1. fundur 2003
Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands haldinn þann 31. janúar 2003 að Höfðabrekku í Mýrdalshreppi. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson og Guðni Einarsson. Þá var Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri einnig mættur.
- Kjarasamningaviðræður. Rætt var um kjarasamningsgerð við ráðunauta.
- Búnaðarþingskosningar. Stjórnin leggur til að kosningin verði póstkosning. Skipað í kjörstjórn fyrir búnaðarþingskosningar, sem fram fara á árinu: Þorfinnur Þórarinsson, formaður, Þórir Jónsson og Ólafur Einarsson. Til vara: Guðmundur Stefánsson, Ragnar Lárusson og Margrét Guðmundsdóttir
- Lífeyrisskuldbindingar. Bréf frá Bændasamtökum Íslands þar sem óskað er eftir afstöðu Búnaðarsambands Suðurlands til tillögu um að greiða hlut allra búnaðarsambandanna í lífeyrisskuldbindingum starfsmanna sinna af óskiptum opinberum framlögum til samtakanna eða óskiptu búnaðargjaldi. Stjórnin hafnar þessari tillögu.
- Heyefnagreiningar. Fyrir lá tillaga frá Nautgriparæktarfélagi Hrunamanna um að BSSL geri þjónustusamning við RALA og LBH þar sem kveðið sé á um að niðurstöður heyefnagreininga berist innan 20 daga frá því að sýnin fara. Stjórnin telur rétt að leita eftir samningum um heyefnagreiningar.
- Starfsmannahald og starfsemin. Talið er nauðsynlegt að ráða starfsmann til að hægt sé að fylgja Sunnu-verkefninu og jarðræktarverkefnum betur eftir. Fram kom að uppi eru hugmyndir um frekara starf fyrir hrossabændur. Samningur hefur verið gerður við Lánasjóð landbúnaðarins um áætlanagerð í tengslum lánsumsóknir.
Fyrir lá bréf þar sem samstarfssamningi um endurmenntun við Landbúnaðarháskólann er sagt upp.
Kynnt var þáttaka í sauðfjársæðingum og árangurinn, sem var í lakara lagi.
- Landbúnaður og atvinnumál í V-Skaftafellssýslu. Á fundinn komu sveitarstjórnarmenn úr sýslunni. Sveinn Sigurmundsson fór yfir samantekt um þróun búskapar á svæðinu. Kúabúin eru minni í V-Skaft, en vestar á Suðurlandi, en mörg eru blönduð bú. Sauðfjárrækt er mikil, en horfur ískyggilegar. Ferðaþjónusta er talsverð. Rætt var um stöðuna og framtíðarmöguleika, bæði hvað varðar landbúnaðinn og önnur tækifæri.
- Önnur mál. Sveinn Sigurmundsson kynnti drög að samantekt um meðferð og vörslu trúnaðarupplýsinga fyrir Búnaðarsambandið. Samþykkt að fela Sveini að vinna áfram í málinu.
Guðmundur skýrði frá störfum laganefndar.
Egill las upp minnisblað frá vinnuhópi um málefni nautakjötsframleiðslu.
Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og fundi slitið.
Guðmundur Stefánsson, fundarritari.