Íslendingar vilja innlendar landbúnaðarvörur og eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir þær en innfluttar
Íslendingar telja gæði innlendra landbúnaðarvara meiri en innfluttra og að mikilvægt sé að hér á landi sé stundaður landbúnaður. Landsmenn telja íslenska bændur ekki bera ábyrgð á háu matarverði á landinu og fólk er reiðubúið til að greiða hærra verð fyrir innlendar landbúnarvörur en innfluttar. Þetta kom fram í ræðu Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, við setningu Búnaðarþings 2007 fyrr í dag, en yfirskrift setningarhátíðarinnar er „Sveit og borg – saman í starfi”. Í ræðu sinni skýrði Haraldur frá niðurstöðum nýlegrar könnunar sem Capacent – Gallup vann fyrir Bændasamtökin. Um var að ræða fimm spurningar í hefðbundnum spurningavagni Capacent. Niðurstöður könnunarinnar endurspegla afar jákvætt viðhorf almennings til íslenskra bænda og afurða þeirra. Hann sagði að niðurstöður könnunarinnar væru bændum afar mikilvægar. „Okkur hefur gengið betur en við þorðum að vona að koma viðhorfum okkar á framfæri. Niðurstaðan er líka umhugsunarefni fyrir þá sem árum saman hafa alið á óvild í garð landbúnaðar og bændastéttar“, sagði Haraldur í setningarræðu sinni.
Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:
79% telja að bændur beri litla eða enga ábyrgð á háu matarverði hér á landi.
74,7% sögðu gæði innlendra landbúnaðarvara meiri en erlendra. 2,3% töldu gæði innlendra landbúnaðarvara minni en erlendra.
93,8% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar.
79,9% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir.
61,8% aðspurðra eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir íslenskar en innfluttar landbúnaðarvörur.
Hér er hægt að skoða niðurstöður könnunarinnar á pdf-formi.