4. fundur 2006

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 2. maí 2006 á skrifstofu sambandsins og hófst hann kl, 11 f.h. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Ragnar Lárusson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson og Egill Sigurðsson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.


1. Verkaskipting stjórnar.
Þorfinnur Þórarinsson var endurkjörinn formaður. Varaformaður var kjörinn Egill Sigurðsson, ritari Guðmundur Stefánsson og meðstjórnendur Guðni Einarsson og Ragnar Lárusson.

2. Farið yfir tillögur frá aðalfundi.
Tillaga 1 um aðstoð við gerð niðurskurðarsamninga.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, leggur til að Búnaðarsambandið bjóðist nú þegar til að aðstoða sauðfjárbændur á riðusvæðum við öll samskipti við hið opinbera varðandi gerð niðurskurðarsamninga og efndir á þeim.
Greinargerð:
Allmargir bændur á félagssvæðinu hafa skorið niður undanfarin ár í baráttunni við riðuveiki. Reglur um bætur eru flóknar og mörg álitamál geta komið upp á hverjum bæ fyrir sig. Víða hefur dregist að fá gengið frá samningum og oftar en ekki hefur bændum gengið brösuglega að fá hið opinbera til að standa við gerða samninga.
Margir eru vanbúnir til að gæta hagsmuna sinna þar sem um svo flókin og umfangsmikil mál er að ræða og er því löngu tímabært að þær stofnanir sem reknar eru til að gæta hagsmuna bænda og leiðbeina þeim, taki málið upp og komi þessu fólki til aðstoðar.
Það yrði bændum mikill styrkur að fá dugandi ráðunaut til liðs við sig og að geta leitað til hans um upplýsingar og ráðleggingar í þessum erfiðu málum.
Hér er um töluverða hagsmuni að tefla fyrir þá bændur sem hafa skorið niður og ekki ríður minna á fyrir sauðfjárræktina á Íslandi að árangur náist í baráttunni við riðuveiki.

Samþykkt samhljóða.


Ákveðið að fela Runólfi Sigursveinssyni að sinna verkefninu. Tillagan verður kynnt Landbúnaðarstofnun og Bændasamtökunum.


Tillaga 2 um Landbótasjóð verður send til fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra og Bændasamtökunum.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, fer fram á við landbúnaðar- og fjármálaráðherra að þeir beiti sér fyrir því að þeir fjármunir sem samþykkt þingsályktun um landgræðsluáætlun 2003-2014 gerir ráð fyrir að sé veitt í landbótasjóð skili sér að fullu. Aðeins hafa 42 milljónir verið til ráðstöfunar af 90 milljónum sem áætlun 2003-2006 hljóðaði upp á.
Greinargerð:
Stórauknar kröfur eru gerðar til bænda um uppgræðslu á afréttum og heimalöndum vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Fjármögnun þessara uppgræðsluverkefna er að nánast öllu leyti háð fjárframlögum úr landbótasjóði. Ekki er ásættanlegt að bændur beri auknar álögur vegna landbótaáætlana ef ríkið skorast undan að standa við sinn hlut.

Samþykkt samhljóða.


Tillaga 3 um vinnubrögð Embætti yfirdýralæknis. Tillagan verður send Landbúnaðarstofnun og Bændasamtökuunum.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, lýsir vanþóknun á þeim vinnubrögðum sem Embætti yfirdýralæknis hefur viðhaft undanfarin ár, hvað varðar viðskipti við bændur sem glímt hafa við búfjársjúkdóma. Fundurinn krefst þess að Landbúnaðarstofnun komi þessum málum nú þegar í betra horf, fari að lögum og standi við gerða samninga.

Samþykkt samhljóða.


Tillögu 4 um eftirfylgni tillagna af aðalfundi er beint til stjórnar Búnaðarsambandsins.


Tilaga 5 um efnainnihald áburðar verður send til Landbúnaðarstofnunar, Landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtakanna.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, beinir því til Landbúnaðarstofnunar og landbúnaðarráðuneytis að sett verði fram skýr skilyrði um að áburðarsalar birti á samræmdan hátt efnainnihald þess áburðar sem þeir ætla að bjóða til sölu hér á landi.
Greinargerð:
Um þessar mundir er töluverð samkeppni í sölu áburðar hér á landi en áburðarsalar setja efnamagn áburðarins ýmist fram í hreinum efnum, sýrlingum eða hvoru tveggja. Á þetta fyrst og fremst við um framsetningu í innihaldi áburðar á fosfór og kalí en þó hefur komið fyrir að önnur steinefni hafi líka verið birt með ósamræmdum hætti. Þetta ósamræmi veldur stundum alvarlegum ruglingi og misskilningi og getur valdið því að bændur panti og noti í raun rangar áburðartegundir miðað við þarfir. Skaðinn getur komið fram hvort heldur sem er í dýrari áburðarkaupum en þarf að vera og ekki síður í óheppilegum efnahlutföllum gróffóðurs sem getur haft slæm áhrif á heilsufar búfjár.

Ósamræmd framsetning býður auk þess upp á hættuna á að þeir aðilar sem birta efnamagn áburðar í sýrlingum njóti þess að bændur telji þeirra áburð efnameiri og þar með ódýrari miðað við efnamagn. Framsetningin ein og sér skekkir því samkeppni.


Á það skal bent að í áratugi hafa íslenskar áburðarleiðbeiningar miðast við hrein efni í ræðu og riti og því væri eðlilegt að gera kröfu um að allir áburðarsalar settu fram og auglýstu efnamagn áburðar í hreinum efnum eingöngu.


Samþykkt samhljóða.


Tillaga 6 um ráðstöfun aðfanga sem standast ekki kröfur aðfangaeftirlits verður send Landbúnaðarstofnun og Bændasamtökunum.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, tekur undir tillögu frá aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 um áskorun til Landbúnaðarstofnunar að birta ætíð upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað.
Greinargerð:
Á heimasíðu Aðfangaeftirlits kemur fram að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefin gildi. Árið 2005 voru síðan tekin 45 sýni, þar af stóðust 10 sýni ekki uppgefin gildi. Ekki kemur fram um hvaða tegundir áburðar er að ræða eða frá hvaða innflytjendum hann er, né heldur hvernig honum er ráðstafað. Þar eð sýni úr umræddum áburðartegundum eru væntanlega ekki tekin fyrr en hann er kominn til landsins, hlýtur að vakna sú spurning hvað gert er við hann. Er það raunin að hann sé seldur á markaði eða er honum ráðstafað með öðrum hætti. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa bænda að þeir viti hvort á markaði eru slík vara og þá hver hún er og frá hvaða seljendum.

Samþykkt samhljóða.


Tillaga 7 um Nautastöð BÍ send Bændasamtökunum og ákveðið að fá formann og framkvæmdastjóra BÍ til fundar við stjórnina í júní.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings, um að vinna við endurnýjun aðstöðu Nautastöðvar BÍ verði hraðað. Jafnframt leggur fundurinn þunga áherslu á að komi til flutnings stöðvarinnar verði kostir þess að staðsetja hana í Gunnarsholti skoðaðir í alvöru m.t.t. sjúkdómavarna og rekstrarhagkvæmni.
Greinargerð:
Í ályktun síðasta búnðarþings er lögð áhersla á að kanna til hlítar þá kosti sem fyrir liggja með tilliti til kostnaðar, rekstraröryggis og staðsetningar. Jafnframt segir í greinargerð að “skoða verði til hlítar þær staðsetningar sem til greina koma út frá öryggi, fagumhverfi og nálægð við notendur”. Gunnarsholt er vel í sveit sett hvað varðar smitvarnir og hreinleika umhverfis en varasamt er að staðsetja einangrunarstöð í nálægð við búfénað sem borið getur með sér smitsjúkdóma eins og garna- og riðuveiki. Enn fremur má minna á að Gunnarsholt er í öflugasta nautgriparæktarhéraði landsins. Í því sambandi má geta þess að af síðustu 59 kálfum sem teknir voru inn á stöðina voru 38 af Suðurlandi. Á svæðinu er stundað kröftugt fagstarf á sviði landbúnaðar, í námunda við er rekin ein öflugasta leiðbeiningamiðstöð landsins í nautgriparækt og greitt til allra átta hvað varðar samgöngur. Eins er í Gunnarsholti gnótt bygginga- og ræktunarlands, því yrði rúmt um starfssemina og fóðuröflun hagkvæm. Að lokum tekur fundurinn undir með búnaðarþingi þar sem lögð er þung áhersla á að málinu verði hraðað og það unnið í sem allra bestri sátt við notendur.

Samþykkt samhljóða.


Tillaga 8 um kostnað við einstaklingsmerkingakerfið MARK send Landbúnaðarstofnun og Bændasamtökunum.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, skorar á Landbúnaðarstofnun að hluti þess gjalds sem innheimtur er í gegnum einstaklingsmerkingakerfið MARK, renni til búnaðarsambanda þar sem verulegur kostnaður hlýst af umsjón og umsýslu sem þau hafa með framkvæmd þess.

Samþykkt samhljóða.

3. Til fundarins komu Halldór Runólfsson og Jón Gíslason frá Landbúnaðarstofnun. Farið var yfir tillögur þær frá aðalfundi sem beinast að þessum embættum. Halldór fór yfir gang mála varðandi niðurskurðarbótamál. Jón Gíslason sagði að ósamið væri við fáa og þar strandaði á því að hreinsun húsa færi fram. Halldór sagði að gerð 65 samninga hefði komið til kasta embættisins á stuttum tíma án þess að heimild hafi verið fyrir auknum mannafla. Þá skýrði hann frá nýrri lagatúlkun um fyrningu á fjárhúsinnréttingum fyrir bótamat. Þá fóru Halldór og Jón yfir gang mála varðandi salmonellusýkingar á svínabúum árið 2001 og deilur um kostnað við sýnatökur til að koma svínakjöti á markað. Varðandi afdrif aðfanga greindi Jón frá því að tollafgreiðsla er stöðvuð í ár á áburði sem ekki stóðst kröfur sl.ár. Um samræmda birtingu efnainnihalds í áburði hjá áburðarsölum fer eftir Evrópulögggjöf sem innleidd er hér á landi. Varðandi kostnað við einstaklingsmerkingakerfið MARK kom fram að það eru Bændasamtökin sem innheimta gjald vegna merkjanna. Egill lagði áherslu á að MARK-kerfið þurfi að ganga hnökralaust þegar farið verður að borga gripagreiðslur skv. því.

4. Önnur mál.
Egill lagði til að Búnaðarsambandið bjóði út allar tryggingar og var samþykkt að huga að því. Einnig ræddi hann um skilgreiningu á hlutverki bústjóra á Stóra-Ármóti. Guðni ræddi um áhuga í Skaftárhreppi á auknum leiðbeiningum í jarðrækt.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið.


Guðmundur Stefánsson fundarritari


back to top