Breytingar á skilmálum landbúnaðartryggingar VÍS
VÍS hefur um árabil boðið bændum „landbúnaðartryggingu“ sem er sérsniðin trygging fyrir búrekstur. Landbúnaðartryggingin er víðtæk og tekur til búfjár, heyja og annars fóðurs samkvæmt forðagæsluskýrslum ásamt áhöldum og tækjum sem tilheyra hefðbundinni búfjárrækt. Einnig er ábyrgðartrygging bænda innifalin í tryggingunni.
VÍS hefur nú útvíkkað skilmála landbúnaðartryggingarinnar sem felst í því að bæta við rekstrarstöðvun vegna kjötframleiðslu sem tekur á framlegðartapi sem verður vegna bruna. Bóndi sem verður fyrir því tjóni að missa bú sitt í bruna fær því greidda framlegð (greiðslur vegna kjötframleiðslu að frádregnum hefðbundnum kostnaði) af kjötsölu ef fullnaðarbætur fást ekki greiddar úr lausafjárhluta landbúnaðartryggingarinnar.
Í tilkynningu frá VÍS segir að það sé von fyrirtækisins að þessi aukna vernd mælist vel fyrir hjá bændum. Ákveðið hefur verið að iðgjald landbúnaðartryggingarinnar hækki ekki þrátt fyrir þessar breytingar sem taka gildi nú þegar.
Landbúnaðartrygging VÍS er byggð á upplýsingum úr forðagæsluskýrslum og því er mikilvægt að þeir bændur sem ekki hafa undirritað umboð sem heimilar VÍS að fá þær upplýsingar geri það sem fyrst.
Skilmálar landbúnaðartryggingar VÍS