Félagsráðsfundur FKS 8. des. 2005
Félagsráðsfundur 8.desember 2005 kl. 11:00 haldinn í fundarsal MS Selfossi
Formaður setti fund kl. 11:15
Auk félagsráðsmanna var Runólfur Sigursveinsson frá Bssl og formaður laganefndar FKS Elvar Eyvindsson.
1. Málþing.
Formaður rakti framvindu mála í undirbúningi á málþingi sem stjórn ásamt Runólfi er með í farvatninu. Búið er að fá 3 fyrirlesara og áætlað að staðsetning verði í Þingborg þann 31. janúar 2006 og byrja kl.12:00.
Fyrirlesarar verða Elvar Eyvindsson bóndi, Guðbrandur Sigurðsson forstjóri MS og Sveinn Agnarsson frá Háskóla Íslands.
Velt var vöngum yfir heiti málþingsins sem gæti verið “ Er hægt að tvöfalda mjólkurframleiðslu á Íslandi?”
Fundarmenn voru spenntir fyrir efni málþingisins og sáttir við stað og stund og sammála um að hefja það kl. 12:00.
Sigrún Ásta spurði hvort leitað hefði verið til LBHÍ með fyrirlesara þaðan.
Formaður sagði það ekki vera en tveir fyrirlesarnna væru úr mjólkurgeiranum og einn utan hans en hefði unnið úttekt á stöðu mjólkurframleiðslunnar, markmið þingsins væri að skoða möguleika greinarinnar til framtíðar og jafnframt að gefa gestum málþingsins rúman tíma í almennar umræður og vangaveltur út frá framsöguerindum..
Sveinn á Reykjum sagði þetta til góðs en aldrei komi endanleg niðurstaða af svona málþingi en tilgangurinn væri að koma umræðu og/eða vinnu af stað. Sér hefði virst eftir haustfund MS að forstjórinn hefði ekki mikla trú á útflutningi. Félagsráðsmenn sem á haustfundinum voru tóku í sama streng.
Fundarmenn voru sammála um að mjólkurframleiðendur þyrftu þrátt fyrir allt að finna út hvort og þá hvaða væntingar kúabændur gætu gert um afurðaverð til framtíðar með hliðsjón af aukinni framleiðslu og þá bæði á innanlandsmarkað og erlendis.
Sigrún Ásta spurði Runólf um heimsóknir í tengslum við ÁTAK-í mjólkurframleiðslu.
Hann sagði að þeir hefðu farið aðallega á austurhluta svæðisins, aðstæður manna væru mismunandi og viðhorf m.a. til notkunar á kjarnfóðri. Mjög víða er hægt að gera mun betur í fóðrun og uppeldi smákálfa. Telur að víða megi bæta skipulagningu og nýtingu beitar og því ástæða að eftir áramót verði farið í námskeiðs/fundarferð um vor- og sumarbeit, fá LBHÍ til að aðstoða í þeirri framkvæmd. Fylgja þessu síðan eftir með heimsóknum til einstakra bænda.
Töluvert var rætt um nythæð, hvað bændur væru að hugsa sem nýttu ekki afkastagetu gripa sinna nema að hluta, í einstaka tilfellum gætu aðstæður verið þannig ekki borgaði sig að keyra á meiri nyt.
2. Tillögur laganefndar.
Elvar útskýrði tillögur um lagabreytingar sem væru helst í 5.grein en hún fjallar um kosningu félagsráðs, stjórn og svo uppstillingarnefnd.
Einnig eru lagðar til breytingar á 6.grein um lengri boðunartíma aðalfundar og verkefni á aðalfundi.
Síðast er tillaga að breytingu á 8.grein, ef félagið verður lagt niður.
Formaður bað fólk að tjá sig með þessar lagabreytingar.
Fundarmenn jákvæðir um tillögurnar og því reiknað með að laganefnd leggi tillögurnar fram á næsta aðalfundi
Matarhlé. 12:40
Allir fundarmenn vel mettir og sælir eftir skyr, rjóma og meðlæti frá MS og hófust handa við fund kl.13:20.
3. Aðalfundur FKS.
Formaður taldi ekki öruggt að félagsráð kæmi saman fyrir aðalfund, það færi eftir verkefnum. Hann stakk upp á sem fundartíma; 13.febrúar 2006 í Árhúsum á Hellu kl. 12:00 og var það samþykkt af fundarmönnum.
Reynt verði að fá einn fyrirlesara á aðalfund því að tíminn fyrir önnur mál á aðalfundi væri of lítill í flestum tilvikum.
Formaður bað fólk um að stinga upp á nöfnum í uppstillingarnefnd en samþykkt var að stjórn hefði frumkvæði að því.
4. Önnur mál.
Formaður Greindi frá því að náðst hefði samkomulag um verðlagningu í verðlagsnefnd. Samkvæmt því hækkar mjólkurverð til framleiðenda um 2.9% um næstu áramót. Verð á nýmjólk hækkar frá sama tíma um 1kr/ltr. á markaði, en verð á öllum öðrum vörum um að hámarki 2.5%. Þá verður jafnframt verðskerðingargjald á mjólk lagt af og rennur andvirði þess til þess að leiðrétta afkomu iðnaðarinns. Sagði hann þessar hækkanir ekki að fullu í samræmi við væntingar, en mikilvægt hefði verið að ná samkomulagi í nefndinni.
Einnig greindi hann frá því undanþáguákvæði mjólkurreglugerðarinnar hefði verið framlengt um hálft ár, meðan hún væri í endurskoðun. Því kæmi ekki til herta aðgerða vegna frumutölu nú um áramótin.
Sagði hann síðan stuttlega frá heimsókn stjórnar MBB til stjórnar FKS þann 24. nóv sl. til að kynna sér starfsumhverfi og aðstöðu okkar m.t.t. funda, félagsráðs og o.fl.
Einnig var rætt þar um réttarstöðu framleiðenda sem leggja inn hjá Mjólku ehf. og ákváðu stjórnirnar að senda sameiginlegt bréf til Landbúnaðaráðherra sem hljóðaði svo:
„Á sameiginlegum fundi stjórna Mjólkurbús Borgfirðinga (MBB) og Félags Kúabænda á Suðurlandi (FKS) á Selfossi 24. nóv. 2005 var m.a. rætt um kaup Mjólku ehf á mjólk af handhafa greiðslumarks í mjólk, sem fréttir hafa borist af.
Fram kom, að þótt Mjólka ehf sé tvímælalaust afurðastöð í skilningi búvörulaga og falli þar með undir ákvæði þeirra, kunni að leika vafi á hversu farið verði með innlegg sem þetta við magnuppgjör og fjárhagslegt uppgjör mjólkurinnleggs í lok verðlagsárs. Sérstaklega á þetta við ef hlutaðeigandi leggur inn mjólk umfram greiðslumark sitt.
Hliðstæð óvissa mun vera fyrir hendi um kaup Mjólku ehf á mjólk af framleiðendum án greiðslumarks.
Fundurinn taldi þessa óvissu óviðunandi fyrir alla aðila en verulegir hagsmunir í húfi.
Því er hér með skorað á yður að þér gefið hið fyrsta til kynna með ótvíræðum hætti hvaða reglum ráðuneytið ætlast til að verði fylgt um fyrrgreind atriði.”
Það er auðvitað von okkar að ráðuneytið bregðist snarpt við þessu þannig að allri óvissu verði eytt. Enda, eins og fram kemur í erindinu, um mikla hagsmuni að ræða.
Formaður fór síðan yfir breytingar á frumvarpi til laga á breytingu á búnaðargjaldi nr. 84/1997 með síðari breytingum. Ljóst er að með þessari fyrirhugaðri lagabreytingu dregur úr fjármunum sem koma til Bssl í gegnum búnaðargjaldið og að vægi nautgriparæktarinnar eykst hlutfallslega og fer í um 70% af innheimtu búnaðargjaldi af Suðurlandi. Þetta hefði verið kynnt á nýafstöðnum formannafundi Bssl.og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri hefði nefnt að bregðast yrði við þessu með einhverjum hætti, t.d. að hækka félagsgjöld og/eða að selja í auknum mæli þjónustuna sem BSSL veitir.
Umræða varð um þessi mál m.t.t. nautgriparæktarinnar/ leiðbeiningarþjónustu á svæðinu.
Ákveðið að stjórn færi á fund BSSL og fengi upplýsingar um skiptingu tekna til BSSL á búgreinarnar og nýtingu fjármuna greinarinnar.
Runólfur sagði að niðurstöður búreikninga 2004 frá Hagþjónustu landbúnaðarins hefðu birst nýlega og úr þeim megi m.a. lesa, út frá meðaltali 188 kúabúa sem uppgjör var gert fyrir hjá Hagþjónustunni, þá eru skuldir þessara kúabúa að meðaltali 27 milljónir, alls skuldir (skammtímalán og langtímalán), meðalstærð kúabúanna í uppgjöri eru rúmir 150.000 lítrar. Ef þetta eru meðalskuldir kúabúa í landinu í lok árs 2004 þá gerir þetta um 19 milljarða heildarskuldir. Miðað við fjármagnsgjöld þessara 188 kúabúa árið 2004 þá má áætla að kúabændur landsins hafi greitt alls 1,4-1,5 milljarða í fjármagnsgjöld.
Til að yfirfæra þetta betur á hvert bú þá eru fjármagnsgjöldin rúmlega 13 kr/l eða allt að því svipuð upphæð og meðalkúabóndinn borgar fyrir kjarnfóður og áburð ár hvert. Þarna er orðinn til kostnaðarliður, sem reyndar er mjög breytilegur milli búa, en er eigi að síður mjög afgerandi í möguleikum manna að takast á við lækkun framleiðslukostnaðar á mjólk.
Fundarlok kl. 14:45
Fundarritari Katrín Birna Viðarsdóttir.