6. fundur 2005

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 13. október 2005 á skrifstofu Búnaðarsambandsins á Selfossi og hófst hann kl, 11 f.h. Mættir voru stjórnarmennirnir; Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson og Egill Sigurðsson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.


Formaður setti fund og ræddi um dagskrána.


Framkvæmdastjóri greindi frá því að sjóðir Búnaðarsambandsins væru komnir í eignastýringu í samræmi við samþykki stjórnar frá síðasta fundi.


Formaður greindi frá erfiðri stöðu í kjarasamningum við ráðunauta.


Eggert greindi frá afstöðu stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins til ýmissa atriða, t.d. vaxtaákvæða, við sölu hans og einnig greindi hann frá boði stjórnar Lánasjóðsins um að Búnaðarsambandið þiggi af þeim málverk og var það samþykkt.

Egill skýrði frá ýmsum skipulagsbreytingum og fjárfestingum hjá MS/MBF. Fram kom að verkefni hafa aukist á skrifstofunni við mjólkurbúið á Selfossi, þar sem allt afurðabókhald og allt launabókhald fer fram.


Til fundarins komu Grétar H. Harðarson, Runólfur Sigursveinsson, Jóhannes Hr. Símonarson, Sigurður Loftsson og Snorri Sigurðsson.
Til umræðu var hvaða ráð væru til þess að herða á mjókurframleiðslunni nú þegar markaðurinn er að vaxa. Fram kom að hey er lakara að gæðum og líklega líka minni að magni. Rætt var um hvernig best væri að standa að áróðri og ráðgjöf til þess að auka mjólkina. Mestir möguleikar til árangurs voru taldir hjá miðlungsbúunum hvað varðar nythæð. Huga þarf að samsetningu kjarnfóðurs miðað við heyin og miklu skiptir að huga strax að sumarbeit næsta sumars.
Varðandi upplýsingar um hugsanlega seinkum burðartíma kúnna, þá kom fram að er erfitt að fá upplýsingur til baka úr tölvukerfi nautgriparæktarinnar.
Miklar áhyggjur komu fram af fjölda dauðfæddra kálfa, svo virðist sem kúastofninn geta varla viðhaldið sér lengur. Rætt var um fræðsluaðferðir í þessu skyni, bæði hópfræðslu með því aðhalda fundi og einstaklingsráðgjöf með því að heimsækja bændur.

Af fundinum viku Runólfur Sigursveinsson og Jóhannes Símonarson.


Tekið var til umræðu tilraunastarfið á Stóra-Ármóti og það samstarf sem hefur verið milli LBHÍ og Búnaðarsambandsins.

Grétar fór yfir möguleika á ýmsum breytingum á Stóra-Ármóti til þess að bæta aðstöðu fyrir rannsóknir og gestamóttöku. Þá skýrði hann þá verkaskiptingu sem er milli tilraunabúanna, en allar rannsóknir í nautgriparækt heyra nú undir LBHÍ. Á Stóra-Ármóti miðast rannsóknir við hámarksafurðir á kú.

Rætt var um samninginn sem í gildi er um samstarf BSSL og LBHÍ um tilraunastarfið á Stóra-Ármóti en ástæða er til að fara yfir hann og aðlaga að aðstæðum.

Af fundinum véku Snorri Sigurðsson og Sigurður Loftsson.


Til fundarins var mættur Páll Lýðsson, sem skýrði frá gangi ritunar 100 ára sögu BSSL. Hann kynnti drög að kaflaskilum sögunnar. Rætt var efnistök, ítarlegheit, stærð á broti o.fl.


Lagt var fram nýkomið erindi frá BÍ um breytingar á búnaðargjaldi. Athugasemdir verða að berast fyrir 20.okt.n.k. Ákveðið var stjórnarmenn hafi samband við framkvæmdastjóra, ef þeir hafa athugasemdir fram að færa.


Sveinn fór yfir starfsemi deilda BSSL og Stóra-Ármóts.


Ákveðið að hafa formannafund í Mýrdal 1.desember n.k. og hafa þar erindi a.m.k. um lánamál.


Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.



Guðmundur Stefánsson,
fundarritari


back to top