Um greiðslur á geymslugjöldum

Að því er fram kemur á heimasíðu Landssamtaka sauðfjárbænda hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur staðfest tillögu BÍ og LS um fyrirkomulag útborgunar á geymslugjöldum til bænda, en eins og kunnugt er þá munu þau greiðast innleggjendum beint héðan í frá í stað sláturleyfishafa.
Geymslugjald greiðist pr. kg á allt framleitt kindakjöt þ.m.t. heimtekið og greiðist beint til viðkomandi innleggjanda skv. þeim gögnum sem liggja fyrir hjá Bændasamtökunum.
Bændur sem eru fjárlausir vegna riðuniðurskurðar fá greiðsluna einnig. Hjá þeim liggur fyrir útreiknað afurðamagn sem notað er til að greiða afurðatjónsbætur og verður miðað við það.

Greiðsla 2010 verður miðuð við framleiðslu júlí – okt 2010 og má áætla að hún verði 29-30 kr/kg og mun verða innt af hendi eins fljótt og auðið er.


Þessi viðmiðun verður aðeins notuð einu sinni og með því klárast fjárveiting ársins 2010.  Hingað til hafa fjárveitingar tveggja ára verið notaðar til þess að greiða hvern samning fyrir sig þ.e. til að greiða samninginn við sláturleyfishafa í fyrra voru nýttir hlutar af fjárveitingum ársins 2009 og 2010.  Einnig hefur hluti fjárins verið notaður til þess að greiða sumarálagsgreiðslur Markaðsráðs og geymslugjald til bænda, en hvorttveggja verður lagt af um áramótin.   Því er ekki full fjárveiting til ráðstöfunar nú.


Hinsvegar verður greiðslan fyrir 2011 innt af hendi í febrúar nk. og þá miðað við framleiðslu jan-des 2010.   Miðað við að fjárlög verði samþykkt óbreytt verður sú greiðsla næstum 40 kr/kg, ef framleiðslan verður eins og nú er áætlað.   Framvegis verða greiðslurnar þannig þ.e. greiðsla 2012 verður þá í febrúar 2012, miðuð við framleiðslu jan-des 2011 o.s.frv. á meðan að samningurinn er í gildi.  Síðasta greiðsla skv. honum fer þá fram í febrúar 2015.


Ekki verða því greiðslur á haustin nema núna.


Búið var að áætla að greiðslan 2010 yrði 35-36 kr. kg.  Það byggði á því að sama aðferð  yrði notuð og áður þ.e. hluti fjárveitingar 2011 yrði notaður til að greiða 2010 og hefði þá þurft að greiða í tveimur hlutum.  Þegar fyrir lá að e.t.v. yrði mögulegt að fá alla greiðsluna 2011 strax í febrúar var ákveðið að leggja frekar til að það yrði gert, til að einfalda uppgjör og utanumhald og ráðuneytið féllst svo á það eins og áður sagði.


back to top