Aðalfundur HS 2005

Fundargerð


Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
haldinn 14. apríl 2005 í Þingborg


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skipan kjörbréfanefndar
3. Skýrsla stjórnar, Jón Vilmundarson
4. Ársreikningur, Helgi Eggertsson
5. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
6. Tillögur lagðar fram og kynntar
    Kaffihlé
7. Umræður og afgreiðsla tillagna
8. Kosningar, kosið verður um formann og þrjá varamenn í stjórn.
9. Önnur mál


1. Fundarsetning
Jón Vilmundarson
setti fundinn. Skipaði Berg Pálsson fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur og Hannes Hjartarson fundarritara.


2. Skipan kjörbréfanefndar
Í kjörbréfanefnd voru skipuð, Halla Eygló Sveinsdóttir, Kristinn Vilmundarson og Ólafur Einarsson. Nefndin tók þegar til starfa.


3. Skýrsla stjórnar
Jón Vilmundarson
stiklaði á stóru um starfsemi samtakanna. Fundarboð var sent til allra félagsmanna vegna tillögu um lagabreytingar. Þrjár sýningar voru í Ingólfshvoli á síðasta ári og var metþátttaka í vorsýningunni og góð aðsókn að öðrum. Þessar sýningar eru orðnar helsta tekjulind samtakanna. Sýningarstjóri á þessum sýningum var Óðinn Örn Jóhannsson og hefur hann staðið sig vel.

Samtökin voru með þrjá hesta á LM2004, tvo til heiðursverðlauna, þá Andvara og Galsa, og Númi var sýndur til I. verðlauna. Þeir stóðu sig allir vel en það sama er ekki hægt að segja um notkunina á þeim. Andvari er að vísu mjög eftirsóttur en frjósemin hjá honum var ekki góð. Þokkaleg notkun á Galsa en enginn áhugi fyrir Núma og Gauta. Númi hefur verið seldur til Danmerkur. Stjórnin telur ekki ráðlegt að festa kaup á fleiri stóðhestum.

Sæðingastöðin gekk vel á síðasta ári og er vaxandi áhugi hjá eigendum góðra stóðhesta að hafa þá í sæðingum. Verðlagning á sumum stóðhestum glannaleg, sumir gætu verið að velta allt að 20 milljónum á ári ef næg eftirspurn verður eftir þeim. Vonandi að þessi háa verðlagning dragi ekki úr notkun á þeim.

Samkvæmt ályktun aðalfundar 2004 var skipuð nefnd til að vinna að framtíðarskipulagi HS. Í nefndinni sátu Hannes Hjartarson, Hrafnkell Karlsson og Páll Stefánsson. Samkvæmt tillögum nefndarinnar leggur stjórnin fram lagabreytingar til samræmis. Megin breytingarnar eru á þessa leið:
1. Bein félagsaðild að HS –allir hafi rétt til setu á aðalfundi og kjörgengi. Deildirnar geti þó starfað áfram að sínu fræðslustarfi, stóðhestahaldi o.s.frv.
2. Breyting á rekstri og eignaraðild Sæðingastöðvarinnar með þátttöku annarra hrossaræktarsamtaka og tengsl við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri varðandi rannsóknir á frjósemi stóðhesta.
3. Stóðhestahaldi verði hætt
4. HS dragi sig frá markaðssetningu á reiðhestum
en verði áfram með sýningar líkt og verið hefur í Ingólfshvoli.


Að lokum þakkaði Jón stjórnarmönnum fyrir samstarfið á árinu og Höllu Eygló Sveinsdóttir fyrir að hafa komið félagatali samtakanna í gott horf og öllum fundargerðum stjórnar á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands, þar sem hinn almenni félagsmaður gæti fylgst með starfsemi samtakanna.


4. Ársreikningur
Helgi Eggertsson fór yfir reikninga samtakanna.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld:  4.465.496 kr
Tekjur: 3.678.464 kr
Tap:       787.032 kr

Í raun er tapið minna því hluti af tekjum m.a. leigutekjur fyrir stóðhestahúsið í Gunnarsholti kemur inn á árinu 2005.

Eignir:           18.547.375 kr
Skuldir:         13.396.128 kr

Undir eignum eru m.a. ógreiddir folatollar um 1 milljón en það er óvíst hve mikið af því fæst greitt.
 
5. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
Spurt var um notkun á Gauta frá Reykjavík, engar tekjur fengust af honum. Tvær hryssur fóru undir hann á vegum HS sem happdrættisvinningar, önnur notkun var ekki á vegum HS.


6. Tillögur lagðar fram og kynntar
Hrafnkell Karlsson
kynnti hugmyndir vinnuhóps um framtíðarskipan samtakanna. Núverandi félagsform, með deildir sem grunneiningar, hefur verið við líði frá upphafi. Það sé hins vegar gengið sér til húðar eins og sést best á því hve fáar deildir eru virkar innan samtakanna í dag. Deildirnar eru 30 en af þeim eru einungis 5-7 virkar. Þetta veikir undirstöður samtakanna og því leggur vinnuhópurinn til beina aðild að samtökunum.

Hannes Hjartarson kynnti þann hluta sem snýr að stóðhestahaldi samtakanna. Hér áður fyrr byggðist starfssemi samtakanna aðallega á stóðhestahaldi deildanna enda lítið um stóðhesta í einkaeigu á þeim tíma. Nú væri nægt framboð stóðhesta á vegum einstaklinga og því ekki ástæða til að samtökin væru með stóðhestahald á sinni könnu. Stóðhestahald væri áhættusamt eins og dæmin sýndu.

Páll Stefánsson kynnti tillögu um Sæðingastöðina í Gunnarsholti. Hann sagði að Sæðingastöðin væri komin til með að vera og það væri mikilvægt að allir hrossaræktendur í landinu leggi hönd á plóginn. Stofna þyrfti nýtt eignarhaldsfélag um starfsemina. Sjá nánar tillögu 2 frá vinnuhóp í viðauka I.

Jón Vilmundarson kynnti tillögur að lagabreytingum, sjá meðfylgjandi breytingartillögur undir 7. lið. Lögin eru birt í heild sinni í viðauka II.

Kristinn Hugason vill ekki leggja af deildarfyrirkomulag og lagði fram eftirfarandi tillögu.
“Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í Þingborg 14. apríl 2005 samþykkir eftirfarandi:
1. Hrossaræktarsamtökin starfi áfram með því formi að deildir myndi starfseiningar samtakanna.
2. Félagsaðild  í meginsamtökunum verði í gegnum aðild að einstökum deildum þess.
3. Kosningarétt á aðalfundum Hrossaræktarsamtakanna hafi kjörnir fulltrúar deildanna  og ráði stærð einstakra deilda  fjölda fulltrúa þeirra á fundunum.
4. Til hagræðis og eflingar og viðhalds starfseminnar í einstökum deildum verði starfssvæði þeirra hið sama og hestamannafélagsins á viðkomandi stað.


Greinargerð:
Aðild að öflugum móðursamtökum er öllu grasrótarstarfi mikilvægt jafnframt sem heildarsamtök verða að eiga sér öflugar rætur. Þetta hvoru tveggja tryggir deildarfyrirkomulagið sem á sér langa órofa hefð í félagskerfi hesta- og hrossaræktarfólks sem og mikið víðar í þjóðfélaginu.
 Bein félagsaðild að samtökum sem Hrossaræktasamtökum Suðurlands nægir því ekki auk þess að geta leitt til ófyrir séðra áhrifa á aðalfundum, ýmist vegna þess að þeir geta á stundum orðið afar fámennir eða einsleiti að samsetningu, allt eftir efnum og ástæðum hverju sinni.
 Hagræði af því að marka deildunum hið sama starfssvæði og hestamannafélögin hafa nú þegar er augljóst bæði upp á innra starf og samstöðu alla. Skýrt skal þó tekið fram að báðir aðilar; hestamannafélagið og hrossaræktardeildin, eru óháðir hvor öðrum sem þýðir að ekki þurfa að vera stjórnunarleg samskipti milli þessara aðila önnur  en heimamenn kjósa á hverju svæði fyrir sig, t.d. með kjöri einstakra stjórnarmanna.”
Finnur Egilsson
Sveinn Gaukur Jónsson
Kristinn Hugason
fulltrúar frá Hrossaræktarfélagi Andvara


Helgi Eggertsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
“Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn þann 14. apríl í Þingborg, samþykkir óbreytt árgjald til HS fyrir árið 2005.”


Halla Eygló Sveinsdóttir mælti fyrir áliti kjörbréfanefndar. Kjörbréf bárust frá 17 deildum af 30. Kjörbréf bárust ekki frá eftirtöldum deildum: Mýrdalshrepp, Herði, Sörla, A-Eyjafj., V-Landeyjahr., Hvolhrepp, Ásahrepp, Stokkseyrarhr., Eyrarbakkahr., Sandvíkurhr., Hraungerðishr., Skeiðahr. og Gnúpverjahr.
Samtals mættu 32 rétt kjörnir fulltrúar á fundinn.


Kristinn Guðnason sagðist ekki sáttur við það ef samtökin myndu hætta að vinna að markaðsmálum hrossaafurða.


Kári Arnórsson sagðist óttast að bein aðild yrði til þess að félagsmönnum fækkaði í HS og fólk léti nægja að vera bara í deildunum. Einnig spurði hann hvort til stæði að selja hlutina í Galsa, Andvara og Gauta?


Bergur Pálsson fundarstjóri sagðist hafa litið svo á að stjórnin væri að koma með tillögur til lagabreytinga upp úr tillögum vinnuhóps þannig það séu þær sem fyrst og fremst sé verið að bera upp. Tillögur vinnuhópsins hafi fyrst og fremst verið vinnuplagg fyrir stjórnina að vinna upp úr lagabreytingar.


Þorkell Bjarnason sagðist óttast hallarbyltingu og að með beinni aðild yrði starfið laust í reipunum. Sagðist hafa ákveðið að mæta á fundinn þegar hann sá fundarefnið í fundarboðinu. Hefði mátt til að vera við útför samtakanna þar sem hann hefði verið á stofnfundinum fyrir hartnær 60 árum. Staðreyndin þó sennilega sú að erfitt verði að standa gegn þessum breytingum, allt gengur sér til húðar og sagðist hann því styðja þessar tillögur. Mikil vinna yrði að koma sæðingarstöðvarmálum í höfn.


Hrafnkell Karlsson sagði að það væri eðlilegt að menn væru ekki á einu máli hvernig tekið yrði á þessum málum. Hvað varðar nafn samtakanna vildi vinnuhópurinn breyta nafninu því þetta yrðu ekki lengur samtök. Samtök eru samband hópa en ekki einstaklinga. Nafnið megi þó alveg standa.
Hann spurði um hvaða framlög væri verið að ræða í 2 gr. Í 3. gr þyrfti að fella úr gildi eftirfarandi: ”Brottvikning og úrsögn fer fyrir aðalfund.”  Einnig taldi Hrafnkell eðlilegra að í stað 4. gr. væri niðurlag vinnuhópsins, þ.e. tillaga 4 látin koma. Hrafnkell spurði hvort aðalfundur FH þyrfti ekki að samþykkja þessi lög?
Hrafnkell lagði ríka áherslu á að ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag sæðingastöðvarinnar yrði rætt á fundinum. Hrafnkell sagði að eftir að hann hefði skoðað deildarfyrirkomulag HS væri hann þeirrar skoðunar að lítið þýddi að reyna meira til að virkja deildirnar. Hann sagði að í deild Ölfusinga væru mun fleiri félagsmenn en þeir sem væru í samtökunum og lög þeirra stangist töluvert á við lög samtakanna. Varðandi deildirnar þá væri erfitt fyrir félagsmann í deild sem ekki væri starfandi að hafa áhrif í samtökunum.
Varðandi hættu á “hallarbyltingu” taldi Hrafnkell það af og frá að hætta væri á slíku. Að lokum sagði Hrafnkell að það yrði að vera ljóst eftir hverju stjórnin ætti að vinna í framtíðinni.


Bergur Pálsson vildi leiðrétta að hann hefði alls ekki ætlað að bera bara upp valdar tillögur hann hefði bara misskilið hvernig fundarboðið hljóðaði.


7. Umræður og afgreiðsla tillagna
Jón Vilmundarson
sagði að það hefði verið lögð heilmikil vinna í að lífga við deildir og það hefði ekki gengið. Tillaga Andvara hefði einnig verið reynd án árangurs. Hann sagðist sannfærður um að eina leiðin væri bein aðild. Hallarbylting væri vart möguleg því alltaf mætti kalla saman aukafund. Léttvægt að óttast slíkt. Það væri hins vegar sjálfsagt að takast á um þessi mál því þau væru það umdeild.
Athugasemd Hrafnkels varðandi 3. gr væri rétt og því þyrfti að breyta áður en lögin væru borin undir atkvæði. Sumar af tillögum vinnuhópsins væri rétt að bera upp sem ályktun frá fundinum þannig það verði unnið að þeim málum, s.s. sæðingamálunum.
Varðandi sölumál á afurðum væri rétt að hafa það inni þannig samtökin standi við bakið á móðurfélaginu FH. Samtökin hefðu t.d. stutt þá sem stunda blóðtöku úr hryssum.


Snæbjörn Björnsson  taldi tillögur um breytta félagsaðild af hinu góða. Varðandi “hallarbyltingu” taldi hann að hún yrði þá bara af hinu góða og til að gera samtökin meira spennandi, það væri engin hætta á ferðum. Hvað viðkæmi 4. gr. væri rétt að hafa inn í lögunum að samtökin ynnu að sölumálum fyrir hrossaafurðir því alltaf þyrfti að vera hægt að afsetja hross og rétt að standa við bakið á FH í þeim efnum. Stóðhestahald yrði að skoða á hverjum tíma, nú væri það tímaskekkja en það er ekki víst að svo verði um alla framtíð. Rétt að stjórnin á hverjum tíma ákveði það enda ekki góður kostur að afsetja þá hesta sem samtökin eiga í dag. Hugsanlega hefði þeim sem voru í forsvari fyrir samtökin ekki auðnast að fjárfesta í hestum sem breið samstaða hefði verið um að kaupa. Reyndar væri alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.
Snæbjörn sagðist alltaf hafa verið á móti sæðingum og fósturvísaflutningum. Hann teldi best að markaðssetja íslenska hestinn þannig að hann fjölgaði sér með náttúrulegum hætti. Þar sem sæðingastöðin væri hins vegar komin til að vera þyrfti að vinna henni brautargengi á landsvísu. Vildi þó að reglur yrðu settar um að óheimilt væri að nota ófrjósama hesta og takmarka ætti notkun á einstaka stóðhestum.


Kristinn Hugason sagði menn vera að leggja út af tillögu Andvaramanna en hún væri ekki lögð fram af því menn óttuðust “hallarbyltingu” heldur félagslega deyfð. Sjáum ekki að bein félagsaðild verði til að efla samtökin. Þar sem erfitt hefði verið að halda lífi í deildunum væri ef til vill betra að deildirnar væru tengdar hestamannafélögunum á viðkomandi svæði. Festan í félagsstarfinu fælist í deildunum. Kristinn fagnaði starfsemi sæðingastöðvarinnar og taldi hana ekki háskalega þó það væri skoðun Snæbjörns. Benti á að Hólaskóli væri rannsóknastöð fyrir íslenska hestinn og  það væri nýtilkomin þessi jákvæðni út í hrossaræktina á Hvanneyri.


Páll Jóhannsson sagði menn tala út um víðan völl. Hann væri sammála því að breyta rekstrarfyrirkomulagi sæðingastöðvarinnar. Það yrði hins vegar áfram markmið Hrunamannadeildar að halda stóðhesta því það væri það sem félagsmenn vildu. Sagðist ekki sjá hver væri hvatinn að því að vera í HS ef þessar breytingar yrðu að veruleika. Ekki stóðhestahald, stóðhestablað og aðgang að Worldfeng mætti fá eftir öðrum leiðum. Er staðan ekki svona í dag vegna aðgerðaleysis núverandi stjórnar?


Hrafnkell Karlsson vildi árétta að ekki hefði verið hugsun vinnuhópsins að setja stefnu sæðingastöðvarinnar inn í lög samtakanna. Hins vegar þyrfti stjórnin að vita hver væri vilji félagsmanna varðandi sæðingastöðina og vinna eftir því. Hann sagði að ef það bæri að stefna að því að breyta rekstrarfyrirkomulagi stöðvarinnar tæki það örugglega mikinn tíma að vinna því máli brautargengi á landsvísu. Stöðin hefði sannað gildi sitt og því þyrftu fleiri að koma að rekstri hennar.
Hann sagðist ósammála Kristin Hugasyni að hægt væri að styrkja deildarfyrirkomulagið með því að vera með deildir innan hestamannafélaganna, reynt hefði verið að sameina deildir en það ekki gengið. 


Jón Vilmundarson taldi að með því að breyta 4 gr. a) lið væri ekki verið að binda hendur stjórnar varðandi stóðhestahald. Samtökunum væri hins vegar ekki lengur skylt að halda stóðhesta en það væri heldur ekkert sem segði að það væri ekki hægt áfram. Ekkert í lagabreytingunum sem skyldar HS til að selja þá stóðhesta sem þau eiga í dag. Jón sagði dapurlegt að hlusta á umræðuna um hvata til að vera í HS. Hvatinn á að vera sá að sameinast um að rækta betri hesta. Fagráð fer með stefnuna í hrossarækt og FH á meirihluta í þar. Jón sagðist dauðþreyttur á að hlusta á umræðuna um að menn þurfi gulrætur til að vera með í svona félagsskap.
 
Snæbjörn Björnsson sagðist sammála Jóni Vilmundarsyni hvað varðar hvatann til að vera í samtökunum.  Varðandi sæðingastöðina væri hann ekki að gagnrýna störf Páls Stefánssonar og félaga. Hins vegar þyrfti að setja einhverja reglur um starfsemi hennar.


Páll Stefánsson sagðist ekki taka það inn á sig þó menn væru ekki hrifnir af sæðingastöðinni. Það hefðu verið gefnar út margar yfirlýsingar um að ræktendur vildu reka sæðingastöð, meira segja Búnaðarþing hefði ályktað um það. Það væri því tími til kominn að koma því í verk. Nefndin fékk það hlutverk að koma með tillögu til stjórnar og hún tekur síðan endanlega ákvörðun. Dapurlegt að menn þurfi alltaf að fá eitthvað út úr öllu prívat og persónulega.  HS er aðili að FH og þeir eru með meirihluta fulltrúa í fagráði en þar eru ákvarðanir eru teknar. Þess vegna eiga menn að mæta á eigin forsendum á fundi HS, það er eitt af hlutverkum stjórnar að hafa samband við grasrótina.


Haraldur Sveinsson spurði hvað menn hefðu verið að ræða síðustu 3 klst?  Hvernig ætti að halda mönnum inni í samtökunum! Menn vilji hafa eitthvað úr út öllu, er ekki bara einfaldara að leggja samtökin niður!


Viðar Steinarsson sagði að farið hefðu fram miklar umræður um tillögur varðandi sæðingastöðina og hvort ekki væri rétt að fundurinn veitti stjórninni umboð til að vinna að þeim málum. Hann taldi hins vegar glapræði að keyra þessar breytingar á félagsaðild í gegn miðað við þann hljómgrunn sem þær hefðu fengið á fundinum. Hann lagði til að skipuð yrði milliþinganefnd til að vinna áfram í þessum málum.


Kristinn Hugason taldi að Viðar og Haraldur hefðu í raun sagt það sem segja þurfi. Mannskepnan sé nú bara þannig gerð að vilja hafa einhverja gulrót. Það væri því rétt að fresta málinu um beina félagsaðild að sinni.


Þorkell Bjarnason taldi að þetta mál ynnist aldrei í kvöld og væri því rétt að fresta því. 


Bergur Pálsson las upp tillögu frá stjórn:
“Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn þann 14. apríl í Þingborg, samþykkir óbreytt árgjald til HS fyrir árið 2005.”

Tillagan samþykkt samhljóða


Tillaga 2 frá vinnuhópi breytt í ályktun sem stjórnin vinni að, ályktunin hljóðar svo:
“HS og önnur ræktunarsambönd í landinu kaupa hlut ríkisins í hesthúsi Stóðhestastöðvarinnar.
HS selur öðrum hrossaræktarsamtökum í landinu hlut sinn í sæðistökuhúsinu og stofnað verði nýtt eignarhaldsfélag allra hrossaræktarfélaga (-sambanda) í landinu af aðstöðunni í Gunnarsholti. 
Rekstrarfélag um sæðingarnar verði einnig í eigu sömu aðila, og Dýralæknaþjónusta Suðurlands dragi sig út úr rekstarfélaginu, en setji sína uppsöfnuðu vinnu inn í eignarhaldsfélagið sem hlutafé.
Gerður verði framtíðarsamningur við Landgræðslu ríkisins, til 20-30 ára, um aðstöðu fyrir beit og ýmislegt annað samstarf. 
Skapa skilyrði heildarinnar fyrir söfnun, sölu og dreifingu á sæði, bæði innanlands og utan,  með  þátttöku allra ræktenda í landinu ásamt því að fullnægja skilyrðum Evrópusambandsins sem útflutningsstöð og sleppa því að vera með einstaklingsrekstur í formi tamninga á staðnum.
Fagráð í hrossarækt verði drifkrafturinn í undirbúningi og vinnu þessa verkefnis og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri verði aðili að starfseminni. 
Lagður verði grunnur að því að Sæðingastöðin í Gunnarsholti sé rannsóknarstöð íslenska hestsins fyrir frjósemi, og jafnvel margt fleira í samvinnu við LBH.


Greinargerð:
1. Hægt er að reka sæðingastöð á tímabilinu frá 1. maí til 30. ágúst á hverju ári  ef framboð af úrvals hestum er fyrir hendi og næg eftirspurn er eftir sæði úr þeim. Grundvöllur að því er að koma upp fleiri aðilum víðs vegar um landið með þekkingu á sviði sæðinga.  
      Erlendis er næg eftirspurn eftir sæði frá því í apríl og langt fram eftir sumri í íslenskar
      hryssur.
      Hægt er að nýta hesthúsið yfir vetrarmánuðina sem dvalar- og umönnunarstöð fyrir 
     stóðhesta og ungfola sem rannsaka á vegna frjósemi með tilliti til eldis og  um-
     önnunarþátta.
 
2. Möguleiki er á að hafa marga bestu stóðhesta landsins á Sæðingastöðinni og bjóða upp á ferskt sæði úr þeim í fjóra mánuði innanlands og um allan heim á þessu umgetna tímabili, auk sölu og dreifingar á frystu sæði frá fyrri árum.

3. Besti möguleiki á því að geta geymt erfðaefni úr þessum hestum sem á staðnum eru, er einmitt að hafa þá allt sumarið og geta fryst úr þeim yfir þann tíma sem sæðið er best.  En í ljósi þeirra rannsókna sem þegar hafa verið gerðar er það greinilega háð okkar íslenska sumri ( norðlæg lega landsins og birtuáhrif ) sem gera það að verkum að há-sumar er sá tími sem hægt er að frysta sæði úr okkar stóðhestum, og byggist það á árhundraða aðlögun okkar stofns að ákveðnum náttúrulögmálum.

4. Á Sæðingastöðinni er best að gera sér grein fyrir frjósemi hestanna og gera tilraunir um fóðrun, atlæti, umhverfi, notkun og margt fleira, en á síðustu árum hafa vaknað margar spurningar um ástæður ófrjósemi og minnkandi sæðisgæða hjá hestum sem eru rétt komnir um og yfir miðjan aldur.

5. Á Sæðingastöðinni eru allar niðurstöður skoðana skráðar hvort sem  um hryssur eða hesta er að ræða, þannig að mikið safn upplýsinga verður á einum stað og markviss vinnsla gagna getur átt sér stað.

6. Með þátttöku Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri má vinna úr niðurstöðum og framkvæma rannsóknir þannig að slíkt leiði til framþróunar og þekkingaröflunar á sviði frjósemi íslenska hestsins. Slíkt samstarf getur einnig skapað mörgum framhaldsnemum og vísindamönnum innan þess geira verkefni og er nauðsynlegt fyrir þá starfsemi sem rekin er á Sæðingastöðinni í dag.  Eins og málum er háttað nú, fer fyrst og fremst  fram gagnasöfnun og praktísk reynsla starfsmanna, sem hefur ekkert vísindalegt gildi nema að einhver akademisk stofnun komi þar að.
Samstarfið mun einnig styrkja tengsl Landbúnaðarháskólans við grasrótarstarf hrossaræktarinnar á suður- og suðvesturhorni landsins og þannig efla svið hrossaræktarnámsins á Hvanneyri.
Samstarf verði með erlendum vísindamönnum og stofnunum á sviði frjósemi, og   tengsl þannig styrkt um dreifingu íslenska hestsins um allan heim með samstarfi á sviði frjósemisrannsókna.”


Ályktunin samþykkt samhljóða

Tillaga frá Andvara sem Kristinn Hugason mælti fyrir (sjá 6. lið) borin undir atkvæði.
Felld


Bergur Pálsson bar því næst undir fundarmenn lagabreytingar og var hver grein fyrir sig borin undir atkvæði.


1.gr
Félagið heitir Hrossaræktarsamtök Suðurlands, skammstafað H.S. Starfssvæðið nær frá Lómagnúpi um Suðurland að Hvalfjarðarbotni. Félagið er aðili að Búnaðarsambandi Suðurlands og Félagi hrossabænda. Heimili þess og varnarþing er að Austurvegi 1, Selfossi.

Samþykkt samhljóða


3.gr.
Félagar geta allir orðið sem eru búsettir á félagssvæðinu, stunda hrossarækt eða hafa áhuga á framgangi hrossaræktar. Inntökubeiðni nýrra félaga skal bera upp til samþykktar á stjórnarfundi. Félagar greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi ár hvert.

Samþykkt 18 atkvæði gegn 1.


4. gr.
Tilgangur félagsins er:
a) Að vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins.
b) Að vinna í samvinnu við önnur félög og stofnanir að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa.
c) Að glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugri fræðslu og útbreiðslustarfi.
d) Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross innanlands og erlendis og hafa um það samvinnu við aðra aðila, með það að markmiði að skapa aukin verðmæti hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.
e) Að vinna að sölumálum fyrir hrossaafurðir, jafnt á innlendum sem erlendum mörkuðum, með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.
f) Að vinna að öðrum hagsmunamálum hrossaræktenda eftir því sem tilefni gefast.

Samþykkt, 10 atkvæði gegn 1


5.gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundum. Aðalfund skal halda árlega og eigi síðar en 15. apríl en heimilt er að halda að auka aðalfund þess utan ef þurfa þykir. Aðalfund skal boða á tryggilegan hátt með minnst 5 daga fyrirvara. Á aðalfundi gilda almenn fundarsköp. Á aðalfundi skal:
1. Flutt skýrsla stjórnar.
2. Afgreiða framlagða og skýrða, endurskoðaða reikninga félagsins.
3. Kjósa stjórn samkv. 6. gr. og fulltrúa á aðalfund þeirra félaga sem samtökin eru aðili að.
4. Taka ákvarðanir um önnur mál sem varða félagið.

Samþykkt samhljóða.


9.gr.
Tekjur félagsins skulu vera:
a) Félagsgjöld samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.
b) Aðrar tekjur.

Samþykkt samhljóða.


Lögin að lokum borin upp í heild sinni. (Sjá heildarlög í viðauka II).
Lögin samþykkt með 15 atkvæðum gegn 7.



8. Kosningar, kosið verður um formann og þrjá varamenn í stjórn.
Tillaga frá uppstillinganefnd:
Formaður Hrafnkell Karlsson –samþykkt með þorra atkvæða á móti fjórum.

Varamenn í stjórn Bjarni Sigurðsson, Sigurður Sigurðarson og Magnús Trausti Svavarsson –samþykkt.

Fulltrúar á aðalfund BSSL, Ragnar Lárusson, Helgi Eggertsson, Ólafur Einarsson, Hrafnkell Karlsson og Bergur Pálsson. Varamaður Brynjar Vilmundarson –samþykkt.

Fulltrúar á aðalfund FH, Hrafnkell Karlsson, Hannes Hjartarson, Helgi Eggertsson, Ólafur Einarsson, Brynjar Vilmundarson, Bjarni Sigurðsson, Sigurður Sigurðarson, Magnús Trausti Svavarsson og Jón Vilmundarson. Varamenn Bergur Pálsson og Ragnar Lárusson –samþykkt.

Skoðunarmenn Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson –samþykkt.


9. Önnur mál
Jón Vilmundarson óskaði nýkjörnum formann til hamingju og sagðist viss um að Hrafnkell væri rétti maðurinn til að rífa upp samtökin. Síðan þakkaði hann stjórnarmönnum fyrir samstarfið.

Hrafnkell þakkaði traustið sem honum væri sýnt. Minnti á hin fleygu orð Jóns Sigurðssonar “sameinaðir stöndum við sundraðir föllum vér”. Það þyrfi að vinna vel á öllum sviðum, samstaða innan samtakanna væri því mjög mikilvæg. Jóni þakkaði hann vel unnin störf  og sagðist örugglega eiga eftir að leita oft til hans.

Brynjar Vilmundarson þakkaði fyrir þennan undarlega fund og fyrir hönd stjórnarmanna þakkaði hann Jóni fyrir samstarfið á liðnum árum.

Snæbjörn Björnsson sagðist vonast til að þeir sem færu ósáttir af þessum fundi myndu mæta galvaskir á næsta fund samtakanna. Þakkaði Jóni fyrir hans störf og óskaði Hrafnkatli til hamingju með formannssætið.

Kristinn Guðnason þakkaði Jóni fyrir samstarfið sagði hann þrautseigan þegar hann væri kominn af stað. Óskaði Hrafnkatli því næst til hamingu með starfið og sagðist viss um að hann myndi vinna vel.

Bergur Pálsson þakkaði fyrir góðan fund og sagði fundi slitið.

 /Halla Eygló Sveinsdóttir
  Hannes Hjartarson,
  fundarritarar



Viðauki I


Endurskoðun á starfsemi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
Tillögur vinnuhóps í mars 2005



Núverandi staða
Hrossaræktarsamtök Suðurlands (HS) hafa sama hlutverk og önnur hrossaræktarsamtök og sambönd hrossaræktenda í landinu þar sem grunneiningar þeirra eru deildir, en  samtökin og samböndin  mynda síðan  “Félag hrossabænda” (FH), sem er aðili að Bændasamtökum Íslands. 


HS eru mynduð af  30 deildum sem spanna landsvæðið frá Hvalfirði austur að Lómagnúp.  Þar af eru aðeins 6 deildir inna HS vel virkar í sínu starfi og í 11 þeirra ekkert líf, en aðrar misjafnlega starfandi. Í HS eru nú skráðir rúmir 480 félagar og hluti sem ekki hefur greitt félagsgjald , og geta þannig ekki talist fullgildir félagsmenn.
HS er aðili að Búnaðarsambandi Suðurlands.
Búnaðarsambandið leggur til starfsmann í hlutastarf, sem heldur um félagatalið og sér um innheimtu félagsgjalda auk þess sem hann kemur fundargerðum stjórnar á heimasíðu Bssl ásamt ýmsu öðru.


Starfsemi samtakanna síðustu árin hefur aðalega verið eign og rekstur stóðhesta og  að standa fyrir ræktunarsýningum. 


Samtökin eiga húsnæði Sæðingastöðvarinnar í Gunnarsholti, ásamt djúpfrystingartækjum.


Samkvæmt lögum HS  er tilgangur og hlutverk þeirra margþætt.
Í 4. gr laganna er rakinn tilgangur samtakanna sem er m.a. að standa fyrir stóðhestahaldi, vinna að ræktun, skýrslugerð, stuðla að góðu uppeldi, aðbúnaði, tamningu og stunda öflugt fræðslu og útbreiðslustarf.  Einnig að vinna að sölumálum reiðhesta og kynbótahrossa svo og hrossaafurða.
Aðild að HS er litlum takmörkunum háð eins og fram kemur í 3. gr.í lögum þess: “Félagar geta allir orðið sem búsettir eru á félagssvæðinu, stunda hrossarækt eða hafa áhuga á framgangi hrossaræktar.”
Flestar deildir samtakanna hafa svipuð eða eins ákvæði í sínum lögum.


 


Tillögur



Tillaga I


Félagsformið
Lagt er til að félagar í deildum Hrossaræktarsamtaka Suðurlands (HS) fái beina aðild að samtökunum, þannig að deildirnar verði ekki lengur grunneiningar HS. Með formbreytingunni verði nafni samtakanna breytt úr samtökum í félag.

Greinargerð
Núverandi félagsform, með deildirnar sem grunneiningar, hefur verið við líði frá upphafi. Árið 1996 urðu deildirnar grunneiningar í félagskerfi Bændasamtakanna með sameiningu Hrossaræktarsamtakanna við Félag hrossabænda.
Aðeins 5 -7 deildir af 30 uppfylla þær kröfur sem lög HS setja þeim. Virkni deildanna hér áður byggðist mest á því að vinna í að fá graðhesta og hafa aðstöðu fyrir þá.  Nú er öldin önnur og þessi hvati ekki fyrir hendi og má fullyrða að félagsaðild í HS er ekki það sem dregur menn inn í þessi virku félög, heldur er það starf þeirra þar sem áhugamenn um hrossarækt hafa fundið sér vettvang.
Vinnuhópurinn telur litla von til að hægt verði að efla starf “dauðu” deildanna þannig að þær geti talist bærar til að uppfylla lög sambandsins.
Í flestum öðrum búgreinum eru grunnfélög, sem spanna mismunandi stór landsvæði, sem mynda síðan búgreinafélag eða búgreinasamband. Með ofangreindri tillögu verður félagsform hrossageirans með sama hætti.
 HS hefur nú um nokkurt skeið innheimt félagsgjöld beint af félagsmönnum deildanna, sem segja má að sé skref að hálfu.  Ekki þarf að hafa raunir af því hvað gerðist fjárhagslega við beina þátttöku þar sem reynslan er fengin og félagatalið klárt.


Tillaga II


Sæðingastöðin í Gunnarsholti ehf.
HS og önnur ræktunarsambönd í landinu kaupa hlut ríkisins í hesthúsi Stóðhestastöðvarinnar.
HS selur öðrum hrossaræktarsamtökum í landinu hlut sinn í sæðistökuhúsinu og stofnað verði nýtt eignarhaldsfélag allra hrossaræktarfélaga (-sambanda) í landinu af aðstöðunni í Gunnarsholti. 
Rekstrarfélag um sæðingarnar verði einnig í eigu sömu aðila, og Dýralæknaþjónusta Suðurlands dragi sig út úr rekstarfélaginu, en setji sína uppsöfnuðu vinnu inn í eignarhaldsfélagið sem hlutafé.
Gerður verði framtíðarsamningur við Landgræðslu ríkisins, til 20-30 ára, um aðstöðu fyrir beit og ýmislegt annað samstarf. 
Skapa skilyrði heildarinnar fyrir söfnun, sölu og dreifingu á sæði, bæði innanlands og utan,  með  þátttöku allra ræktenda í landinu ásamt því að fullnægja skilyrðum Evrópusambandsins sem útflutningsstöð og sleppa því að vera með einstaklingsrekstur í formi tamninga á staðnum.
Fagráð í hrossarækt verði drifkrafturinn í undirbúningi og vinnu þessa verkefnis og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri verði aðili að starfseminni. 
Lagður verði grunnur að því að Sæðingastöðin í Gunnarsholti sé rannsóknarstöð íslenska hestsins fyrir frjósemi, og jafnvel margt fleira í samvinnu við LBH.

Greinargerð
7. Hægt er að reka sæðingastöð á tímabilinu frá 1. maí til 30. ágúst á hverju ári  ef framboð af úrvals hestum er fyrir hendi og næg eftirspurn er eftir sæði úr þeim. Grundvöllur að því er að koma upp fleiri aðilum víðs vegar um landið með þekkingu á sviði sæðinga.  
      Erlendis er næg eftirspurn eftir sæði frá því í apríl og langt fram eftir sumri í íslenskar
      hryssur.
      Hægt er að nýta hesthúsið yfir vetrarmánuðina sem dvalar- og umönnunarstöð fyrir 
     stóðhesta og ungfola sem rannsaka á vegna frjósemi með tilliti til eldis og  um-
     önnunarþátta.
 
8. Möguleiki er á að hafa marga bestu stóðhesta landsins á Sæðingastöðinni og bjóða upp á ferskt sæði úr þeim í fjóra mánuði innanlands og um allan heim á þessu umgetna tímabili, auk sölu og dreifingar á frystu sæði frá fyrri árum.

9. Besti möguleiki á því að geta geymt erfðaefni úr þessum hestum sem á staðnum eru, er einmitt að hafa þá allt sumarið og geta fryst úr þeim yfir þann tíma sem sæðið er best.  En í ljósi þeirra rannsókna sem þegar hafa verið gerðar er það greinilega háð okkar íslenska sumri ( norðlæg lega landsins og birtuáhrif ) sem gera það að verkum að há-sumar er sá tími sem hægt er að frysta sæði úr okkar stóðhestum, og byggist það á árhundraða aðlögun okkar stofns að ákveðnum náttúrulögmálum.

10. Á Sæðingastöðinni er best að gera sér grein fyrir frjósemi hestanna og gera tilraunir um fóðrun, atlæti, umhverfi, notkun og margt fleira, en á síðustu árum hafa vaknað margar spurningar um ástæður ófrjósemi og minnkandi sæðisgæða hjá hestum sem eru rétt komnir um og yfir miðjan aldur.

11. Á Sæðingastöðinni eru allar niðurstöður skoðana skráðar hvort sem  um hryssur eða hesta er að ræða, þannig að mikið safn upplýsinga verður á einum stað og markviss vinnsla gagna getur átt sér stað.

12. Með þátttöku Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri má vinna úr niðurstöðum og framkvæma rannsóknir þannig að slíkt leiði til framþróunar og þekkingaröflunar á sviði frjósemi íslenska hestsins. Slíkt samstarf getur einnig skapað mörgum framhaldsnemum og vísindamönnum innan þess geira verkefni og er nauðsynlegt fyrir þá starfsemi sem rekin er á Sæðingastöðinni í dag.  Eins og málum er háttað nú, fer fyrst og fremst  fram gagnasöfnun og praktísk reynsla starfsmanna, sem hefur ekkert vísindalegt gildi nema að einhver akademisk stofnun komi þar að.
Samstarfið mun einnig styrkja tengsl Landbúnaðarháskólans við grasrótarstarf hrossaræktarinnar á suður- og suðvesturhorni landsins og þannig efla svið hrossaræktarnámsins á Hvanneyri.

13. Samstarf verði með erlendum vísindamönnum og stofnunum á sviði frjósemi, og   tengsl þannig styrkt um dreifingu íslenska hestsins um allan heim með samstarfi á sviði frjósemisrannsókna.


Tillaga III

Stóðhestahald og sölumál
Stóðhestahaldi verði hætt vegna nægs framboðs góðra stóðhesta á félagssvæðinu.
Sölumál reiðhesta, kynbótahrossa og hrossaafurða verði ekki lengur hlutverk HS.



Tillaga IV

Leggja áherslu á að :
1. Vinna ötullega að kynbótum íslenska hestsins og stuðla að áframhaldi framþróun á sviði sæðinga (ferskum og frystum) og fósturvísaflutninga.
2. Standa fyrir ræktunarsýningum s.s. folaldasýningum, ungfolasýningum og
ræktunarbússýningum auk þátttöku í kynbótasýningum í samstarfi við Bssl.
3. Efla fræðslu og kynningarmál, m.a. með því að styrkja heimasíðuna og gera HS meira áberandi í starfi sínu.
4. Hlúa að starfi þeirra ræktunarfélaga sem áfram starfa á svæði samtakanna og hvetja til stofnunar ræktunarhópa, –nefnda innan hestamannafélaganna, þannig að grasrótarstarf  áhugafólks um hrossarækt megi áfram dafna.
Mikilvægt er fyrir stjórn félagsins á hverjum tíma að efla tengslin við þessi áhugamannafélög og hvetja þannig til almennrar þáttöku innan HS.


Þannig frá gengið 22. mars 2005

Hannes Hjartarsson (sign.)
Hrafnkell Karlsson (sign.)
Páll Stefánsson (sign.)


Viðauki II
Lög Hrossaræktarsamtaka Suðurlands


 


1.gr


Félagið heitir Hrossaræktarsamtök Suðurlands, skammstafað H.S. Starfssvæðið nær frá Lómagnúpi um Suðurland að Hvalfjarðarbotni. Félagið er aðili að Búnaðarsambandi Suðurlands, Félagi hrossabænda. Heimili þess og varnarþing er að Austurvegi 1, Selfossi.


2.gr.


Félagið starfar samkvæmt búfjárræktarlögum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og samþykktum Bændasamtaka Íslands.


3.gr.


Félagar geta allir orðið sem eru búsettir á félagssvæðinu, stunda hrossarækt eða hafa áhuga á framgangi hrossaræktar. Inntökubeiðni nýrra félaga skal bera upp til samþykktar á stjórnarfundi. Félagar greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi ár hvert.


4. gr.


Tilgangur félagsins er:
a) Að vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins.
b) Að vinna í samvinnu við önnur félög og stofnanir að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa.
c) Að glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugri fræðslu og útbreiðslustarfi.
d) Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross innanlands og erlendis og hafa um það samvinnu við aðra aðila, með það að markmiði að skapa aukin verðmæti hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.
e) Að vinna að sölumálum fyrir hrossaafurðir, jafnt á innlendum sem erlendum mörkuðum, með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.
f) Að vinna að öðrum hagsmunamálum hrossaræktenda eftir því sem tilefni gefast.


5.gr.


Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundum. Aðalfund skal halda árlega og eigi síðar en 15. apríl en heimilt er að halda að auka aðalfund þess utan ef þurfa þykir. Aðalfund skal boða á tryggilegan hátt með minnst 5 daga fyrirvara. Á aðalfundi gilda almenn fundarsköp. Á aðalfundi skal:
1. Flutt skýrsla stjórnar.
2. Afgreiða framlagða og skýrða endurskoðaða reikninga félagsins.
3. Kjósa stjórn samkv. 6. gr. og fulltrúa á aðalfund þeirra félaga sem samtökin eru aðili að.
4. Taka ákvarðanir um önnur mál sem varða félagið.


6.gr.


Stjórn félagsins skipa 5 menn kosnir til þriggja ára. Skulu þeir kosnir þannig að fomaður skal kosinn sérstaklega 3ja hvert ár og tveir meðstjórnendur hvert hinna áranna. Fullskipuð stjórn kýs sér varaformann úr sínum röðum og skiptir stjórn með sér verkum eftir samkomulagi. 3 varamenn í stjórn kýs aðalfundur árlega. Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga árlega og tvo til vara. Stjórn ræður málefnum félagsins á milli funda, hún hefur umsjón með fjárreiðum félagsins og ber ábyrgð á þeim. Einstakir stjórnar- og félagsmenn verða þó aldrei persónulega ábyrgir fyrir skuldbindingum samtakanna, nema þeir hafi farið út fyrir umboð sitt. Meirihluti atkvæða ræður innan stjórnarinnar sé ágreiningur um afgreiðslu mála.


7.gr.


Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Krefjist tveir stjórnarmenn fundar ber formanni að boða til hans. Stjórnarfund skal boða með þriggja daga fyrirvara sé þess kostur. Stjórn getur skipað starfsnefndir í einstaka málaflokka og / eða gert tillögu til aðalfundar um slíkt sé það talið henta. Boða skal til almenns félagsfundar ef 50 félagsmenn krefjast þess með undirskrift sinni. Almenna félagsfundi skal boða með sama hætti að aðalfundi.


8. gr.


Stjórn sendir fréttir af starfi samtakanna til félagsmanna eigi sjaldnar en tvisvar á ári.


9.gr.


Tekjur félagsins skulu vera:
a) Félagsgjöld samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.
b) Aðrar tekjur.


10.gr.


Reikningsár félagsins er almanaksárið. Kjörnir skoðunarmenn framkvæma venjubundna árlega endurskoðun, kynna sér starfrækslu félagsins og gera grein fyrir starfi sínu á aðalfundi.


11.gr.


Lagabreytingar verða aðeins gerðar á aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um breytingar á lögum skal kynna um leið og aðalfundur er boðaður.


12. gr.


Félagið hættir störfum ef það er samþykkt í formi lagabreytinga á aðalfundi. Eignir skulu þá afhentar Búnaðarsambandi Suðurlands sem varðveitir þær á tryggilegan hátt þar til sambærilegt félag hefur verið stofnað að mati stjórnar Búnaðarsambandsins og ganga þá eignirnar til hins nýja félags.


13. gr.


Lögin voru samþykkt á aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands sem haldinn var í Þingborg 14. apríl 2005.


back to top