Ráðherra færðar góðar bækur

Einari K. Guðfinnssyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hafa verið færðar góðar gjafir á síðustu dögum. Í dag var honum færð bókin „Sáðmenn sandanna“, saga landgræðslustarfs á Íslandi sem tekin er saman af Friðriki G. Olgeirssyni sagnfræðingi. Bókin er gefin út af Landgræðslunni í tilefni þess að eitthundrað ár eru liðin frá upphafi skipulegs landgræðslustarfs hér á landi en engin þjóð virðist hafa starfað lengur samfellt að landgræðslu og stöðvun jarðvegseyðingar en við Íslendingar.

Þá var ráðherra færð önnur bók sl. fimmtudag (6.des) með ljósmyndum frá heimsleikum íslenska hestsins í Hollandi síðastliðið sumar.  Bókin er einungis gefin út í 15 eintökum og inniheldur safn listavel tekinna mynda Eyþórs Árnasonar frá keppni og af mannlífinu á mótsstaðnum. Bókina afhentu fulltrúar Landssambands hestamannafélaga og landsliðsins.


back to top