3. fundur 2009 – haldinn 29. apríl
Fundinn sem haldinn var á skrifstofu Búnaðarsambandsins sátu, Guðbjörg Jónsdóttir formaður, Guðni Einarsson, Ragnar Lárusson, Egill Sigurðsson, Gunnar Eiríksson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.
1. Stjórnin skiptir með sér verkum. Formaður Guðbjörg Jónsdóttir, varaformaður Egill Sigurðsson og ritari Guðni Einarsson.
2. Afgreiðsla tillagna frá aðalfundi 2009.
Tillaga 1/Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að hafna aðild að ESB með vísan í rök Bændasamtaka Íslands.
Samþykkt að senda tillöguna til BÍ, þingmönnum Suðurkjördæmis og sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneyti.
Tillaga 2 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á Bændasamtök Íslands að halda fast við þá stefnu sem samtökin hafa markað varðandi matvælafrumvarpið, þ.e. að hafna með öllu innflutningi á hráu kjöti.
Samþykkt að senda tillöguna til BÍ, þingmönnum Suðurkjördæmis og sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneyti
Tillaga 3 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á stjórn BSSL að gerð verði úttekt á samskiptum bænda, vegagerðar og sveitarstjórna varðandi girðingar með þjóðvegi 1 á svæði BSSL.
Sveini falið að vinna í málinu.
Tillaga 4 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á Bændasamtök Íslands að efla verkefnið Opinn landbúnaður, þar sem mikilvægi landbúnaðar í fæðuöryggi þjóðarinnar er mikið í ljósi stöðunnar í samfélaginu í dag.
Samþykkt að senda tillöguna til BÍ.
Tillaga 5 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, beinir því til stjórnar BSSL að vinna að því að gerð verði úttekt á möguleikum þess að hefja áburðarframleiðslu á Suðurlandi, þar sem stærsta markaðssvæðið er.
Greinargerð:
– Fæðuöryggi.
– Auka rekstraröryggi bænda.
– Lækka áburðarverð.
– Spara gjaldeyri.
– Auka atvinnu.
Ákveðið að afla frekari gagna og taka málið fyrir á næsta fundi.
Tillaga 11 / Fagmálanefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, skorar á landsráðunauta í nautgriparækt og Bændasamtök Íslands að vinnu við nautgriparæktarkerfið Huppu verði hraðað. Sérstök áhersla verði lögð á að koma rafrænni gagnalesningu á, útprentunum og skýrslugerð í gott lag með þarfir bænda og héraðsráðunauta að leiðarljósi.
Greinargerð:
– Kynbótamat ungnauta fæddra 2002 hefur ekki verið birt enn, sem hefur bein áhrif á val nautsmæðra.
– Ársfjórðungayfirlit eru ekki tiltæk.
– Kúadómar frá liðnu sumri hafa ekki borist bændum enn.
Brýnt að vinna að frekari þróun, hvaða þessa þætti varðar, fari fram í góðri samvinnu við
bændur og héraðsráðunauta þannig að þeirra þarfir komi skýrt fram og séu hafðar að leiðarljósi.
Samþykkt að senda tillöguna til BÍ og landsráðunauta í nautgriparækt.
Tillaga 12 / Fagmálanefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að hefja nú þegar tilraunir með niðurfellingu mykju.
Greinargerð:
Tæki til niðurfellingar er nú þegar komið á Suðurland. Lítið er hins vegar vitað
hvort eða hversu miklu niðurfelling skilar en slíkt er mikilvægt að vita á tímum hækkandi
áburðarverðs.
Samþykkt að senda tillöguna til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Stjórn BSSL vill benda á að hægt er að framkvæma tilraunina að Stóra-Ármóti.
Tillaga 13 / Fagmálanefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, skorar á stjórn og framkvæmdastjóra BSSL að haga störfum nautgriparæktarráðunauta þannig að kúaskoðun sé framkvæmd tvisvar sinnum á ári, haust og vor. Að hausti í október mánuði og að vori í mars mánuði. Dómurinn sé í tvíriti og afrit verði eftir í fjósi.
Sveini falið að skoða málið í samráði við Félag kúabænda á Suðurlandi og landsráðunauta í nautgriparækt.
3. Aðalfundurinn og skilaboð frá honum.
Miklar umræður voru um kynbótastarf í nautgriparækt. Einnig var bent á að auka þurfi upplýsingastreymi frá tilraunastarfseminni á Stóra-Ármóti.
4. Tillaga frá búnaðarþingi um lækkun eða niðurfellingu sjóðagjalda og tillögur um breytingar á félagskerfi landbúnaðarins, þar sem óskað er eftir viðhorfi til málsins.
Stjórn BSSL fagnar framkominni tillögu og felur Guðbjörgu og Sveini að senda BÍ viðhorf stjórnar.
5. Starfsemin framundan.
Sveinn fór yfir þá starfssemi sem framundan er og stöðu mála í dag.
6. Önnur mál.
Sveinn gerði grein fyrir því að Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands væri að skoða möguleika á leigu húsnæðis sem laust er hjá BSSL.
Laun framkvæmdastjóra. Guðbjörgu og Agli falið að skoða málið fyrir næsta fund.
Fundi slitið,
Guðni Einarsson