Félagsráðsfundur FKS 7.desember 2010

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi 7.desember 2010 haldinn í fundarsal Auðhumlu á Selfossi kl. 11.00


1. Fundarsetning
Þórir formaður setti fund kl.11 og bauð fundarmenn velkomna. Sagði frá helstu þáttum í starfi stjórnar frá síðasta fundi. Meðal annars um fund sem haldinn var á St-Ármóti með tilraunastjóranum Grétari Hrafni um helstu verkefni búsins.  Sagt frá frá þeim fundi í fréttabréfi Bssl auk fleiri verkefni stjórnar. Þá gat hann um  verkefni  varðandi stefnumörkun í samstarfi félagsins og Bssl sem hefði í raun tekið nokkra aðra stefnu en reiknað var með í upphafi en í kjölfar síðasta aðalfundar LK, hefur LK og Auðhumla verið í samstarfi um stefnumörkun til næstu ára og meðal annars leitað eftir gögnum úr SUNNU-verkefni  Búnaðarsambands Suðurlands. Þeirri vinnu lauk síðan nú í haust þegar skýrslu var skilað til stefnumörkunarhóps LK og Auðhumlu. Þessari úttekt verður  gerð skil hér á eftir af Runólfi og jafnframt kynntar tölur úr rekstri tveggja vel rekinna kúabúa af Suðurlandi, Norðurgarði og Stíflu.
 
2. Úttekt á rekstri SUNNU-búa síðustu 5 ár. – Samanburður „11    bestu búa“ við meðaltal SUNNU-búa   – Runólfur Sigursveinsson Bssl
Runólfur kynnti aðferðafræðina á bak við úttektina sem var unnin af Eggert Þ. Þórarinssyni og Runólfi. Í grófum dráttum gekk hún út á að finna þau kúabú innan SUNNU-hópsins sem væru ár hvert með hvað lægstan breytilegan kostnað á hvern innveginn lítra. Tekin vor saman gögn síðustu 5 ára, þ.e. frá 2005 til ársins 2009 og niðurstöðurtölur gerðar samanburðarhæfar út frá verðlagi ársins 2009.
Runólfur fór síðan yfir helstu niðurstöður úttektarinnar. Útaksbúin voru heldur stærri bæði í greiðslumarki og í innlögðu magni. Munurinn í innlögðu magni er um 19% útaksbúunum í vil. Tekjumegin virtust þessi „11 bestu bú“ vera með ívið lægri búgreinatekjur en meðaltal SUNNU-búanna, reiknað á hvern innveginn lítra. Hins vegar voru allir liðir breytilegs kostnaðar lægri á hvern lítra á úrtaksbúunum nema verktakakostnaður. Þessi munur milli hópanna var til staðar öll árin í öllum liðum. Mest munar í búvélakostnaði og minnst í kjarnfóðurliðnum. Í heildina var þess munur ígildi 6,60 kr/innveginn lítra. Að meðaltali voru úrtaksbúin með 14% lægri breytilegan kostnað yfir tímabilið. Í úttektinni var líka litið á fastan kostnað sem var einnig minni á úrtaksbúunum en þó var þar minni munur milli hópanna en í breytilega kostnaðinum.
Þær ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðum eru fyrst og fremst þær að úrtaksbúin séu einfaldlega með betri bústjórn en afgangurinn af SUNNU-hópurinn og geti brugðist betur við harðnandi rekstrarumhverfi en önnur.
Ef úrtakshópurinn er ekki tekinn með í heildarmeðaltal SUNNU-búanna þá verður munurinn enn meiri eða um 8 kr/l í breytilegum kostnaði. Sem gerir þá um 2,4 milljónir króna ári og þá 200.000 krónur á mánuði sem þessi bú haf meira úr að spila til að takast á fastan kostnað, laun og fjármagnskostnað, miðað við verðlag 2009. Mikilvægt er því að virkja  þennan hóp betur sem sýnir þennan góða árangur í rekstri ár eftir ár. Jafnframt sýnir þessi úttekt mikilvægi þess, sem er grunnur SUNNU-verkefnisins, rekstrartölur eins og þær birtast í ársreikningum búanna.


3. Hvernig er hægt að ná árangri í rekstri kúabúa ?
– Ásmundur Lárusson Norðurgarði
-Jóhanna Gunnlaugsdóttir og Sævar Einarsson Stíflu
Ásmundur í Norðurgarði sagði frá búrekstri sínum í Norðurgarði á Skeiðum en hann hóf búskap í Norðurgarði árið 1999. Fjallaði stuttlega um fóðuröflun búsins en byrjaði í stæðugerð árið 2003 og hefur síðust ár nýtt verktaka til að sjá um heyskapinn að mestu leyti. Er með rúmlega 60 kýr og 350.000 lítra framleiðslu. Er með um 25 hektara í byggi sem hann votverkar í votheysturni. Í Norðurgarði er rekin uppeldisstöð fyrir grísi og svínaskíturinn nýttur á tún og akra og skíturinn verið felldur niður að verulegu leyti síðustu tvö ár og það er sömuleiðis unnið af verktaka. Áður en Ásmundur fór út í stæðugerð var hann í samstarfi við tvö aðra bændur um heyskapinn og þá var starfrækt sérstakt fyrirtæki í kringum það Laufaþristur ehf. Í dag er svipaður vélakostur á búinu og var árið 2001. Hins vegar hafa verið gerðar gagngerðar endurbætur endurbætur í fjósi og eldri byggingar nýttar fyrir geldneyti frá árinu 2004. Þá var fyrir nokkrum árum tekinn í notkun sjálfkeyrandi fóðurvagn (Mix-feeder). Undanfarin fimm ár hefur búið verið með breytilegan kostnað vel undir meðaltali SUNNU-hópsins og framlegðarstigið verið á bilinu 64% til rúmlega 68%
Jóhanna og Sævar í Stíflu sögðu síðan frá búrekstri sínum í Stíflu í Landeyjum. Rakti í upphafi að þau hófu búskap árið 1978 að Selá og keyptum síðan árið 1987 kirkjujörðina Velli í Svarfaðardal, sem var þá í eyði, en fluttum með okkur bústofn og vélar frá Selá.  Árið  2003 flytjum við síðan að Stíflu og höfum búið þar síðan, erum með um 70 kýr um um 250.000 lítra framleiðslurétt. Fjósið er lausagöngufjós með mjaltabás og uppeldisaðstöðu. Árið 2004 brann vélageymsla hjá okkur og velar eyðilögðust. Endurnýjuðu síðan vélar og erum með rúlluverkun, rúlluvél og pökkunarvél.
Ráðdeild og sparsemi felst í að hugsa um hvað maður er að gera og til hvers. Hvað með rekstur vélanna er nauðsynlegt að setja dráttarvél í gang um leið og maður fer á fætur, bara til að nágrannarnir sjái og  heyri? Er nóg að eiga eina eða tvær dráttarvélar, þurfa þær allar að vera yfir 200 hesetöfl. Annar þáttur er skipulag t.d. rúllustæðunnar, hversu lagnt er í hana frá gripahúsum, 30 metrar eða 900 metrar ?
Erum núna með tvær dráttarvélar, önnur keypt árið 2005, 105 hestöfl, keyrð 2.600 tíma í dag, önnur keypt 2007, hún 140 hestöfl og er komin 1.700 tíma. Erum með 20-30 hektara á ári í jarðvinnslu, notum jarðvinnslutæki sem búnaðarfélagið á en notum þó eiginn pinnatætara. Notum heilfóðurvagn (Keenan) sem er þó nýttur fyrst og fremst til að blanda og mixa heyið saman auk steinefna. Finnst að þetta skipta máli m.t.t. að fóðrið verður einsleitara. Skipulagning í vinnu er mikilvæg og að ljúka einstökum verkþáttum, t.d. í heyskap. Honum er ekki lokið fyrr en rúllustæðan er tilbúin. Þó svo skipulagið sé gott er nauðsynlegt að hafa þá hugsun að búskapur er ekki bara peningar – þetta þarf líka að vera gefandi og gaman að starfa við þessi verk.
Sunnuverkefnið sýnir að við erum með góðar rekstrartölur en þó finnst okkur þær tölur ekkert sérstakar ef hoft er á heildarpakkann. Skuldir eru íþyngjandi og fjármagnið er alltof dýrt og þessi staða leiðir til þess að viðhald dregst á langinn. Bankinn hefur fitnað vel á okkur og greiðslubyrðin íþyngjandi. Það er hins vegar mikilvægt að vera þátttakandi í verkefni eins og SUNNU-verkefnið er, ekki síst að átta sig á hvernig staðan er á einstökum þáttum og hvar mögulega er hægt að gera betur. Undanfarin fimm ár hefur breytilegur kostnaður verið á  bilinu 33 kr til 41,50 kr/lítra miðað við verðlag 2009 og framlegðarstigið frá 64% upp í rúm 68%


Umræður um erindin:
Í umræðum var nokkuð rætt um stöðu SUNNU-verkefnis og framtíðina í því. Runólfur lýsti því  sem hann sæi fyrir sér sem grunn að framhaldinu; 
1. Rekstrargreining vegna liðins árs og jafnvel 6 mánaða uppgjör, þar inni væri SVÓT-greining. 
2. Samanburður sömu búa – framvísað í maí eða júní.
3.  Stóra samanburðarblaðið í okt/nóv og greinargerð.
4. Heimsókn á bæ eða farið yfir málin á skrifstofu.
Hins vegar væri nokkur óvissa hvernig þetta yrði fjármagnað eftir niðurskurð í búnaðarlagasamningi. Jafnframt þyrftu þátttakendur á hverjum tíma að horfa á hvað þeir vildu sjá út úr svona verkefni, hvort ætti að breyta um takt og jafnvel hugsa um allt aðra áherslu/nálgun. Verkefnið verður að vera fýsilegt og til gagns fyrir hvern og einn.
Elín í Egilsstaðakoti nefndi að kynna þyrfti  hvað árgjaldið í Sunnuverkefninu innihéldi ef framhald yrði á verkefninu.
Guðbjörg á Læk lagði áherslu á að verkefnið þyrfti að mæta þörfum bænda á hverjum tíma.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir hvort ekki væri þörf á að skoða sérstaklega þætti sem tengdust jarðræktinni – jafnvel að vera með sérhæft hópastarf á því sviði.
Ásmundur í Norðurgarði velti fyrir sér kostnaðinum við SUNNU-verkefnið
Runólfur sagði að flest árin hefði verið innheimt árgjald, 10-15.000 krónur, til viðbótar hefur komið framlag í gegnum búnaðarlagasamning, fyrir þau bú sem eru búin að vera lengst í verkefninu þá er framlagið þaðan 25.000 kr/bú.
Ragnar í Birtingaholti lagði áherslu að halda áfram við verkefnið en það þyrfti á hverjum tíma að skoða hvaða þætti ætti sérstaklega að leggja áherslu á.
Sævar í Stíflu nefndi sérstaklega SMS-hópanna sem hefðu skilað örugglega miklu , þ.e. þeir hópar sem náðu að starfa í nokkurn tíma.
Samúel í Bryðjuholti spurði um árangur einstakra búa í verkefninu, sjást breytingar t.d. í framlegðarstigi hjá einstökum búum frá því sem var á 1.ári og síðan t.d. eftir 3-4 ár ?
Runólfur sagði að þetta væri nokkuð mismunandi eftir búum, sum búin hefðu sýnt merkjanlegan betri árangur eftir því sem árunum fjölgar. Hins vegar væru ávallt einhver bú sem virtust ekki ná að tileikna sér þær niðurstöður sem koma fram og ná ekki að tileinka sér verkefnið til betri bústjórnar. Hins vegar væri jafningafræðsla mikilvæg líkt og reynt var í SMS-hópunum og eins vitnisburður bænda eins fram kom hér á undan.


4. Félagsstarf FKS og undirbúningur aðalfundar FKS – Þórir Jónsson formaður FKS
Þórir á Selalæk ræddi fyrst félagsstarfið og félagatalið, þörf er á að vera vakandi yfir því að fá nýja félagsmenn inn í félagið.
Elín í Egilsstaðakoti dreifði yfirliti um félagatal til félagsráðsmanna og bað um að hver og einn færi yfir listann.
Guðbjörg á Læk sagði að í sumum tilvikum mætti opna félagsráðsfundina meira fyrir almennum félagsmönnum, til dæmis eins og fundinn í dag. Þessi umfjöllun ætti erindi til allra kúabænda.
Þórir á Selalæk  taldi það vera mjög til skoðunar eftirleiðis að hafa í sumum tilvikum opna félagsráðsfundi.
Katrín Birna á Ásólfsskála nefndi að ávallt þegar kosið væri t.d. um mjólkursamning þá kæmu alltaf einhverjir nýir félagsmenn inn í félagið.
Þórir á Selalæk ræddi áhuga fyrirtækja á að FKS kæmi að ýmisskonar kynningum þegar um væri að ræða einhverjar uppákomur á vegum fyrirtækja. Gott væri að geta verið með ákveðið kynningarefni til staðar í þeim tilvikum. Spurning hvort LK ætti ekki að hafa frumkvæði að slíku fyrir aðildarfélögin, þarna gæti verið um að ræða boli,húfur og annað það sem vekti athygli á viðkomandi félagi/starfsemi.
Þórir ræddi einnig að þörf væri á að halda fund með forsvarsmönnum Bssl nú í desember eða janúar um sameiginleg verkefni og áherslur í starfi búnaðarsambandsins í nautgriparækt.
Loks ræddi Þórir komandi aðalfund félagsins sem væntanlega verður haldinn á svipuðum tíma og undanfarin ár, í lok janúar eða byrjun febrúar. Skipa þarf kjörnefnd fyrir aðalfundinn og stakk hann upp á Ásmundi í Norðurgarði sem formanni kjörnefndar.  Tillagan samþykkt. Stjórnin mun síðan finna tvo aðrar nefndarmenn til starfa með Ásmundi.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður kynnt niðurstaða nefndar sem skipuð var eftir síðasta aðalfund félagsins  um launakjör stjórnar.
Sigurður Loftsson formaður LK ræddi félagsstarfið og fjármögnun félagsstarfs, nauðsynlegt væri að vera vakandi yfir ráðstöfun þeirra fjármuna sem koma í gegnum búnaðargjaldið m.a. til LK.


5. Staðan í stefnumörkunarvinnu LK – Sigurður Loftsson formaður LK og Daði Már Kristófersson hagfræðingur.
Sigurður Loftsson formaður LK ræddi hvernig unnið hefði verið eftir ályktun síðasta aðalfundar LK um lækkun framleiðslukostnaðar. Gat um stefnumörkunarhóp LK og Auðhumla sem þessi samtök hafa starfrækt undanfarin misseri og þá vinnu sem þegar hefur verið unnin, reiknað með starfi þessa hóps ljúki fyrir næsta aðalfund LK.
Daði Már Kristófersson hagfræðingur ræddi framleiðslukostnað mjólkur milli landa út frá tiltækum gögnum sem eru frá 2007. Ljóst að kostnaður hér á landi er langtum hærri en annars staðar. Mest munar í fjármagnskostnaði og afskriftum. Ljóst að undanfarin ár hafa verulegar greiðslur farið út úr mjólkurframleiðslunni, frá núverandi bændum til fyrrverandi bænda. Breytingar á kerfinu fela í sér eignatilfærslu milli kynslóða. Ræddi um leiðir til að lækka framleiðslukostnað; meðal annars nýtt og afkastameira kúakyn, ekki síst í tæknivæddum fjósum þar sem hver bás er mjög dýr, kostnaðarlækkun gæti orðið um 10%. Önnur kostnaðarlækkun er í afnámi kvótakerfi, lækkun um 15%. Lækkun á breytilegum kostnaði vegur minna en ofangreindir þættir, mögulega um 10% lækkun miðað við heildarkostnað.
Hvaða möguleikar eru til að komast út úr kvótakerfi ? Það er  mjög erfitt í framkvæmd, hagsmunir bænda mjög mismunandi í núverandi kerfi. Núverandi kvótamarkaður er tilraun til að hægja á þessari eignatilfærslu.
Ein leiðin gæti verið að gera ekkert, samkeppnisstaða batnar ekkert, ef samkeppni kemur þá tapa þeir sem eru skuldugastir og verða gjaldþrota, eftir standa þá aðrir sem taka við án skulda.
Önnur leið væri t.d. uppkaupaleið. Ásættanleg upphæð miðað við raunbeingreiðslur og 7,5% vexti  270 kr/l miðað við óbreyttar greiðslur næstu 10 ár. Bætir samkeppnisstöðu lítið í raun nema greitt sé yfir raunvirði. 
Mögulegar leiðir til að lækka kvótaverð/minnka kostnað kerfisins, gæti verið t.d. að banna afskriftir kvóta => umsvifalaus lækkun framleiðslukostnaðar – á pappírunum, síðan væri einnig mögulegt að lækka beingreiðslur  og taka upp annað form á stuðningi, t.d. gripagreiðslur, landgreiðslur  eða eingreiðslur.
Kúabændur eru að einhverju leiti fangar kvótakerfis, þeir eru tryggir með afkomu en núverandi kerfi dregur úr samkeppnishæfni til lengri tíma. Engar góðar leiðir til nema ríkið komi með nýja peninga. Leiðréttingar á kerfinu sem draga úr göllum þess fela í sér eignatilfærslur frá núverandi bændum, sérstaklega þeim eldri, til yngri bænda og bænda framtíðarinnar.
Umræður um erindi Daða:
Samúel  í Bryðjuholti ræddi núverandi kvótakerfi t.d. í Evrópu, hagsmunir stærri og smærri búa fara ekki saman. Smærri búin vilja halda í núverandi kerfi.
Valdimar í Gaulverjabæ ræddi fjármagnskostnaðinn í núverandi kerfi og á Íslandi almennt. Daði Már sagði að eðli núverandi kerfis væri, að flest kúabú hlytu ávallt að vera skuldsett og því yrðu ávallt nokkur hópur sem hlytu að vera fjárhagsleg tæpur, ekki síst þegar  kreppuástand kemur til.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér uppkaupaleiðinni, hvernig hún myndi vera ef það væri vatnshalli á stuðningnum.
Katrín Birna í Ásólfsskála velti fyrir sér hversu mikið fjármagn færi út úr greininni ár hvert í formi kvótagreiðslna. Daði Már nefndi töluna tvo milljaða.
Bóel á Móeiðarhvoli spurði um hvort ekki mætti líta á kvótakerfi sem einhversskonar kerfi sem væri án tíma. Daði Már taldi að 1.kynslóðin myndi alltaf hagnast en síðari kynslóðir tapa.
Jóhann í St-Hildisey ræddi möguleikann á því að fara grænmetisleiðina, tryggja öllum  aðgang að innanlandsmarkaði en síðan yrðu allar greiðslur á framleiðslu.
Sigurður Loftsson formaður LK ræddi hvernig vinnu við stefnumörkunina myndi ljúka í vetur.
Samúel í Bryðjuholti velti fyrir sér hvort fjármálaþekking íslenskra bænda væri lakari en stéttarbræðra sinna erlendis. Daði Már taldi slíkt ekki vera með hliðsjón af stöðu annarra atvinnugreina hér á landi.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér samsetningu kostnaðar milli landa og dró í efa að fóðurkostnaður gæti verið lægri  hér á landi en t.d. í Danmörku.
Runólfur ræddi mögulega stöðu íslenskrar mjólkurframleiðslu ef til kæmi innganga í ESB og hvernig búgreinin myndi bregðast við.


6. Önnur mál
a. Ályktun um verðlagsmál
Þórir ræddi drög að ályktun sem stjórnin lagði til  varðandi verðlagsmál en ætlunin er að senda hana formanni verðlagsnefndar, Ólafi Friðrikssyni. Eftirfarandi ályktun var samþykkt:


Ályktun frá félagsráði Félagi kúabænda á Suðurlandi  07.12 2010


Fundur haldinn í  félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi  á Selfossi  7. desember  2010 ályktar:


“Félagsráð  Félags kúabænda á Suðurlandi  lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu kúabænda  ef ekki tekst að leiðrétta lágmarksverð mjólkur. Það vill eindregið hvetja  verðlagsnefnd til að lita á  hversu alvarleg staðan í greininni getur orðið ef ekki tekst að koma leiðréttingu á lágmarksverði mjólkur fram sem fyrst.


Það er löngu orðið tímabært að leiðrétta lágmarksverð mjólkur það hefur ekki verið leiðrétt í rúm 2 ár. Hækkunarþörfin var 8,65% eða 6,15 kr/l samkvæmt verðlagsgrundvelli kúabús frá 1. september sl. og þá er ekki tekið tillit til leiðréttingu á fjármagnsliðum sem geymd hefur verið frá verðlagningu 1.apríl 2008 en hún var þá metin á 2,79 kr/l.


Afkoma kúabænda hefur þyngst verulega undanfarið. Því hefur  lengi verið haldið fram með réttu  að staða kúabænda sem stóðu í framkvæmdum (fjósbyggingum) á árunum fyrir hrun sé erfið. En nú er svo komið að þeir bændur sem  sigldu nokkuð lygnan sjó úr hruninu með tiltölulega viðráðanlega skuldastöðu eiga í vaxandi greiðsluerfiðleikum með  búreksturinn. Verðhækkanir í tugum prósenta hafa dunið yfir greinina eins og skúraský og það virðist ekkert lát á því, kjarnfóðurshækkanir í september s.l.  4% – 10%  og nú um síðustu mánaðarmót  hækkun um  2% -8%. Þá er talað um verulega hækkun á áburðarverði á næsta ári.


Auk þess sem að framan er upptalið er gengið ofan í gerða samninga eins og framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda. Það nam 8% af viðmiðunartekjum  bænda en var fellt niður 1.júlí sl. Það er ekkert annað en kjaraskerðing , en á sínum tíma kom þetta framlag ríkisins  til Lífeyrissjóðs bænda í stað verðhækkana á afurðum, að fella niður framlag í Lífeyrissjóð bænda er hrein kjaraskerðing á bændur. Skerðing á  framlagi ríkisins til  búnaðarlagasamningsins þýðir ekki annað en það að annað hvort fellur þjónustan og ráðgjöfin niður  sem BÍ og búnaðarsambönd inna af hendi eða reikningurinn fyrir hana verður sendur viðkomandi bónda.”


Ákveðið  að senda öllum verðlagsnefndarmönnum ályktunina.



b. Jórunn á Drumboddsstöðum spurði um álit formanns LK á niðurstöðu fyrsta kvótamarkaðarins.
Sigurður formaður LK sagðist vera tiltölulega ánægður með niðurstöðunar, þörf væri þó að fjölga markaðasdögum innan ársins.



Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16


Runólfur Sigursveinsson
fundarritari


back to top