanna eftirfarandi
Ráðning framkvæmdastjóra. Málið er í ákveðnum farvegi sem unnið verður eftir.
Verðlagsmál. Hækkunarþörf samkv. verðlagsgrundvelli er um 3,99% en hækkun vísitölu fyrir sama tíma er um 4,8%. Ekki liggur enn fyrir hver staða iðnaðarins er, en úr þeim herbúðum hefur heyrst að ekki verði lengur komist hjá hækkunum þar, enda kostnaðarhækkanir verið talsverðar í vinnslunni og reksturinn þyngist. Flestir efna¬hags¬spekingar landsins gera ráð fyrir talsverðri verðbólgu næstu misseri, sem að líkindum muni þýða frekari kostnaðarauka í öllu framleiðsluferli mjólkurafurða. Staðan í framleiðslu og sölu mjólkur. Framleiðsla mjólkur s.l. verðlagsár var 111,4 millj. lítra sem var allnokkuð undir óskum afurðastöðva, en heitið hafði verið greiðslum fyrir próteinhluta mjólkur allt að 112,5 millj. lítra. Það sem af er þessu verðlagsári hefur síðan verið áframhaldandi samdráttur í framleiðsluni. Innvigtun í viku 37 var um 1845 þús. lítrar en var um 1974 þús. lítrar í viku 37 árið 2004. Það er samdráttur um 129 þús lítra eða um 6,5%. Samdráttur milli ára hefur verið á bilinu 4,2% – 7,3% í hverri viku undanfarið. Samdráttur frá áramótum hefur verið um 593 þús lítrar eða um 0,7%. Salan heldur síðan áfram að vera góð og er hætt við að óbreyttu verði skortur á hráefni til vinnslunar. Skoða þarf hvaða möguleikar eru í stöðunni en einkum þarf að ná til þeirra framleiðenda sem enn í dag eiga verulega vannýtta framleiðslugetu. Í þessu skyni var ákveðið að leggja eindregið til við SAM að gefa nú þegar fyrirheit um greiðslu a.m.k. próteinhluta allrar umframmjólkur, en jafnframt að kanna möguleika leiðbeiningaþjónustunar til áhrifa í þessu efni.
Staða viðræðna um verkaskiptasamning við BÍ. Einn fundur hefur verið haldinn frá því í vor og er nú framundan vinna í textagerð. Engin ástæða er til að ætla annað en að samkomulag náist í þessu.
Tillögur um skiptingu búnaðargjalds. LK hefur lagt fram tillögur um skiptingu búnaðargjalds og heildarupphæð þess við niðurlagningu Lánasjóðs landbúnaðarins. Í ljósi ályktana aðalfundar LK var gerð svohljóðandi tillaga:
BÍ 0,35%, Búnaðarsambönd 0,5%, LK 0,15%, samtals búnaðargjald 1%. Vegna stöðu annarra búgreina í skiptingu gjaldsins og þess að tæplega megi vænta samstöðu um niðurlagningu greiðslna í Bjargráðsjóð á svo skömmum tíma sem til stefnu er, þá er hins vegar lögð til eftirfarandi málamiðlun: BÍ 0,35%, Búnaðarsambönd 0,5%, LK 0,3%, Bjargráðasjóður 0,05%. samtals 1,2%. Jafnframt mun LK óska eftir því að verðmiðlunargjald nautakjöts verði aflagt til mótvægis við hækkaða hlutdeild LK í búnaðargjaldi.
Kynbóta- og þróunarfé samkv. mjólkursamningi. Um næstu mánaðarmót fellur niður innheimta auragjalds en í stað þess tekur við útdeiling af kynbóta og þróunarfé úr mjólkursamningi. Þessi upphæð er nokkru hærri en sem nemur innheimtu auragjalds og var ekki að fullu frá gengið hvernig farið skyldi með þann mismun. Framreiknuð samkv. vísitölu ætti þessi upphæð að nema um 8,8 millj. á mánuði. Gerð var tillaga til BÍ að fénu verði öllu útdeilt til Búnaðarsambanda til lækkunar á sæðingakostnaði í samræmi við kúafjölda í gagnagrunninum MARK.
4. Önnur mál
Sigurður Loftsson tjáði fundarmönnum að fyrir liggi ákvörðun frá BÍ um hönnun á byggingu uppeldistöðvar fyrir kálfa á Hvanneyri eða nágrenni.
Fundarmenn lýstu óánægju sinni varðandi þessa ákvörðun stjórnar BÍ og minnst var á ályktun félagsins og aðalfundar LK varðandi þetta mál.
Spurt var um breytingu um áramót á frumutölureglugerðina frá hendi LK. Formaður sagði unnið því að fá þeim undanþágum sem falla eiga úr gildi nú um áramótin framlengt.
Arnheiður Dögg Einarsdóttir spurði hvort að fyrirtæki á vegum MS/MBF selji uppskriftir erlendis t.d. skyr ofl. og ef það sé rétt þá sé hún alfarið á móti þessu. Formaður sagði þarna einungis um að ræða sölu á nýtingarrétti vörumerkis. Taldi á því litlar líkur að við næðum að anna verulegri eftirspurn erlendis frá á þessari vöru og því skynsamlegra að einbeita sér á völdum stöðum. Takist erlenda aðilanum hins vegar vel til gæti hlutdeild okkar í vörumerkinu skilað verulegum tekjum. Töluverð umræða var um þetta á þann veg að fulltrúar séu ekki hafðir með í ráðum þ.m.t. fyrirtæki sem MS/MBF hefur að keypt undanfarið.
Formaður þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn og sleit fundi kl. 16:23.
Fundaritari: Katrín Birna Viðarsdóttir